Nýtt nám með nýju sniði

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar

Töluverðar breytingar verða á meistaranáminu við hagfræðideild Háskóla Íslands frá og með næsta hausti. Boðið verður upp á nýja gráðu, MA í hagnýtri hagfræði, og náminu skipt í sjö vikna lotur þar sem nemendur læra tvo kúrsa í einu, frekar en þrettán vikna annir þar sem nemendur sitja fjóra til fimm kúrsa.

Ásgeir Jónsson er forseti hagfræðideildar og segir hann nýja námið m.a. til þess gert að opna hagfræðina fyrir fólki með ólíkan námsbakgrunn. „Ekki er gert ráð fyrir því að nemendur hafi lokið BS-prófi í hagfræði til að geta hafið MA-nám í hagnýtri hagfræði. Er nýja námið því aðgengilegt t.d. þeim sem lokið hafa grunnámi í stjórnmálafræði, viðskiptafræði, eða lögfræði. Þetta gerum við með því að nota fyrstu kennslulotuna til að fræða nemendur um grunnatriði hagfræðinnar, og skerpa á stærðfræði- og tölfræðiþekkingu þeirra.“

Áfram mun deildin bjóða upp á meistaranám í fjármálahagfræði og er þar gerð krafa um sterkan grunn í stærðfræði og tölfræði, en ekki krafist hagfræðimenntunar. Þá bjóða hagfræðideild og viðskiptadeild í sameiningu upp á þverfaglegt M.Fin. meistaranám í fjármálum.

Stundum kviknar áhuginn seint

Ásgeir segir hagfræði í mikilli sókn um allan heim og hefur áhugi á greininni vaxið mjög hjá ungu fólki. Oft er þó eins og hagfræðiáhuginn kvikni ekki hjá háskólanemendum fyrr en þeir eru komnir áleiðis í öðru námi. „Kannski má skrifa það á að þekking á faginu er fremur lítil, og kann að stafa af því hve lítið nemendur eru fræddir um hagfræði í grunnskóla og framhaldsskóla. Nefnir fólk oft við mig að það hefði óskað þess, eftir á að hyggja, að hafa lagt hagfræðina fyrir sig en ekki fundist fagið áhugavert, nýskriðin úr framhaldsskóla.“

Ásgeir Jónsson.
Ásgeir Jónsson.

Bendir Ásgeir á að meistaranám í hagfræði sé mjög góð viðbót við grunn á öðrum fræðasviðum. „Þeir sem lokið hafa grunnnámi í verkfræði gætu t.d. bætt við sig mastersgráðu í hagnýtri hagfræði og þá átt fullt erindi við fjármálamarkaðinn, á meðan nemendur með grunn í stjórnmálafræði verða, með nýja MA námið í vasanum, öflugur liðsauki t.d. í opinberri stjórnsýslu,“ segir hann. „Ætlunin er að þróa námið áfram þannig að ekki verði mikið af skyldufögum og að nemendur hafi svigrúmið til að sníða sér gráðu eftir eigin höfði.“

Með því að kenna í sjö vikna lotum á námið að koma betur til móts við þarfir nemendanna. „Viðskiptafræðideildin hefur farið þessa leið í endurskoðunarnáminu og ber því vel söguna. Kennsla í stuttum lotum kallar á öðruvísi vinnulag, þar sem nemendur einbeita sér að færri fögum af meiri krafti í skemmri tíma, og hafa nemendur við skólann verið fylgjandi þessu fyrirkomulagi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK