Kaup í Skeljungi til rannsóknar

mbl.is/Árni Torfason

Kaup hjónanna Guðmundar Arnar Þórðarsonar og Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, ásamt öðrum fjárfestum, á hlutum í Skeljungi árið 2008 og færeyska olíufélaginu P/F Magn árið eftir eru til skoðunar hjá embætti héraðssaksóknara.

Fjallað er um málið á fréttavef Fréttablaðsins en ástæða rannsóknarinnar er kæra Íslandsbanka frá árinu 2016. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Guðmundi Erni og Svanhildi Nönnu. Þar segjast þau telja einsýnt að opinber rannsókn á viðskiptunum muni eyða öllum vafa um réttmæti þeirra og að kaupin hafi borið að með eðlilegum hætti.

Þau hafi veitt fulltrúum héraðssaksóknara allar upplýsingar sem þeir hafi óskað eftir og muni áfram verða þeim innan handar við rannsóknina. Þá hafi þau greint Fjármálaeftirlitinu frá rannsókninni að eigin frumkvæði, stjórnendum og regluvörðum þeirra skráðu félaga sem þau hafi tekið þátt í að stýra. Rannsóknin tengist umræddum félögum þó ekki.

Þar segir enn fremur að hjónin muni áfram sitja í þeim stjórnum sem þau hafi átt sæti í en Svanhildur Nanna hafi ákveðið að láta tímabundið af stjórnarformennsku í tryggingafélaginu VÍS, þar sem þau eru einn stærsti hluthafinn, á meðan rannsóknin stendur yfir.

Ráðist var í aðgerðir á fimmtudaginn vegna málsins og lagt hald á gögn í húsleitum auk þess sem einhverjir voru handteknir samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins. Hinum handteknu var síðan sleppt að lokinni skýrslutöku og enginn úrskurðaður í gæsluvarðhald. Rannsóknin mun snúa að meintum umboðssvikum samkvæmt fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK