Opna fjögurra stjörnu lúxushótel í Borgarnesi

Jóel Salómon Hjálmarsson, hótelstjóri B59 hotel, var að vonum kátur …
Jóel Salómon Hjálmarsson, hótelstjóri B59 hotel, var að vonum kátur við opnun hótelsins í dag. Ljósmynd/Guðmann Þór

Nýtt fjögurra stjörnu hótel, B59 hotel, opnar dyr sínar í Borgarnesi í dag. Á hótelinu, sem samanstendur af 81 hótelherbergi, er að finna þrjár tæplega 50 fermetra hótelsvítur auk átta annarra herbergja með einstöku útsýni. Jafnframt er á hótelinu fullkomin heilsulind og líkamsræktaraðstaða, þar sem boðið verður upp á nudd og snyrtimeðferðir, að því er segir í tilkynningu hótelsins. 

Bjóða íbúum að gleðjast með sér

„Það er margt um að vera,“ segir Jóel Salómon Hjálmarsson, hótelstjóri B59 hotel, í samtali við mbl.is. „Við brugðum á það ráð að bjóða öllum íbúum Akraness, Borgarness og nærsveita að gleðjast með okkur og bjóðum þess vegna í opið hús í allan dag. Fólki er velkomið að koma og skoða hótelið og þiggja léttar veitingar,“ segir Jóel, en hátíðaropnunin stendur yfir milli kl. 14 og 20 í dag.

„Þetta verður fjögurra stjörnu lúxushótel og við leggjum rosalega mikið upp úr þjónustu við gesti og gæðum í þjónustu. Við viljum frekar vera með færri gesti í húsi og geta passað upp á að við veitum öllum gestum þá þjónustu sem við viljum veita. Stærsta svítan okkar er 46 fermetra hornsvíta með frábæru útsýni yfir Mýrarnar, Hafnarfjallið og Borgarfjörðinn. Við erum staðsett á Borgarbraut 57, í miðbæ Borgarness. Bara á besta stað,“ segir Jóel.

Íbúum Borgarness, Akraness og nærsveita var boðið á hátíðaropnun hótelsins …
Íbúum Borgarness, Akraness og nærsveita var boðið á hátíðaropnun hótelsins í dag. Ljósmynd/Guðmann Þór

Svara kallinu vegna aukins ferðamannastraums

Hann segir Borgnesinga hafa fundið fyrir auknum ferðamannastraumi að undanförnu. „Við erum að svara kallinu. Borgarnes hefur í gegn um árin verið pissustopp ferðamanna, en með aukinni afþreyingu á svæðinu, t.d. Into the Glacier í Langjökli, heitu pottunum í Krauma og svo auðvitað náttúrufegurðinni á Snæfellsnesi þá erum við að sjá fleiri ferðamenn stoppa og skoða sig um á Vesturlandi. Það er eftirspurnin sem við erum að mæta,“ segir Jóel.

Veitingastaður hótelsins, Snorri kitchen and bar, mun leggja áherslu á hráefni úr héraði. „Við erum búin að vera í miklu sambandi við bændur á svæðinu og leggjum áherslu á íslenska matargerð með alþjóðlegu ívafi, notum íslenskar matarhefðir og klassíska matargerð. Við viljum bjóða bæði þeim gestum sem gista á hótelinu sem og Íslendingum sem eiga leið hjá og heimafólki að fá að upplifa gæðahráefni úr héraði,“ segir Jóel.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK