Bílaframleiðslulönd þétta raðirnar

Raðir af bílum við höfnina í Richmond. Mikið er í …
Raðir af bílum við höfnina í Richmond. Mikið er í húfi ef tollar hækka. AFP

Fulltrúar Kanada, ESB, Japans, Mexíkó og Suður-Kóreu munu hittast í Genf í vikunni til að ræða hvernig megi bregðast við hótunum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að leggja tolla á innflutta bíla og varahluti. Reuters greinir frá þessu og hefur eftir embættismönnum sem komið hafa að undirbúningi fundarins.

Eins og greint hefur verið frá lét Trump hefja rannsókn á því hvort innflutningur á bílum geti ógnað þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Sams konar rannsókn var notuð til að réttlæta tolla sem Trump lagði á ál og stál í byrjun þessa árs en talið er mögulegt að Bandaríkjastjórn leggi allt að 25% viðbótartoll á bifreiðar. Gagnrýnendur forsetans hafa bent á að tollarnir myndu hafa þau áhrif að hækka verð á bílum, draga úr sölu nýrra bifreiða og leiða til fækkunar starfa hjá bílaframleiðendum um allan heim.

Er talið sennilegt að fundurinn í Genf miði að því að samræma aðgerðir komi til þess að Trump láti til skarar skríða. Viðbrögð bílaframleiðslulandanna gætu falist í að leggja sams konar tolla á innflutning frá Bandaríkjunum eða kæra hækkaða tolla Trumps til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Mun meiri hagsmunir eru í húfi nú en þegar tollar á ál og stál voru hækkaðir, en árið 2016 fluttu Bandaríkinn inn bíla fyrir 173 milljarða dala og bílaíhluti fyrir 70 milljarða, en fluttu á sama tíma inn stál fyrir 21 milljarð. ai@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK