Langlíft hobbí tveggja vina

Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar í Kjörgarði hefur lengi verið einn …
Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar í Kjörgarði hefur lengi verið einn af hornsteinum verslunar í miðbænum. mbl.is/Ómar Óskarsson
Hin rótgróna Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar hefur staðið á neðri hæð Kjörgarðs síðastliðin 22 ár. Þeir félagar segjast vera með mörg járn í eldinum en nýlega opnuðu þeir fataverslun fyrir konur á Skólavörðustíg.
Þegar blaðamaður hafði samband við Kormák Geirharðsson, stórkaupmann og annan af stofnendum Herrafataverzlunar Kormáks og Skjaldar, stóð hann í miðri á að renna fyrir lax.

„Ég er að veiða í Fáskrúð í Dölum með vinum og konum,“ segir Kormákur þegar blaðamaður spyr hvar hann sé að veiða. „Ég er nú svo nýkominn og ekkert búið að bíta á agnið enn, en það eru einhverjir laxar hér í kring. Ég er nú meiri golfari en veiðimaður, þessi ferð er meiri „wine and dine“ en veiðiferð í sjálfu sér.“ 

22 ára gömul fataverslun

Spurður hvort rekstur hinnar 22 ára gömlu herrafataverslunar hafi alltaf gengið vel segir Kormákur að þetta sé nú meira „hobbí“ hjá þeim félögum sem hafi enst lengi. 

„Það má segja að þetta sé í rauninni lengsta hobbí sem við höfum haft saman. Þetta hefur nú ekki gefið af sér mikið meira en föt og annað í þeim dúr. Við höfum verið að byggja þetta upp og stækkað verslunina í Kjörgarði nokkrum sinnum. Við höfum einnig ráðist í alls kyns framleiðslu, og gert það án þess að taka mikið af lánum. Við höfum leyft þessu að sigla svolítið án utanaðkomandi fjármögnunar.“

Kormákur Geirharðsson segir þá félaga hafa mörg járn í eldinum.
Kormákur Geirharðsson segir þá félaga hafa mörg járn í eldinum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það dró til tíðinda á síðasta ári þegar Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar færði út kvíarnar og opnaði verslun á Skólavörðustíg sem sérhæfði sig í kvenfatnaði.

Þegar það er borið undir hann hvernig reksturinn hefur gengið í þeim enda bæjarins segir Kormákur þetta svipað módel og þeir félagar hafi byrjað með í hinni versluninni í Kjörgarði.

„Þetta spyrst hægt og rólega út. Við erum ekkert stressaðir yfir þessu. Við eigum húsnæðið og erum því ekki með neinn leigusala á bakinu á okkur. Við höfum átt þetta húsnæði lengi og ákváðum að nota þetta undir búð, frekar en skrifstofu undir okkur. Upphaflega var ætlunin að hafa þetta búð undir bæði herra- og kvenfatnað. Síðan kom á daginn að það þarf að þjónusta stelpurnar aðeins betur. Þetta fór því alfarið út í það að vera fyrir konur.“ 

Framkvæmdir settu strik í reikninginn

Kormákur segir nóg að gera í versluninni, þó svo að þeir hafi lent í smá kreppu fyrir stuttu.

„Við lentum í kreppu meðan á breytingum stóð í Kjörgarði, sem tók eitt og hálft ár. Það var allt í rúst hér í kringum okkur á meðan framkvæmdir stóðu yfir. Aðgangur fyrir viðskiptavini okkar var fyrir neðan allar hellur. Gipsplötur og steinull á víð og dreif. Einnig var byrgt fyrir gluggann og við vorum því ekki með neina útsetningarglugga í marga mánuði, meðal annars yfir jólatímann. Það var illa staðið að mörgum hlutum meðan á þessum framkvæmdum stóð.“

Kormákur segir að þó svo að þetta hafi reynst erfiður tími fyrir rekstur verslunarinnar sé hægt að horfa á jákvæðu hliðina. „Ef maður tekur einhverja Pollýönnu á þetta, þá er það að við héldum sjó á meðan þetta tímabil gekk yfir. Það kom í ljós að við áttum dyggan stuðningshóp, sem var kærkomið. En það bættist ekkert við þennan hóp á þessu tímabili.“

Hann segir Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar eiga marga fastakúnna. „Menn vita að hverju þeir ganga. Við framleiðum fínar skyrtu- og jakkafatalínur sem endast og eru úr góðum efnum. Það skiptir ekki máli hvort þetta eru skyrtur fyrir skrifstofumann eða fyrir vinnumann í sveit. Gönguhópar hafa til dæmis komið og keypt skyrtur fyrir alls kyns útivist. Eftir að framkvæmdum lauk í Kjörgarði sjáum við mikinn mun á sölutölum.“ 

Ferðamenn ekki markhópurinn

Þegar Kormákur var spurður út í það hvernig gengi að selja vörur til túrista svaraði hann því að þeir væru ekki hryggjastykkið í sölu verlunarinnar.

„Þeir detta inn reglulega, en þeir komu til dæmis ekki á meðan á framkvæmdum stóð. Sumir koma út af orðspori okkar, aðrir af því að hótelstarfsmenn mæla með okkur og svo eru sumir sem hafa gúgglað okkur.“

Kormákur segir að í nýrri verslun þeirra á Skólavörðustíg eigi ferðamenn til að ramba inn. „Þar detta oft inn einhverjar norskar hefðardömur,“ segir Kormákur og hlær.

Viðtalið í heild er að finna í Viðskiptamogganum sem kom út 2. ágúst.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK