Apple varar fjárfesta við verri afkomu

Sölutölurnar frá Kína, Hong Kong og Taívan valda Apple vonbrigðum. …
Sölutölurnar frá Kína, Hong Kong og Taívan valda Apple vonbrigðum. Mynd frá Apple-búð í Peking. AFP

Bandaríski tæknirisinn Apple hefur varað hluthafa við því að afkoma fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi 2019 (Q1 2019), sem lauk 29. desember sl., hafi ekki verið jafn góð og spár gerðu ráð fyrir. Fyrirtækið segist búast við því að tekjur þess verði 84 milljarðar Bandaríkjadala, en ekki 89 milljarðar, eins og áður hafði verið gefið út í nóvember.

Tim Cook, forstjóri Apple, segir í bréfi til fjárfesta sem birtist á vef Apple í dag að skýringin á þessu sé aðallega sú að sala á Apple-varningi í Kína, Hong Kong og Taívan hafi ekki staðið undir væntingum og að sala til þessara svæða standi undir um 20% af tekjum fyrirtækisins.

Fyrri spá frá því í nóvember hafði valdið fjárfestum vonbrigðum og vonbrigðin hafa ekki leynt sér eftir að yfirlýsing Cook var gefin út. Hlutabréfaverð í Apple féll um rúmlega 7% í viðskiptum eftir að markaðir vestanhafs lokuðu og hefur verðið nú fallið um 28% síðan í nóvember.

Í bréfi sínu til fjárfesta lýsti Tim Cook því einnig, að sölutölur í Norður-Ameríku og Evrópu hefðu verið undir væntingum. Það rekur hann til þess að færri viðskiptavinir fyrirtækisins hafi ákveðið að endurnýja símtæki sín eftir að Apple gaf út nýjustu kynslóð iPhone-símans.

Í frétt BBC um málið er rætt við greinanda á fjármálamarkaði, sem veltir því upp hvort verðhækkanir Apple á sínum helstu sölutölum séu að gera stöðu fyrirtækisins erfiða.

Q1 2019 uppgjör Apple verður kynnt 29. janúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK