Tók yfir stjórn ítalsks banka

Höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópusambandsins. AFP

Seðlabanki Evrópusambandsins tilkynnti í dag að hann hefði tekið ákvörðun um að setja tímabundið nýja stjórn yfir ítalska bankann Banca Carige í kjölfar þess að meirihluti stjórnarmanna hans sagði skilið við stjórn hans.

Fram kemur í yfirlýsingu frá fjármálaeftirliti seðlabankans að nauðsynlegt hafi verið að taka yfir stjórn Banca Carige til þess að koma á stöðugleika í stjórnun hans. Ákvörðunin kom í kjölfar þess að viðskipti með hlutabréf í bankanum voru stöðvuð fyrr í dag.

Verð á hlutabréfum í Banca Carige lækkaði mikið í síðustu viku eftir að stjórn bankans mistókst að koma sér saman um hlutafjáraukningu og sat stærsti hluthafinn, Malacalza-sjóðurinn, hjá við atkvæðagreiðsluna um hana.

Hlutafjáraukning upp á 400 milljónir evra var einn hluti af áætlun um endurskipulagningu Banca Carige sem seðlabankinn hafði samþykkt. Hlutafjáraukningin hefði verið sú fjórða á undanförnum fimm árum. Virði hlutabréfa í bankanum hefur minnkað um 90% á undanförnum þremur árum.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfismat Banca Carige í CCC+ í október með neikvæðum horfum og varaði við því að gjaldþrot væri „raunverulegur möguleiki“.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK