Tilkynntu grun um brot í rekstri

Héraðssaksóknari staðfestir að tilkynning hafi borist en getur ekki tjáð …
Héraðssaksóknari staðfestir að tilkynning hafi borist en getur ekki tjáð sig um efni hennar. mbl.is/Hari

Embætti héraðssaksóknara hefur borist tilkynning frá skiptastjórum flugfélagsins WOW air þar sem þeir lýsa grun um brot í rekstri félagsins. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá málinu. Í frétt RÚV kemur fram að brotin snúi að skuldabréfaútboði félagsins og húsnæðismálum forstjórans, Skúla Mogensen, en það herma heimildir mbl.is einnig.

„Þegar svo háttar til stendur lögbundin skylda til þess að skiptastjórar sendi héraðssaksóknara slík tilskrif. Það er nákvæmlega staðan í þessu,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Hann segir tilkynninguna hafa borist fyrir nokkrum dögum en hann geti í raun ekkert tjáð sig um efni hennar að svo stöddu.

Fram kemur á RÚV að tilkynningin byggi að mestu leyti á ráðgjöf til skiptastjóra félagsins sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte skilaði af sér á síðasta ári. Meðal þess sem sagt er að komi fram í skýrslunni er að nærri sjö milljarðar íslenskra króna hafi safnast í skuldabréfaútboðinu, en hluti peninganna hafi farið í að greiða upp skuldir við aðila sem voru þátttakendur í útboðinu sjálfu; tvær flugvélaleigur og Arion banka.

Þá hafi félagið sjálft einnig tekið þátt í útboðinu og Skúli Mogensen keypt um tíu prósent af heildarútgáfunni. Þátttaka hans hafi virst að fullu fjármögnuð en ekki liggi fyrir hvort öðrum sem tóku þátt í útboðinu hafi verið kunnugt um þátttöku Skúla og WOW air, eða fjármögnun hennar.

Í frétt RÚV segir einnig að í skýrslu Deloitte komi fram að sterkar vísbendingar séu um að íbúð sem félagið greiddi 37 milljónir í leigu og rekstur á hafi fyrst og fremst verið notuð af Skúla, en ekki liggi fyrir hvort starfsmenn WOW hafi haft afnot af henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK