Foreldrafélög verða sektuð 2. mars

Skrá skal upplýsingar um raunverulega eigendur aðila í fyrirtækjaskrá sem …
Skrá skal upplýsingar um raunverulega eigendur aðila í fyrirtækjaskrá sem starfrækt er af ríkisskattstjóra.

Mjög slæm skil hafa verið á skráningu raunverulegra eigenda hjá félagasamtökum, eins og foreldrafélögum, kórfélögum, starfsmannafélögum og áhugamannafélögum sem rekin eru af sjálfboðaliðum. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ríkisskattstjóra við fyrirspurn mbl.is. Mega þessi félög búast við dagsektum frá og með mánudeginum næsta, 2. mars skili þau ekki fullnægjandi upplýsingum. Sektirnar geta verið á bilinu tíu þúsund til fimm hundruð þúsund krónur á dag.

Í dag hafa rúmlega 38% skráningarskyldra lögaðila skráð raunverulega eigendur sína, en um er að ræða félög, félagasamtök og aðra aðila sem forms síns vegna eru skráðir í fyrirtækjaskrá. 

Lög um skráningu raunverulegra eigenda voru sett á síðasta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra eru enn 20% af þeim 62.887 lögaðilum sem skráningarskyldir eru enn í skráningarferli, en frestur til skráningar rennur út þann 1. mars nk.

Samkvæmt Ríkisskattstjóra er algengasta félagaformið einkahlutafélög, sem eru tæplega 40 þúsund talsins. en þar hafa skil á upplýsingum verið vel viðunandi. Næst í fjölda skilaskyldra lögaðila koma félagasamtök eða tæplega 15 þúsund. Þar hafa skil á upplýsingum verið mjög slæm, eins og fyrr sagði.

Misskilnings og ótta hefur gætt

Í svari Ríkisskattstjóra segir að ákveðins misskilning og  ótta hafi gætt hjá forráðamönnum og félagsmönnum varðandi annars vegar skyldu til að skrá raunverulega eigendur félaga og hins vegar vegna mögulegrar ábyrgðar sem í því gæti falist. Segir í svarinu að rétt sé að taka fram að skráning raunverulegra eigenda félaga á grundvelli laganna feli ekki í sér aukna ábyrgð viðkomandi einstaklinga á starfsemi þeirra umfram þá ábyrgð sem þegar fylgir því að starfa í félögum. Þá megi geta þess að vöntun á upplýsingum um raunverulega eigendur lögaðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá sé ein af ástæðum þess að Ísland er á hinum svokallaða „gráa lista“ í alþjóðasamfélaginu, sem hefur skapað erfiðleika fyrir íslensk fyrirtæki í viðskiptum erlendis. Það sé þess vegna ríkt hagsmunamál fyrir Ísland að vel takist til með tímanlega skráningu raunverulegra eigenda félaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK