20 milljónir í að halda á skiltum í 3 mánuði

Allrahanda rekur Grayline sem meðal annars flytur farþega á milli …
Allrahanda rekur Grayline sem meðal annars flytur farþega á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómsmáli rútufyrirtækisins Allrahanda gegn Isavia, en þar fór Allrahanda fram á að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Isavia vegna ákvörðunar um að hætta með auglýsingar Allrahanda á skjá í komusal flugstöðvarinnar í Keflavík, þremur mánuðum áður en auglýsingasamningur þar að lútandi rann út.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að samningur um leigu á skjá í komusal flugstöðvarinnar hafi tekið gildi í júní 2017 og átt að gilda til loka maí 2018. Starfsmaður Allrahanda bað í lok febrúar 2018 um að skipt væri um auglýsingu á skjánum, en starfsmaður Isavia svaraði því til að ákveðið hefði verið að taka skjáinn út úr hefðbundnum auglýsingapakka frá og með mánaðamótunum febrúar/mars.

Allrahanda svaraði því til með kröfu um að auglýsingar hæfust að nýju á skjánum, en áskildi sér annars rétt til að krefjast skaðabóta vegna þessa. Isavia svaraði því að öllum auglýsingum á skjáum í komusal væri hætt, en að til boða stæði að fá hlutfallslega endurgreiðslu fyrir mánuðina þrjá sem út af stóðu eða auglýsingar á öðrum stöðum í flugstöðinni.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að forsvarsmaður Allrahanda, Þórir Garðarsson, hafi gefið skýrslu fyrir dómi. Þar sagði hann meðal annars að fyrirtækið hefði gripið til þeirra aðgerða að fá starfsfólk til að standa með skilti til að auglýsa starfsemina þessa þrjá mánuði. Voru lagðir fram launaseðlar 12 starfsmanna sem Þórir sagði að hefðu verið fengnir til að halda á skiltum þessa þrjá mánuði, en launakostnaður þeirra var 6,3 milljónir í mars, 7 milljónir í apríl og 6,3 milljónir í maí. Sagði Þórir að þrátt fyrir þessar ráðstafanir hafi tekjur Allrahanda á þessu tímabili dregist saman.

20 milljónir verða að 7,2 milljónum

Fram kemur í dóminum að auglýsingarnar hafi hins vegar kostað 246 þúsund krónur á mánuði.

Í kröfulýsingu Allrahanda er hins vegar vísað til þess að þar sem farþegar komi á öllum tímum sólarhrings, alla daga vikunnar, þurfi mönnun í um 22 klukkustundir á sólarhring og það kalli á alla vega fjögur stöðugildi. Miðað er við að hvert stöðugildi kosti ekki undir 600 þúsund krónum og því sé kostnaður fyrirtækisins 2,4 milljónir á mánuði á móti 246 þúsund krónum, auk virðisaukaskatts, sem auglýsingin á skjánum átti að kosta.

Isavia benti hins vegar á fyrir dómi að ósannað væri að fjártjón Allrahanda væri til komið vegna þess að auglýsingarnar hafi verið teknar niður. Þá er vísað til þess að ef Allrahanda hafi gripið til þess ráðs að láta starfsmenn sína halda á auglýsingum þá sé um ólöglega háttsemi að ræða miðað við reglur um auglýsingar í flugstöðinni. Þá telur Isavia að engin sönnunargögn hafi verið lögð fram um að starfsfólkið hafi staðið með skiltin í komusalnum.

Tókst ekki að sýna fram á tjónið

Í dómi héraðsdóms er komist að þeirri niðurstöðu að Allrahanda hafi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á tjón félagsins eftir að birtingu auglýsinganna var hætt og þá sýnt fram á orsakasamhengi milli hvarfs auglýsingarinnar og samdráttar í rekstri. Þá skorti skýringar á því af hverju auglýsingar á öðrum stöðum í flugstöðinni, sem í boði var af hálfu Isavia, skili ekki sama árangri og auglýsingar í komusal.

Dómurinn telur einnig að yfirlit yfir greidd laun starfsmannanna sem áttu að halda á auglýsingaskiltum í komusalnum, sýni ekki með fullnægjandi hætti fram á að ráðning þeirra hafi verið nauðsynleg vegna brotthvarf auglýsingarinnar. Þá beri gögn málsins ekki vitni um að umræddir starfsmenn hafi allir verið ráðnir gagngert til að halda á skiltum með auglýsingum til að bregðast við ákvörðun Isavia.

Tekið saman segir dómurinn að út frá málatilbúnaði Allrahanda verði ekki leiddar nægilegar líkur af gögnum sem fyrir liggi að vanefndir Isavia á samningnum hafi farið í sér það tjón sem lýst sé. Þá hafi fyrirtækið ekki sýnt fram á umfang hins meinta tjóns svo talið verði að Allrahanda hafi lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu. Er málinu því vísað frá dómi.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK