Össur afturkallar afkomuspá og endurkaup

Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stoðtækjafyrirtækið Össur hefur tilkynnt að afkomuspá ársins 2020 sé ekki lengur í gildi og þá hefur fyrirtækið ákveðið að stöðva endurkaup á eigin bréfum.

Í tilkynningu sem fyrirtækið hefur sent á Kauphöllina í Kaupmannahöfn, þar sem bréf félagsins eru skráð, segir að útbreiðsla kórónuveirunnar valdi neikvæðum áhrifum á eftirspurn eftir stoðtækjum og öðrum búnaði sem fyrirtækið selur á mörkuðum um allan heim. Í tilkynningunni er þó ítrekað að fyrirtækið geri ráð fyrir að samdráttur í eftirspurninni nú muni valda aukinni eftirspurn síðar. Þannig muni horfurnar á þeim markaði sem fyrirtækið starfar á ekki breytast til lengri tíma litið.

Össur hf. er með höfuðstöðvar sínar hér á landi og …
Össur hf. er með höfuðstöðvar sínar hér á landi og hundruð starfsmanna sem bæði koma að framleiðslu, markaðssetningu og fleiru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtækið segir að þær breytingar sem nú eigi sér stað á hverjum markaði fyrir sig geri fyrirtækinu ókleift að leggja mat á þau áhrif sem það verði fyrir til skamms tíma litið. Það valdi því að ekki sé hægt að standa við áður útgefna afkomuspá.

Samhliða þeirri ákvörðun hefur fyrirtækið ákveðið að stöðva endurkaup á eigin bréfum sem byggst hefur á endurkaupaáætlun sem samþykkt var á hlutahafafundi fyrirtækisins. Þrátt fyrir þessa ákvörðun ítrekar fyrirtækið að fjárhagsleg staða þess sé sterk og að aðgengi þess að fjármagni sé tryggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK