Kaupmáttur heldur enn við

Kaupmáttur launa hækkaði áfram í febrúar. Útlit er hins vegar …
Kaupmáttur launa hækkaði áfram í febrúar. Útlit er hins vegar fyrir að langt hækkunartímabil sé senn á enda. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kaupmáttur launa var enn vaxandi í febrúar, en hann jókst um 0,14% milli mánaða. Þegar horft er til síðustu 12 mánaða hefur launavísitalan hækkað um 4,8%, sem er álíka ársbreyting og var mánuðinn á undan. Um næstu mánaðarmót er svo áfangahækkun í mörgum kjarasamningum þannig að vænta má þess að kaupmáttur aukist aftur. Hins vegar er ljóst að staðan á vinnumarkaði er erfið og útlit fyrir fjölda uppsagna fyrir mánaðarmót. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Segir í hagsjánni að vænta megi þess að þegar líði á árið megi búast við að ástandið á vinnumarkaðinum verði mjög erfitt og að það muni koma fram á kaupmáttartölum.

Þegar horft er á launabreytingu meðal starfsstétta síðasta árið hafa laun tækna og sérmenntaðs fólks annars vegar og hjá þjónustu- sölu- og afgreiðslufólks hins vegar hækkað mest allra, eða um 6,5% og 5,5%. Laun sérfræðinga hafa hins vegar hækkað minnst eða um 3,4% og hjá stjórnendum um 3,9%.

Þegar horft er til atvinnugreina er mesta hækkunin framleiðslu um 5,1% og í verslun og viðgerðum, eða um 5%.

Þegar horft er til breytinga á milli fjórða ársfjórðungs ársins 2018 og 2019 sést að heildarlaun hækkuðu um 3,9% á sama tíma og launavísitala hækkaði um 4,3%. Tölurnar benda til þess að vinnutími hafi styst og/eða að ýmsar aukagreiðslur hafi minnkað. Þá kemur fram að heildarlaun hafi hækkað mest á tímabilinu hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum, en hagfræðideildin bendir á að óveðrin í lok síðasta árs kunni að skýra þá hækkun.

Minnst hafa heildarlaunin hækkað í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, um 0,3%, og í sérfræði-, vísinda- og tæknilegri starfsemi, um 1,7%. Þá hafa heildarlaun á opinbera markaðnum hækkað minna en á þeim almenna á þessu tímabili.

Hagfræðideildin segir að fyrir utan boðaðar áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningum, þá séu erfiðir tímar framundan næstu mánuði. Ljóst er að mikið verður um uppsagnir í lok þessa mánaðar og mun sú þróun vafalaust halda eitthvað áfram. Þá er einnig töluvert um að fólk taki á sig launalækkanir eða skert starfshlutfall í þeirri von að erfiðleikatímabilið verði ekki langvinnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK