Áhyggjuefni að samningar hafi ekki náðst

Þotur Icelandair á Keflavíkurvelli.
Þotur Icelandair á Keflavíkurvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Viðræður Icelandair við íslensk stjórnvöld vegna mögulegrar lánalínu eða tryggingar láns til félagsins eru á áætlun. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins að uppfylltum vissum skilyrðum, þar með talið aðkomu allra hagaðila að verkefninu og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

Þetta segir í nýrri tilkynningu frá félaginu. Þar er tekið fram að nýir kjarasamningar við stéttarfélög flugmanna og flugvirkja hafi þegar verið samþykktir en samningar hafi ekki náðst við Flugfreyjufélag Íslands.

Samningaviðræðum við Boeing miðar ágætlega

„Samningaviðræður við Boeing vegna MAX véla og útistandandi bóta vegna kyrrsetningar vélanna standa yfir og miðar ágætlega. Viðræður við lánveitendur, flugvélaleigusala, færsluhirða, mótaðila í olíuvörnum, birgja og aðra eru í fullum gangi með það að markmiði að endurskipuleggja samningsbundnar greiðslur félagsins til að þær falli að væntu framtíðar sjóðstreymi,“ segir í tilkynningunni.

„Icelandair Group lítur svo á að sú leið sem kynnt hefur verið varðandi fjárhagslega endurskipulagningu félagsins sé ákjósanlegasta leið félagsins til að tryggja hagsmuni allra aðila til lengri tíma, þar með talið viðskiptavina og starfsfólks. Náist ekki samkomulag við helstu hagaðila, mun félagið þurfa að skoða aðrar leiðir til þess að ljúka endurskipulagningu félagsins.“

Óljóst hvort lengra verði komist

Bent er á í tilkynningunni að fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group standi yfir, með það að markmiði að tryggja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar. Félagið vinni að þessu verkefni í samstarfi við stéttarfélög, Boeing, lánveitendur, flugvélaleigusala, birgja, aðra hagaðila og íslensk stjórnvöld.

„Þegar samkomulag við helstu hagaðila hefur náðst stefnir félagið að hlutafjárútboði sem mun tryggja starfsemi félagsins, efla lausafjárstöðu sem og stuðla að samkeppnishæfni þess til framtíðar. Viðræðum við helstu hagaðila miðar að mestu ágætlega. Áhyggjuefni er að samningar hafi ekki náðst við Flugfreyjufélag Íslands en óljóst er hvort lengra verði komist í þeim viðræðum.“

Tekið er fram að á hluthafafundi 22. maí hafi félagið kynnt tímalínu þar sem fram hafi komið að stefnt sé að því að samkomulag við alla hagaðila liggi fyrir í dag, 15. júní.

„Þessi tímalína hefur verið uppfærð og er nú gert ráð fyrir að samkomulag við aðila liggi fyrir þann 29. júní nk. Gert er ráð fyrir að hlutafjárútboð hefjist í kjölfarið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK