Ríkið sýknað af kröfu International Seafood Holdings

Dómur í málinu var kveðinn upp í dag.
Dómur í málinu var kveðinn upp í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu International Seafood Holdings, móðurfélags Iceland Seafood International, um endurgreiðslu rúmlega 12 milljóna króna sem félagið greiddi í fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslu frá dótturfélaginu árið 2013.

Ríkið var í upphafi sýknað af kröfu félagsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í október 2018, en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við í nóvember á síðasta ári og dæmdi ríkið til að greiða félaginu fjárhæðina. Hefur Hæstiréttur nú snúið niðurstöðunni við á ný.

Hagnaður af rekstri dótturfélaga

Bent er á það í dómi réttarins að reikningsskil dótturfélagsins hafi verið gerð eftir hlutdeildaraðferð samkvæmt lögum um ársreikninga, og að arðurinn til móðurfélagsins hafi verið til kominn vegna hagnaðar af rekstri dótturfélaga dótturfélagsins, þ.e. dótturfélaga Iceland Seafood International.

Málið hverfðist um það álitaefni hvort Iceland Seafood International ehf. hefði mátt líta á hlutdeildartekjur sínar sem frjálsan sjóð til reiðu fyrir útgreiðslu til móðurfélagsins International Seafood Holdings, sem endanlegs eiganda samstæðunnar, án þess að félagið hefði áður notið þeirra tekna í formi arðgreiðslna frá dótturfélögum sínum.

Hæstiréttur tekur svo fram að samkvæmt lögunum sé einungis heimilt að úthluta, sem arði úr einkahlutafélagi, hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum, eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og féð skuli þá ekki samkvæmt lögum eða félagssamþykktum lagt í varasjóð eða til annarra þarfa.

Hefði þurft að bíða

Enga heimild sé þannig að finna fyrir frekari úthlutun arðs en þar er getið, þar með talið í tilvikum móðurfélaga sem beiti hlutdeildaraðferð í reikningsskilum sínum.

Niðurstaða réttarins er því sú, að félagið hefði þurft að bíða þess að tekjur dótturfélaganna yrðu fyrst færðar sér til arðs áður en greiða mátti arð af þeim sökum til International Seafood Holdings.

Bókhaldsleg færsla á hagnaðarhlutdeild frá dótturfélagi geti ekki, innan reikningsársins, myndað sjóð hjá móðurfélagi til úthlutunar arðs án þess að slík hagnaðarhlutdeild hafi í reynd verið greidd út á milli félaganna í formi arðs.

Ekki var því uppfyllt það skilyrði laga um endurgreiðslu staðgreiðsluskatts, að um löglega úthlutaðan arð hefði verið að ræða. Var ríkið því sýknað.

Dómur réttarins

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK