Arion banki sektaður um 87,7 milljónir

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur ákveðið að sekta Arion banka um 87,7 milljónir króna á grundvelli þess að bankinn hafi ekki birt innherjaupplýsingar nægjanlega tímalega. Arion banki hyggst höfða mál til ógildingar ákvörðunarinnar. Tengist sektin innherjaupplýsingum í tengslum við hópuppsögn í bankanum. Bankinn upplýsir um þetta í tilkynningu.

Kemur fram að snemma í september hafi bankinn tilkynnt FME að innan bankans væru til staðar innherjaupplýsingar og að bankinn myndi nýta heimild í lögum ti að fresta birtingu þeirra. Sneru upplýsingarnar að skipulagsbreytingum innan bankans, meðal annars hópuppsögnum, og fjárhagslegum áhrifum þeirra.

Skilyrði fyrir frestun er að bankinn geti tryggt trúnað um þær. Þann 22. september birtist hins vegar frétt á vefnum mannlif.is þar sem fullyrt var að skipulagsbreytingarnar stæðu fyrir dyrum.

Arion segir að þar sem um veigamikið misræmi hafi verið að ræða milli þess sem kom fram í fréttinni og þeim upplýsingum sem bankinn bjó yfir, auk þess sem ekki voru upplýsingar um fjárhagsleg áhrif í fréttinni, þá var það mat bankans að enn ríkti trúnaður um fyrirhugaðar aðgerðir.

„Taldi bankinn að umfjöllun vefmiðilsins fæli í sér getgátur byggðar á þegar birtum upplýsingum en haustið 2019 hafði ítrekað birst umfjöllun í fjölmiðlum um að vænta mætti breytinga og hagræðingar í rekstri bankans. Af þessu leiddi að skilyrði fyrir frestun á birtingu innherjaupplýsinga voru enn uppfyllt að mati bankans,“ segir í tilkynningunni.

FME var þessu ósammála og sektaði bankann fyrir að hafa ekki birt innherjaupplýsingar nægjanlega tímanlega. Var bankanum boðin sátt, en bankinn telur sig hafa farið að lögum. Var sekt því lögð á bankann, en sem fyrr segir ætlar bankinn að höfða mál til ógildingar sektinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK