Beta kaupir fjórðungshlut í Sagafilm

Úr sjónvarpsþáttunum Ráðherrann með Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki.
Úr sjónvarpsþáttunum Ráðherrann með Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki. Ljósmynd/Aðsend

Beta Nordic Studios, dótturfyrirtæki Beta Film í Þýskalandi sem er stærsta sjálfstæða kvikmyndafyrirtæki Evrópu, hefur keypt 25 prósenta hlut í Sagafilm.

Þar með verður Sagafilm hluti af Beta Nordic Studios, sem var stofnað á síðasta ári. Þar eru fyrir sænska fyrirtækið Dramacorp og hið finnska Fisher King.

Beta Nordis Studios sérhæfir sig í verkefnum sem eru unnin heima fyrir en hafa alþjóðlega skírskotun. Á meðal nýlegra sjónvarpsþátta frá Sagafilm eru Thin Ice, Flateyjargáta og Stella Blómkvist.

Aðgengi að alþjóðadreifingu eykst til muna

Með Beta Nordic Studios í hluthafahópi Sagafilm eykst til muna aðgengi að alþjóðadreifingu fyrir kvikmynda- og sjónvarpsefni Sagafilm, auk þess sem þetta er staðfesting á stöðu og árangri Sagafilm á alþjóðamörkuðum undanfarin misseri. Tilgangur þessara kaupa er að efla vöxt Sagafilm enn frekar á þeim mörkuðum, að því er segir í tilkynningu. 

Kaupin eru að fullu frágengin en kaupverðið er trúnaðarmál. Fulltrúar Beta Nordic Studios taka sæti í stjórn félagsins og ekki er gert ráð fyrir að neinar breytingar verði á starfsemi Sagafilm, sem er elsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki landsins, stofnað árið 1978. Framkvæmdastjóri Beta Nordic Studios er Martin Håkansson. Hann mun setjast í stjórn Sagafilm, ásamt Justus Riesenkampff, yfirmanni Norðurlandamála hjá Beta Film.

Gríðarleg viðurkenning

Ragnar Agnarsson, sem áfram verður stjórnarformaður Sagafilm, segir í tilkynningu að eftir að velta félagsins hafi rúmlega tvöfaldast á innan við þremur árum séu enn meira spennandi tímar fram undan. „Það er gríðarleg viðurkenning fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að stærsta sjálfstæða kvikmyndafyrirtæki Evrópu sjái hag sinn í því að ganga til liðs við íslenskt framleiðslufyrirtæki. Þessi kaup hafa svo engin áhrif á samstarf okkar við alla þá frábæru aðila sem við höfum starfað með hér heima og erlendis,“ segir Ragnar í tilkynningunni.   

Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios. Félagið velti 2,3 milljörðum á árinu 2019 og skilaði hagnaði.

Þessi misserin er félagið með fjögur stór verkefni á mismunandi stöðum í framleiðslu og þar af tvö í tökum um þessar mundir. Næsta frumsýning hjá Sagafilm er sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann með Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki. Sýningar hefjast á RÚV 20. september og í kjölfarið víða um heim.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK