Fjárfesta fyrir 2 milljarða í Controlant

Ein tegund af skynjara sem Controlant býður upp á.
Ein tegund af skynjara sem Controlant býður upp á.

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Controlant hefur lokið við hlutafjárútboð þar sem söfnuðust tveir milljarðar króna, en með því hefur félagið safnað samtals 3,5 milljörðum í gegnum hlutafjárútboð og breytileg skuldabréf á árinu.

Meðal þátttakenda í útboðinu núna voru innlendir stofnanafjárfestar úr hópi tryggingafélaga og lífeyrissjóða, þar á meðal Sjóvá og VÍS, auk núverandi hluthafa og annarra innlendra og erlendra fjárfesta.

Þetta er líklega stærsta einstaka fjárfesting í nýsköpunarfyrirtæki frá því að faraldurinn fór af stað, en fyrr í dag fór Viðskiptamogginn yfir helstu fjárfestingar í þeim geira frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst í mars. Síðan þá hefur verið fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir tæplega 10 milljarða, en stærsta einstaka fjárfestingin voru 1,7 milljarðar sem fóru til hugbúnaðarfyrirtækisins GRID.

Controlant hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu. Þannig gerir félagið ráð fyrir að vera í stóru hlutverki við dreifingu á bóluefni gegn kórónuveirunni á fyrri hluta næsta árs og gerir félagið ráð fyrir tæplega fimm milljarða króna veltu á næsta ári. Myndi það þýða tíföld velta frá síðasta ári.

Starfsmenn Controlant eru nú um eitt hundrað og hefur félagið gert samninga við sex af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.

„Vöxtur Controlant hefur farið langt fram úr áætlunum á þessu ári og var því ákveðið að ráðast í hlutafjáraukningu nú í haust, fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Við stefndum á að safna einum milljarði króna en eftirspurn var ríflega tvöföld,” er haft etir Guðmundi Árnasyni, fjármálastjóra fyrirtækisins í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK