108 milljarða fjárfestingar OR á næstu 6 árum

Orkuveitan ætlar að fjárfesta fyrir 108 milljarða á næstu 6 …
Orkuveitan ætlar að fjárfesta fyrir 108 milljarða á næstu 6 árum. mbl.is/Árni Sæberg

Orkuveita Reykjavíkur mun á næstu sex árum verja um 108 milljörðum í viðhald og nýjar fjárfestingar innan samstæðunnar. Þetta kemur fram í nýrri fjárhagsspá samstæðunnar sem samþykkt var fyrir helgi. Stærstur hluti fjárfestinganna fer í veitukerfi, eða 69 milljarðar, en 28 milljarðar fara í virkjanir og 11,1 milljarður í aðrar fjárfestingar.

Fyrr í vor var ákveðið að ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna faraldursins og nema þær aðgerðir um fjórum milljörðum á árinu 2021. Er því áætlað að Orkuveitan fjárfesti samtals fyrir 21,2 milljarða það ár. Árið 2022 er svo áætlað að fjárfestingar verði 18,5 milljarðar, en frá 2023-2026 er áætlað að fjárfestingar verði á bilinu 16,3-17,9 milljarðar. Til samanburðar var fjárfesting árið 2019 19,3 milljarðar og áætlað er að fjárfestingar þessa árs verði 18,5 milljarðar.

Á sama tímabili er gert ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir Orkuveitunnar lækki um 26 milljarða og verði tæplega 125 milljarðar árið 2026.

Á tímabilinu 2021-2026 gerir Orkuveitan ráð fyrir að greiða eigendum sínum, Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð, samtals 20,7 milljarða í arð, en það gerir 3,45 milljarða á ári.

Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að um 200 störf skapist á sunnan- og vestanverðu landinu vegna viðspyrnufjárfestingaverkefnisins. Stærsta einstaka verkefnið á tímabilinu er allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna, en búist er við því að skiptin muni taka tvö til þrjú ár og að 25 iðnaðarmenn muni að jafnaði starfa við útskiptin, ásamt fleira starfsfólki.

Í forsendum sínum í fjárhagsspánni er meðal annars byggt á því að verðbólga verði um 2,5% á næstu árum og að álverð hækki jafnt og þétt um 30% yfir 6 ára tímabilið.

Í ár eru horfur á að rekstrartekjur Orkuveitunnar verði um 48,7 milljarðar, en í spánni er áætlað að þær muni aukast jafnt og þétt og verða 60,2 milljarðar árið 2026. Er það 23,6% aukning yfir tímabilið. Rekstrargjöld stefna í 29,6 milljarða á þessu ári, en áformað er að þau hækki upp í 37,4 milljarða árið 2026, eða um 26,1%. Miðað við spána er gert ráð fyrir 8,1 milljarðs hagnaði í ár og að hann aukist jafnt og þétt upp í 15 milljarða árið 2026.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK