Margir áfangar eftir í átt til jafnréttis

Félag kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir ráðstefnu og viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar …
Félag kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir ráðstefnu og viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 14. október Ljósmynd/Thelma Kristín

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu sem hefur það m.a. að markmiði að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja og stuðla að viðurkenningum og virkri umræðu um stöðu kvenna í íslensku atvinnulífi. Verkefnið er unnið í samstarfi við forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Morgunblaðið.

Verkefnisstjóri vogarinnar er Thelma Kristín Kvaran, stjórnendaráðgjafi og sérfræðingur í ráðningum hjá Intellecta. Blaðamaður spurði hana um gang verkefnisins.

Lagasetning ekki skilað sínu

Með brennandi áhuga á jafnréttismálum tók Thelma við hlutverkinu fyrr á árinu. Hún segir það hluta af starfi sínu hjá Intellecta að „vera með puttann á púlsinum“ í atvinnulífinu hverju sinni og það fari ekki fram hjá neinum að konur sjáist síður í framkvæmda- eða forstjórastólum. Hún fagnar því tækifæri að fá að leggja sitt af mörkum til að knýja fram breytingar sem ekki gerist af sjálfu sér.

Máli sínu til stuðnings nefnir hún að tvisvar sinnum á síðustu 12 árum hafa verið samþykkt lög sem hafa það markmið að styrkja stöðu kvenna í atvinnulífinu. Fyrst með lagasetningu árið 2008, sem ætlað var að jafna áhrif kvenna og karla á samfélagslegum grunni. Síðar árið 2010 með gildistöku laga um kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja, þ.e. að hlutfall hvors kyns í stjórnun opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn og fleiri en 50 starfsmenn, skuli vera að minnsta kosti 40% í lok árs 2013. Thelma segir að „markmiðum þessa laga hafi ekki verið náð“ og þeim í raun og veru ekki framfylgt, þrátt fyrir skýr ákvæði.

Mælarnir segja sína sögu

Eitt af verkefnum Thelmu er utanumhald mælaborðs sem greinir stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi og er unnið í samvinnu við Deloitte. Þar segir hún að við blasi mikill halli. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja er 26% og hlutfall kvenna í framkvæmdarstjórn 23%. Þá bendir Thelma á að engin kona sé forstjóri fyrirtækis sem er skráð í Kauphöllina og einungis ein kona hafi gegnt þeirri stöðu. Af því telur hún augljóst að markmið laga um kynjakvóta sem sett voru árið 2010 hafi ekki náðst, þrátt fyrir að fyrirtækjum hefði verið gefinn þriggja ára aðlögunartími. Sjö árum síðar sé enn mikill halli og „engum viðurlögum enn beitt“ við framfylgni laganna.

Thelma Kristín Kvaran
Thelma Kristín Kvaran Sigtryggur Ari

Af fleiri dæmum nefnir Thelma að mælarnir sýni mikinn ójöfnuð innan fjármálageirans, sem fari með mikil félagsleg völd. Af 96 æðstu stjórnendum fjármálafyrirtækja eru 83 karlar á móti 13 konum og af stjórnendum banka og stórra útlánastofnana eru tvær konur og þrír karlar. Þá stýri engin kona verðbréfafyrirtæki og sjóðum.

Langhlaup en ekki sprettur

Þrátt fyrir allt vermir Ísland efsta sæti yfir stöðu kynjajafnréttis í heiminum samkvæmt tölum OECD. Thelma segir það sýna fram á góðan árangur sem íslenskar forystukonur hafi náð undanfarna áratugi en líkir ferlinu við maraþon, þar sem lokaspretturinn í átt að jafnvægi sé „krefjandi og langdreginn“. Hún segist þó sannfærð um að sigur muni vinnast þegar öll augu opnist fyrir þeim efnahagslega og félagslega ávinningi sem í boði sé. Þar vísar Thelma til þeirra rannsókna sem sýna fram á að fjölbreyttur mannauður hafi jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja, auk þess sem starfsánægja og frammistaða í starfi aukist meðal starfsfólks.

Leggja sitt á vogarskálina

Félögum og stofnunum, sem vilja vera virkir þátttakendur í jafnrétti kynja, gefst kostur á að skrá sig sérstaklega í Jafnvægisvogina og hafa 103 aðilar þegar gengið til liðs.

Thelma segir að mikill áhugi sé fyrir þátttöku í verkefninu og útskýrir að til þess að taka þátt þurfi viðkomandi fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag að undirrita viljayfirlýsingu þess efnis og heita því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar næstu árin. Hún bendir einnig á að þátttaka feli í sér ákveðna yfirlýsingu út á við og áskorun til annarra að málefnið, þ.e. jafnrétti kynjanna, sé tekið alvarlega og föstum tökum, en ekki bara í fögrum orðum á tyllidögum.

Bjartsýni um betri árangur

Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar fer fram í þriðja sinn 14. október, á stafrænan hátt vegna faraldursins. Þar verða meðal annars veittar viðurkenningar til þeirra sem hafa náð markmiði Jafnvægisvogarinnar. Að auki er von á fjölda gesta sem halda muni fyrirlestra og ávörp og nefnir Thelma þar Georg Lárusson, forstjóra Langhelgisgæslunar, dr. Þórönnu Jónsdóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Þórð Snæ Júlíusson frá Kjarnanum og Herdísi Pálu Pálsdóttur frá Deloitte. Að auki munu þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Eliza Reid forsetafrú ávarpa fundinn.

Spurð um væntingar til frekari þróunar segist Thelma vera bjartsýn enda sé „jafnrétti efnahagsmál sem muni hafa veruleg áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar“. Það blasi því við öllum að Ísland haldi áfram að vera leiðandi á sviði jafnréttis og geri allt til þess að halda því forskoti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK