Hópuppsögnin starfsfólki Geysis þungbær

Verslunum Geysis hefur verið lokað og var öllu starfsfólki þeirra …
Verslunum Geysis hefur verið lokað og var öllu starfsfólki þeirra sagt upp. Stór hluti starfsfólksins er í VR. mbl.is/Árni Sæberg

Hópuppsögn hjá Geysi er starfsfólki fyrirtækisins þungbær. Öllum starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp í byrjun viku og verslunum samstæðunnar lokað. Uppsagnirnar komu starfsfólkinu þó ekki endilega á óvart þó það sé auðvitað áfall fyrir fólk að missa vinnuna, að sögn Bryndísar Guðnadóttur, forstöðumanns kjarasviðs stéttarfélagsins VR.

Bryndís segist aðspurð hafa heyrt af orðrómi um að starfsmenn hafi einungis fengið 60% launa sinna fyrir janúarmánuð greidd en ekki séð það sjálf á blaði. Eitthvað vantar í það minnsta upp á launagreiðslur fyrir janúarmánuð.

„Við erum að fá öll gögn frá fyrirtækinu sem við þurfum til þess að geta hafið innheimtu á því sem vantar upp á launin í janúar og útistandandi laun á uppsagnarfresti,“ segir Bryndís.

Samstarf VR við forsvarsmenn Geysis hefur hingað til verið gott. …
Samstarf VR við forsvarsmenn Geysis hefur hingað til verið gott. Þeir hafa veitt VR upplýsingar sem eru lykilatriði fyrir vinnu stéttarfélagsins að málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtækið fari í þrot sem fyrst

Hún segir langbest ef fyrirtækið fyndi fjármagn og gæti greitt launin en ef það gengur ekki væri best fyrir starfsfólkið ef fyrirtækið færi í þrot sem fyrst.

„Ef dráttur verður á því að það fari í þrot þá kemur inn óvissutími og biðtími,“ segir Bryndís.

Henni skilst að forsvarsmenn fyrirtækisins ætli að ganga frá því sem fyrst að fyrirtækið fari í þrot.

„Það er auðvitað afskaplega mikið sjokk að meðtaka svona flóknar …
„Það er auðvitað afskaplega mikið sjokk að meðtaka svona flóknar upplýsingar á sama tíma og maður fær að vita að maður sé ekki að fá launin sín,“ segir Bryndís. mbl.is/Árni Sæberg

Erfitt að fá ekki greidd laun

Fulltrúar VR voru viðstaddir starfsmannafund með stórum hluta starfsmanna og forsvarsmönnum Geysis. Þar upplýstu fulltrúar VR starfsfólk um stöðuna. Bryndís segir að VR muni vera í miklu sambandi við starfsfólkið í framhaldinu.

„Það er auðvitað afskaplega mikið sjokk að meðtaka svona flóknar upplýsingar á sama tíma og maður fær að vita að maður sé ekki að fá launin sín,“ segir Bryndís.

Aðspurð segir hún að hópuppsögnin hafi verið starfsfólkinu þungbær en það hafi almennt verið meðvitað um að staða fyrirtækisins væri ekki góð þar sem rekstur þess byggir á ferðamannaiðnaðnum sem hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum.

„En þegar maður fær ekki launin sín greidd að fullu þá er það að sjálfsögðu erfitt,“ segir Bryndís. 

Samstarfið gott

Samstarf VR við forsvarsmenn Geysis hefur hingað til verið gott. Þeir hafa veitt VR upplýsingar sem eru lykilatriði fyrir vinnu stéttarfélagsins að málinu. 

„Við fögnum því heldur betur þegar við náum að vinna þetta svona saman. Það gengur bæði betur og hraðar fyrir sig,“ segir Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK