Kjötsúpan selst vel við gosstöðvarnar

Helgi býður kjötsúpu, pylsur og fisk og franskar. Svo er …
Helgi býður kjötsúpu, pylsur og fisk og franskar. Svo er heitt á könnunni. mbl.is/Baldur

Þegar ViðskiptaMogginn leit þar við um ellefuleytið síðasta föstudagskvöld var þar röð af ferðamönnum að kaupa sér hressingu. „Ég opnaði vagninn í byrjun júní á efra bílaplaninu. Síðan breyttist umferðin [þegar eldgosið tók nýja stefnu] og beindist hingað niður eftir og þá varð ég að færa mig hingað. Nú er ég búinn að vera hér í rúmar tvær vikur,“ segir Helgi J. Helgason, eigandi Helgi's Street Food.

Hann kveðst aðspurður ekki vera veitingamaður að upplagi. „Ég er svona „altmuligmand“. Hef unnið við allt mögulegt og tek mér það fyrir hendur sem mig langar,“ segir Helgi. En hvaðan skyldi hugmyndin að Helgi's Street Food hafa komið?

„Upphaflega fékk ég mér vagn til að útvega tveimur sonum mínum vinnu. En það er líka gaman að breyta til. Ég hef gaman af matseld og hef gaman af því að umgangast ferðamenn. Hef verið leiðsögumaður í jeppaferðum í 19 ár,“ segir Helgi.

Spurður hvernig hafi gengið segist Helgi hafa mest verið með um 230 afgreiðslur á dag en á bak við hverja geti verið fjórir til sex viðskiptavinir. Salan sé áberandi meiri til göngufólks sem er á heimleið en til þeirra sem eru að leggja af stað.

– Og skyldi reksturinn standa undir sér?

„Ó, jú. Hann gerir það og það er ekkert launungarmál.“

– Hvað með leiguna? Þú greiðir aðstöðugjald til landeiganda.

„Hún er í dýrari kantinum en sanngjörn. Mér fannst hún svolítið dýr fyrst, áður en ég hafði hugmynd um hvernig salan yrði. En hún er í lagi. Salan er mest um eftirmiðdaginn en í gærkvöldi [í fyrrakvöld] var ég búinn með allt nema pylsurnar sem seldust upp um miðnætti.“

Nánari umfjöllun er að finna í Viðskiptamogganum í dag. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK