Hefur litlar áhyggjur af umfangi bótakröfunnar

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allar líkur eru á því að bótaréttur hafi myndast fyrir lítil og millistór fyrirtæki í landinu gegn ríkinu í kórónuveirufaraldrinum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefur þó litlar áhyggjur af umfangi bótakröfunnar. Þetta kemur fram í viðtali sem Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður tók við Bjarna og birti svo á Instagram-síðu sinni í gær með yfirskriftinni „Þrasað á þriðjudegi“.

Einkafyrirtæki látin borga brúsann

Í viðtalinu ræddu Sigmar og Bjarni m.a. þau efnahagsúrræði sem stjórnvöld hafa kynnt fyrir fyrirtækin í landinu vegna kórónuveirufaraldursins og rétt fyrirtækja til skaðabóta vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda sem hafa reynst mörgum litlum og millistórum fyrirtækjum íþyngjandi.

Sigmar sakar Bjarna og ráðuneyti hans um að láta einkafyrirtæki greiða framkvæmd sóttvarna og veltir þeirri spurningu upp hvort það brjóti ekki gegn stjórnarskránni. Bjarni vill meina að svo sé ekki.

„Nei, við komumst að þeirri niðurstöðu að þessi skerðing á atvinnufrelsinu eða rekstrinum að hún stæðist skoðun. Við vorum búin að komast að því en ég held það sé ekki hægt að stilla þessu þannig upp að við hefðum lagt þá kvöð eingöngu á atvinnureksturinn í einkastarfsemina í landinu,“ segir Bjarni. „Þetta er gríðarlega vandasamt verkefni og ég held það sé ekkert hægt að segja annað, þegar við horfum til baka, að við höfum öll tekið þátt í því að láta þetta ganga upp.“

Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður.
Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður.

Ekki með hnút í maganum

Sigmar sættir sig ekki við þetta svar og ítrekar við Bjarna að hann sé ekki að meina stórfyrirtæki á borð við Bláa lónið, sem lokuðu starfsemi sinni í annarri bylgju faraldursins, heldur sé hann að tala um litlu og millistóru fyrirtækin sem voru „úti á örkinni að vinna alla daga“, að hans eigin sögn.

„Ef þú ert að spyrja mig að því hvort ég telji að það hafi myndast bótaréttur gegn ríkinu fyrir það að skerða starfsemi fyrirtækjanna þá held ég að það séu allar líkur á því. Þar kemur að því að fyrirtækin þurfa að takmarka sitt tjón sjálf áður en það myndast hreinn bótaréttur. Svo myndu þá koma til frádráttar þau úrræði sem fyrirtækin hafa notið og eftir situr einhver mismunur sem að ég veit ekki nákvæmlega hvernig dómstólar myndu fjalla um en ég held að löggjöfin hafi mjög rúmt svigrúm til þess að grípa inn í, koma með stuðningsaðgerðir á móti sem eru fjármagnaðar af opinberum sjóðum,“ svarar Bjarni.

„Án slíkra stuðningsaðgerða þá held ég að það hefði stofnast einhverskonar bótaréttur gegn ríkinu en ég er ekki með hnút í maganum yfir því að við hefðum gengið svo langt eða stuðningsaðgerðirnar hefðu dugað svo stutt að það standi einhver stór bótakrafa upp á ríkið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK