Kvika hagnaðist um fimm milljarða

Heildareignir samstæðu Kviku banka hf. jukust um 98% eða um …
Heildareignir samstæðu Kviku banka hf. jukust um 98% eða um 121 milljarða króna á árshelmingnum og námu 245 milljörðum króna.

Hagnaður samstæðu Kviku banka hf. á fyrri helmingi ársins nam rúmlega fimm milljörðum króna samanborið við rúmlega níu hundruð mkr. hagnað á sama tímabili í fyrra. Breytingin er 446% milli ára. Hagnaður félagsins fyrir skatta var rúmlega 4,6 ma.kr. en sé hagnaður dótturfélaganna TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. á fyrsta ársfjórðungi tekinn með í reikninginn er hagnaðurinn fyrir skatta rúmlega 6,1 ma. kr. TM og Lykill sameinuðust Kviku fyrr á þessu ári.

Eignir samstæðunnar námu í lok tímabilsins 245 milljörðum króna og jukust um 98% milli ára, en þær voru 123 milljarðar í lok síðasta árs.

Eigið fé samstæðunnar er 74 milljarðar króna en það var 19 milljarðar í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið er 30%.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf. segir í tilkynningu að samruni Kviku, TM og Lykils hafi gengið framar vonum eins og sjá megi í fyrsta rekstraruppgjöri samstæðunnar. Vel hafi gengið að ná þeim fjárhags- og rekstrarmarkmiðum sem sett voru við samruna félaganna.

Marinó Örn Tryggvason er forstjóri Kviku banka.
Marinó Örn Tryggvason er forstjóri Kviku banka.

Arðsemi eigin fjár 36,4%

Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár (e. return on weighted tangible equity) fyrir skatta var 36,4% á tímabilinu að því er segir í tilkynningu bankans. 

Í tilkynningunni segir einnig að hreinar vaxtatekjur hafi numið 1.775 milljónum króna og jukust um 105% miðað við sama tímabil árið áður. Aukningu vaxtatekna má samkvæmt tilkynningunni helst skýra með breyttri samsetningu útlánasafns og lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar, sér í lagi á öðrum ársfjórðungi.

Jákvæðar virðisbreytingar voru 104 milljónir króna á tímabilinu samanborið við virðisrýrnun upp á 209 milljónir á fyrri helmingi síðasta árs. Hreinar fjárfestingatekjur námu 2.558 milljónum króna þar sem góð ávöxtun var á flestum þeim eignamörkuðum sem bankinn starfar á, að því er segir í tilkynningunni. Þóknanatekjur héldu áfram að vaxa hjá félaginu og námu hreinar þóknanatekjur 3.514 milljónum króna sem er 17% aukning frá fyrra ári.

Samsett hlutfall TM 80,8%

Samsett hlutfall TM nam 80,8% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 88,7% á sama tímabili árið á undan, sem er sögulega lágt samkvæmt tilkynningunni. Fjárfestingartekjur tryggingafélagsins námu 1.142 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og ávöxtun eignasafnsins því 3,6% á tímabilinu.

Útlán til viðskiptavina fyrirtækisins jukust um 39 milljarða króna og er aukningin að mestu til komin vegna samrunans. Hlutfall útlána til einstaklinga jókst úr því að vera 19% af af öllum útlánum í 41% í lok tímabilsins.

Marinó Örn segir að á næstu mánuðum muni félagið auka samkeppni og leitast við að einfalda fjármálaþjónustu fyrir núverandi og nýja viðskiptavini, með nýjungum í vöruframboði og þjónustu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK