Hátíðarumferðin um Keflavíkurflugvöll 74% miðað við 2019

Umferðin um Keflavíkurflugvöll yfir hátíðirnar er um 73% af því …
Umferðin um Keflavíkurflugvöll yfir hátíðirnar er um 73% af því sem hún var árið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talsverð umferð hefur verið um Keflavíkurflugvöll nú í kringum jólin og stefnir einnig í ágætis fjölda um áramót. Samtals komu 24 vélar á aðfangadag og 20 fóru af landi brott. Á jóladag, sem jafnan hefur verið einn rólegasti dagur ársins, komu nú sjö vélar sem allar fóru einnig aftur sama dag.

Í dag er svo gert ráð fyrir að 34 vélar hefji sig til flugs og 31 lendi á vellinum. Þegar allir frídagar í kringum jól og áramót eru skoðaðir er áætluð umferð um 73% af því sem hún var árið 2019, fyrir faraldurinn.

Við eigum þó enn nokkuð í land

„Eins og við var að búast hefur umferð um Keflavíkurflugvöll aukist frá því sem var í fyrra þegar Covid-19-heimsfaraldurinn var í hámarki og bólusetningar rétt að hefjast. Nú eru ferðirnar umtalsvert fleiri. Við eigum þó enn nokkuð í land með að ná því sem var yfir hátíðirnar 2019,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við mbl.is. Vel hafi gengið að fá þau flugfélög sem komu hingað fyrir faraldur til að koma aftur og litið sé björtum augum til næsta árs.

Þegar komu- og brottfarafjöldi er tekinn saman sést að þær voru samtals 44 á aðfangadag í ár. Árið 2019 voru þær hins vegar 57. Á jóladag voru 14 brottfarir og komur en voru árið 2019 18 talsins. Annar í jólum er jafnan sá hátíðisdagur þar sem mest umferð er, en í dag er gert ráð fyrir að fjöldinn verði samtals 75. Fyrir tveimur árum voru brottfarir og komur samtals 97. Á öllum þessum dögum er umferðin nú um 77% af því sem hún var 2019.

Samkvæmt áætlun Isavia er gert ráð fyrir að umferð um flugvöllinn á gamlársdag verði um 47 ferðir á móti 81 árið 2019. Er umferðin á þessum síðasta degi ársins því aðeins um 58% af því sem var fyrir tveimur árum. Á nýársdag er hins vegar gert ráð fyrir 56 brottförum og lendingum á móti 71 árið 2019, eða 79%.

Þegar allir dagarnir eru teknir saman sést að umferðin í ár er um 73% miðað við árið 2019.

Rétt er að taka fram að umferðin í fyrra var með allra minnsta móti vegna harðra samkomutakmarkana, en aðeins níu vélar komu þessa daga og voru brottfarir og lendingar í það heila því 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK