Engar upplýsingar um skuldsetningu fjárfesta

Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bankasýsla ríkisins hafði ekki upplýsingar um hvort fjárfestar sem lögðu fram tilboð í Íslandsbankann hefðu skuldsett sig fyrir kaupunum og hafði stofnunin ekki heimild til að sækjast eftir slíkum upplýsingum. Tilboði frá tveimur erlendum aðilum var þó hafnað, í samræmi við ráðleggingar erlendra ráðgjafa, á grundvelli þess að líklegt þótti að þeir myndu selja hluti sína hratt.

Þetta kom fram í máli Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, á opnum fundi fjárlaganefndar í morgun þar sem salan á bankanum var til umræðu. 

Sala á 22,5% hluta ríkisins í Íslandsbanka hefur sætt mikilli gagnrýni, m.a. fyrir þær sakir að margir fjárfestar keyptu hluti fyrir nokkrar milljónir. Var það skilningur margra að útboðið væri lokað og einungis fyrir fagfjárfesta á grundvelli þess að laða ætti að stóra langtímafjárfesta.

Seinna kom í ljós að hluti þeirra sem keyptu í bankanum í lokaðaútboðinu sem fór fram þann 22. mars hefði selt strax morguninn eftir fyrir skjótan gróða. Vakti það upp mikla reiði meðal almennings.

Lárus Blöndal stjórnarformaður og Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins.
Lárus Blöndal stjórnarformaður og Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fundi fjárlaganefndar í morgun velti Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar upp hvaða aðferðum hefði beitt við flokkun fjárfesta í annars vegar skammtímafjárfesta og hins vegar langtímafjárfesta, eins og kveðið var á um í minnisblaðinu.

Vildi hún fá að vita hvort við þessa „óformlegu flokkun“ hefði aldrei komið upp sú spurning hvort að einhverjir aðilar væru kvikir aðilar, rétt eins og þeir erlendu fjárfestar sem var meinað að taka þátt.

Ekki gætt að jafnræði segir Kristrún

„Kom enginn ráðgjöf frá innlendu söluráðgjöfunum vegna þess að þessir aðilar væru að skuldsetja sig fyrir fjárfestingu og því væri ekki eðlilegt að hleypa þeim inn á sömu jafnræðisforsendum og hinum tveimur sem var hent út,“ spurði Kristrún.

Sakaði hún þá sömuleiðis Bankasýsluna um að hafa beitt huglægu mati þar sem tveimur fjárfestum var hafnaði á grundvelli þess að þykja „of kvikir“ og öðrum ekki, og sagði hún að ekki væri verið að gæta jafnræðis.

Að sögn Jóns Gunnars spurði Bankasýslan ekki um hvort aðilarnir sem keyptu hefðu skuldsett sig fyrir kaupunum. Sagði hann jafnframt enga heimild vera til þess. 

„Af hverju höfðuð þið ekki heimild til þess,“ spurði Kristrún.

„Þetta er bara samningssamband á milli áskrifandans og síns fjármálafyrirtækis,“ svaraði Jón Gunnar.

„Hafið þið ekki heimild til þess fyrir hönd ríkisins og íslensku þjóðarinnar að spyrja spurninga um eðli þeirra fjárfesta sem eru að kaupa í útboðinu,“ spurði Kristrún aftur.

„Við getum spurt hvaða spurninga, en ég efast um að þeir hafi heimildir til þess að vita þessar upplýsingar, fjármálafyrirtækin,“ svaraði Jón Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK