Seðlabankinn mögulega of seinn

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslandsbanki reiknar með 0,5% stýrivaxtahækkun á morgun þegar peningastefnunefnd Seðlabankans birtir ákvörðun sína um stýrivexti. Arion banki reiknar með 1% hækkun. Verði það gert til að draga úr verðbólgu og hækkunum á húsnæðismarkaði. Verðbólgan sé afleiðing jákvæðrar þróunar út úr heimsfaraldrinum.

Frá því að síðasti fundur peningastefnunefndar var haldinn hafa aðstæður breyst og því hækkun líkleg. Verðbólga hefur aukist umfram spár auk þess sem stríð hófst í Úkraínu.

Vaxtahækkun Seðlabankans frá því í febrúar hafði ekki tilskilin áhrif og því er reiknað með að lagt verði í meiriháttar hækkanir nú til að ná betri tökum á ástandinu.

Hækkun vaxta viðbúin

Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, segir að hækkun stýrivaxta sé viðbúin. Hækkunin muni meðal annars þýða hækkun vaxta á íbúðalánum og öðrum útlánum hjá lánastofnunum. Líklega hafi væntingar um stýrivaxtahækkun morgundagsins einnig haft áhrif á styrkingu krónunnar undanfarið.  

„Þetta mun sjálfsagt hægja á hækkun fasteignaverðs en ég held að fasteignaverðið sé komið það hátt og vextirnir taka tíma að hafa áhrif, þannig að ég held að ef Seðlabankinn hafi af alvöru ætlað að hemja þróun fasteignaverðs þá hafi hann misst af þeirri lest fyrir þó nokkru síðan,“ segir Konráð.

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis.
Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis. mbl.is/Eggert

Konráð segir stóran hluta verðbólgunnar megi rekja til þess að ráðist hafi verið í gríðarlega miklar stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem og lækkun stýrivaxta. Búist hafi verið við verra áfalli og raun bar vitni og verðbólgan sé ein afleiðing þess að við séum að koma betur út úr faraldrinum en nokkur þorði að vona.

Verðbólgan sé því að einhverju leyti birtingarmynd jákvæðar þróunar. Það taki tíma fyrir vaxtabreytingar að koma fram að fullu og með lágum vöxtum undanfarið hafi Seðlabankinn í raun ýtt undir eftirspurn til dagsins í dag. Þegar stýrivextir voru lækkaðir var tilgangur þess að örva hagkerfið. Nú þarf hinsvegar að hægja á því.

Verðbólgan eftir að toppa

„Ég held að verðbólgan eigi enn eftir að toppa. Einhverjir segja að hún fari yfir 10% en mér finnst ólíklegt að hún muni fara yfir það. Stærsta áhyggjuefnið, og peningastefnunefnd mun horfa til þess, er hætta á því að verðbólgan verði þrálát og erfitt verði að ná henni niður í 2,5% verðbólgumarkmiðið vegna þess að verðbólguvæntingar eru svo háar.

Seðlabankinn er að vissu leyti búinn að missa tök á þeim, og það er það versta sem getur gerst fyrir Seðlabankann. Það er meira áhyggjuefni heldur en að verðbólga aukist tímabundið. Miklar verðbólguvæntingar geta stuðlað að viðvarandi verðbólgu næstu misseri og ár.“

Hann segir að hættan við miklar vaxtahækkanir sé að þetta slái of mikið á eftirspurn í hagkerfinu. Hækkunin geti hægt á innlendri eftirspurn og hagvaxtarhorfum til skemmri tíma.

Mismunandi skýringar á verðbólgu

Spurður hvort stýrivextir muni fara umfram væntan topp greiningaraðila sem eru 4% stýrivextir segir Konráð það hæglega geta gerst.

„Það er ekki ólíklegt en við skulum bíða og sjá,“ segir hann.

„En það eru mismunandi þættir sem valda verðbólgunni hérlendis eða erlendis. Hér má rekja verðbólguna til hækkunar húsnæðisverðs en í Evrópu til hækkandi orkuverðs og í Bandaríkjunum hafa ýmsar neysluvörur dugað til að keyra verðið upp. Mismunandi birtingarmyndir benda enn fremur til þess að sameiginlega orsökin sé fólgin í peningaprentun og stuðningsaðgerðum vegna faraldursins.“

Verðbólga eykst.
Verðbólga eykst. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK