Selja CRM á allar starfsstöðvar Nox Medical

Guðjón Karl Þórisson, sölustjóri Arango.
Guðjón Karl Þórisson, sölustjóri Arango.

Á dögunum samdi upplýsingatæknifyrirtækið Arango við svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical um innleiðingu á CRM-lausnum í rekstri Nox á alþjóðlegum mörkuðum. Nox Medical hefur hingað til nýtt lausnir Arango á Bandaríkjamarkaði með góðum árangri, eins og fram kemur í frétt á heimasíðu Arango.

Guðjón Karl Þórisson, sölustjóri Arango, segir í samtali við Morgunblaðið að upphaflega hafi Nox leitað til Arango vegna uppsetningar á CRM-lausnum í Bandaríkjunum þegar félagið var að setja þar upp söluskrifstofur. Nú sé verið að setja sömu lausnir upp á öðrum starfsstöðvum Nox Medical um heim allan.

Töluverð útvíkkun

Hann segir að um töluverða útvíkkun á lausninni sé að ræða. „Við byggjum kerfið á stöðluðum lausnum frá Dynamics 365 frá Microsoft og smíðum okkar eigin viðbætur ofan á. Flækjustigið í svona verkefni er að láta mismunandi kerfi tala saman. Þarna er um umfangsmikla samþættingu CRM og Navision-bókhaldskerfis að ræða. Allt kerfið verður sjálfvirkara, sem eykur hagræði í sölustarfi og innleiðingu hjá Nox Medical.“

Guðjón segir að söluteymi Nox Medical vinni nú alla sína vinnu frá a til ö í CRM-kerfinu. Sala verður að pöntun sem síðan verður að bókun í bókhaldskerfinu. „Nox Medical selur svefnrannsóknartæki og eftir að sala er kláruð bætist heilmikil þjónusta við eftir á. Allt utanumhald um hana fer fram í CRM-kerfinu. Þetta er töluvert flókin og flott lausn.“

Aðspurður segir Guðjón að Arango sé þekkingarfyrirtæki þar sem starfi reynslumiklir ráðgjafar úr upplýsingatæknigeiranum. Fyrirtækið sérhæfir sig að hans sögn í ýmsum stafrænum lausnum í Microsoft-umhverfi með áherslu á hagræðingu í innri ferlum fyrirtækja, þjónustu, sölu og markaðslausnum. Sjö starfsmenn starfa í dag hjá Arango sem var stofnað árið 2019. „Við erum að vaxa smátt og smátt og vinnum fyrir marga stóra aðila hér á Íslandi. Þar á meðal eru t.d. mörg bílaumboð sem kaupa af okkur bæði sérhæfðar og staðlaðar virðisaukandi lausnir,“ segir Guðjón.

Stafvæða söluferlið

Um þær lausnir segir Guðjón að upphaflega hafi Hekla gengið til samstarfs við Arango en fyrirtækið starfi einnig mikið fyrir Öskju og BL. „Þarna erum við að stafvæða söluferlið og aðra innri ferla svo sem rafræna undirritun skjala og áreiðanleikakannanir. Við einföldum einnig ferlið við nýskráningu ökutækja og eigendaskipti með sjálfvirkum tengingum við Samgöngustofu. Það er rekjanleiki í gegnum allt ferlið.“

Stefna út í heim

Þó að Arango sé í dag eingöngu með viðskiptavini á Íslandi er stefnan sett út í heim. „Við þróum lausnir á íslenska markaðnum en takmarkið er að komast á erlenda markaði með ákveðnar lausnir. Við erum nú þegar komin af stað í þeirri vegferð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK