Spá lækkun verðbólgu næstu mánuði

Þrátt fyrir spá um talsverða hækkun matvöru spáir Íslandsbanki því …
Þrátt fyrir spá um talsverða hækkun matvöru spáir Íslandsbanki því að ársverðbólgan muni hjaðna í febrúar og halda áfram að lækka á komandi mánuðum. mbl.is/​Hari

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að verðbólgan muni lækka úr 9,9% niður í 9,6% í febrúar, en vísitalan verður birt fyrir lok mánaðarins af Hagstofunni. Áður hafði hagfræðideild Landsbankans einnig gefið út spá um sömu lækkun.

Í spá Íslandsbanka segir að útsölulok muni lita mælinguna í febrúar nokkuð og þá sé útlit fyrir talsverða hækkun á matvöruverði. Á móti muni flugfargjöld lækka í verði. Þá spáir bankinn því að verðbólga muni áfram hjaðna á komandi mánuðum og verði komin í 6,8% í júlí og í 3,4% um árslok.

Í janúar hækkaði matvöruverð um 2% sem var mesta hækkun milli mánaða í átta ár. Íslandsbanki spáir áframhaldandi hækkun í þessum mánuði og þeim næstu og að matarkarfan hækki um 1,4% milli mánaða núna. Spá bankans gerir ráð fyrir að föt og skór og svo húsgögn og heimilisbúnaður muni hækka umtalsvert vegna útsöluloka, en að ferðir og flutningar muni lækka. Þar vegur þyngst inn í flugfargjöld sem bankinn spáir að lækki um 4,2% milli mánaða.

Gætum séð stóra verðbólgumánuði detta út

Samtals spáir bankinn því að vísitala neysluverðs hækki um 0,8% á milli mánaða. Þar sem hækkunin mældist hins vegar 1,54% í febrúar í fyrra þýðir það að verðbólgan (sem er 12 mánaða hækkun vísitölunnar) lækkar í það heila. Mánuðirnir mars til júlí í fyrra voru allir stórir verðbólgumánuðir, þar sem breyting vísitölunnar mældist 0,77% upp í 1,41% í hverjum mánuði. Helgaðist það meðal annars af verðhækkunum á fasteignamarkaði. Verði breyting vísitölunnar undir þeim tölum á komandi mánuðum þýðir það að verðbólgan mun lækka.

Íslandsbanki gerir m.a. ráð fyrir að hækkun vísitölunnar verði 0,6% í mars, 0,4% í apríl og 0,3% í maí. Gangi það eftir verður verðbólgan komin niður í 7,8% í maí.

Í greiningu Íslandsbanka er bent á að íbúðamarkaðurinn hafi kólnað talsvert og markaðsverð lækkað í janúar. Hins vegar haldi vaxtaþátturinn áfram að hækka. Gerir bankinn ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og að húsaleiga muni meðal annars hækka nokkuð milli mánaða.

Spá því að verðbólgan verði um 4,4% á næsta ári

Greiningardeildin segir helstu óvissuna framundan vera innflutta verðbólgu og þróun krónunnar. Þá ríki enn mikil óvissa varðandi kjarasamninga sem á eftir að ljúka. „Ef allt gengur upp gæti verðbólga verið komin niður í um 5-6% næstu áramót. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 7,5% á þessu ári, 4,4% árið 2024 og 2,8% árið 2025,” segir að lokum í greiningu deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK