Orkan eignast Lyfjaval að fullu

Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, og Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar IS.
Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, og Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar IS. Ljósmynd/Aðsend

Orkan IS hefur keypt 42% hlut minnihlutaeigenda í Lyfjavali. Fyrir átti Orkan IS 58% hlut í Lyfjavali og með þessum kaupum eignast því Orkan Lyfjaval að fullu.

„Það eru afar spennandi tímar framundan hjá Lyfjavali og mörg skemmtileg tækfæri til að bjóða viðskiptavinum upp á fleiri staðsetningar. Lyfjaval hefur skapað sér sérstöðu á markaði með bílalúgum og löngum opnunartíma sem hefur verið afar snjöll leið til að einfalda viðskiptavinum lífið á ferðinni,“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar, í tilkynningu. 

Lyfjaval rekur sjö apótek, sex á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Reykjanesbæ, þar af fjögur bílalúguapótek sem njóta vinsælda meðal viðskiptavina. Nýlega var opnunartíminn í Lyfjavali í Hæðasmára lengdur og eru bílalúgur nú opnar allan sólahringinn, segir enn fremur. 

„Þetta eru mjög góð tíðindi fyrir okkur hjá Lyfjavali. Lyfjaval hefur verið brautryðjandi í lyfsölu á Íslandi frá því að það opnaði fyrsta frjálsa apótekið, Apótek Suðurnesja árið 1996, fyrsta bílaapótekið 2005, hóf netsölu með lyf 2022 og býður nú sólarhringsopnun í lyfsölu, það eina á landinu. Við erum mjög spennt fyrir áframhaldandi vexti í samstarfi við Orkuna,” segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdatjóri Lyfjavals, í tilkynningunni. 

Orkan IS ehf. var stofnað 1. desember 2021. Starfsemin er einkum á sviði þjónustu til einstaklinga, svo sem rekstur þjónustustöðva Orkunnar, 10-11, Extra, Löðurs bílaþvottastöðva, Íslenska vetnisfélagsins, Gló og Lyfjavals sem nú verður að fullu í eigu Orkunnar IS. Markmið Orkunnar IS er að skapa þjónustustöðvar og verslanir með gott aðgengi sem þjóna viðskiptavinum á snjallan, hagkvæman og umhverfisvænan hátt, segir jafnframt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK