Gera umhverfisvænni rafstöðvar

Aðalheiður Jacobsen og Linda Fanney Valgeirsdóttir segja verkefnið styðja við …
Aðalheiður Jacobsen og Linda Fanney Valgeirsdóttir segja verkefnið styðja við orkuskiptin. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Bílapartasalan Netpartar á Selfossi og nýsköpunarfyrirtækið Alor, sem sérhæfir sig í rafhlöðurannsóknum, hafa í samvinnu við Háskóla Íslands hafið samstarf um endurnýtingu á rafbílarafhlöðum. Um tveggja ára tilraunaverkefni er að ræða. Markmiðið er að búa til umhverfisvænni rafstöðvar sem samanstanda af rafbílarafhlöðum sem hljóta framhaldslíf og eru innleiddar samhliða rafstöðvum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Kerfið mun nýtast öllum sem reiða sig á rafstöðvar sem knúnar eru af jarðefnaeldsneyti. Slíkar stöðvar hafa lengi verið notaðar sem varaafl þegar til rafmagnstruflana kemur. Einnig hafa þær gagnast til rafmagnsframleiðslu stórnotenda þegar nauðsynlegt þykir að minnka afhendingu á skerðanlegri raforku til aðila eins og loðnuverksmiðja, líkt og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu.

Afhenda fyrstu rafhlöðuna

Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta, segir að fyrsta rafbílarafhlaðan verði afhent í vikunni.

„Við geymum rafhlöðurnar í sérstökum gámi. Við flutninginn yfir til Alor eru eingöngu notaðir ADR-vottaðir bílstjórar,“ segir Aðalheiður í samtali við Morgunblaðið.

Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor, segir að rafbílarafhlöðurnar frá Netpörtum verði notaðar í þróun á blendingskerfi sem starfar samhliða olíuknúnum rafstöðvum. Blendingskerfi nýtast m.a. sem varaafl fyrir stórfyrirtæki og stofnanir sem þurfa 100% raforkuöryggi.

„Þetta eru aðilar eins og spítalar, flugvellir og gagnaver. Þúsundir lítra af olíu eru brenndar við rafmagnsframleiðslu á Íslandi ár hvert og magnið hefur aukist ár frá ári. Okkar markmið er að minnka notkun á olíu til rafmagnsframleiðslu og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka kostnað auk þess að minnka sóun á fágætum rafhlöðuhráefnum,“ bætir Linda við.

Hún segir að eftir því sem næst verði komist sé rannsóknarverkefnið einstakt á heimsvísu.

„Það eru til blendingsstöðvar á markaðnum, en við finnum ekki önnur dæmi um að notast sé við endurunnar bílarafhlöður,“ útskýrir Linda.

Einungis verður notast við heilar rafhlöðusellur úr tjónuðum rafhlöðum.

Linda bætir við að árið 2030 sé áætlað að tólf milljónir tonna af rafbílarafhlöðum muni falla til í heiminum.

Lestu ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu i dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK