c

Pistlar:

18. maí 2012 kl. 11:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Í landi hafta

Fátt truflar íslensk viðskiptalíf meira en gjaldeyrishöftin sem eru nú á sínu fjórða ári. Sagan hefur kennt mönnum að höft sem þessi hafa tilhneigingu til þess að festast í sessi vegna þess að það þarf kjark til að aflétta þeim. Núverandi áætlun Seðlabankans gengur út frá afnámi haftanna í ótímasettum og varfærnum skrefum og með það að markmiði að afstýra falli krónunnar við afnám þeirra. Flest allir sem hafa tjáð sig um málið telja að þessi áætlun sé ótrúverðug og muni ekki skila tilætluðum árangri.

En af hverju skortir kjark til að afnema höftin? Ísland hefur sterkar útflutningsgreinar sem að endingu ættu að geta fært gengi krónunnar að raungengi sem er talsvert lægra en núverandi gengi segir til um. Nýjustu tölur sýna okkur að útflutningstekjur landsmanna aukast ár frá ári. Núverandi ríkisstjórn virðist hins vegar ekki líkleg til að hreyfa við málinu eins og mátti heyra á harðri gagnrýni fyrrverandi viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar, á fundi Samtaka atvinnulífsins um málið á miðvikudaginn. Ríkisstjórnin hefur falið Seðlabankanum forræði málsins en þar á bæ sjá menn öll tormerki á afnámi haftanna enda er Seðlabankinn fremur í því ferli að herða höftin (og auka viðurlög) um leið og hann er kominn í vaxtahækkunarferli til þess að berjast gegn verðbólgu sem að stærstum hluta starfar af veikingu krónunnar! En á ný virðist Seðlabankinn vera komin í ferli sem hann hefur hvorki trú né stjórn á.

10% af landsframleiðslu í beinan kostnað

Það sem gleymist oft í umræðunni er að ávinningurinn af afnámi haftanna er gríðarlegur og kostnaðurinn vegna þeirra umtalsverður. Ef við skoðum kostnaðinn þá er fyrst til að nefna að höftin draga úr fjárfestingu en þó ekki síður auka þau viðskiptakostnað íslenskra fyrirtækja verulega. Með höftin er ljóst að erfiðara er að fá erlenda fjárfesta hingað til lands. Mesta tjón haftanna er fólki hulið því það felst í fjárfestingum og vexti sem fer forgörðum. Ekki er langt síðan seðlabankastjóri tengdi afnám haftanna beinlínis við erlenda fjárfestingu sem voru ummæli sem fengu undarlega litla athygli. Ummælin sýndu þó svart á hvítu að seðlabankastjórinn hefur ekki trú á eigin áætlun um afnám haftanna!

Kostnaðurinn við gjaldeyrisforða Seðlabankans hefur verið áætlaður á milli 70 og 80 milljarðar króna á ári. Fáir utan Seðlabankans hafa trú á að lánaður gjaldeyrisforði auki trúverðugleika krónunnar og efnahagsstefnunnar. Við þennan kostnað má bæta vaxtakostnaði til handa erlendum krónueigendum sem er talin vera á milli 50 og 60 milljarðar króna á ári og hækkar með hverri vaxtahækkun. Samtals gera þessar upphæðir á milli 130 og 140 milljarða króna sem má þannig reikna sem beinan kostnað vegna haftanna. Það er um 10% af landsframleiðslu og verður að telja óraunhæft að nokkur endurreisn verði hér á landi á meðan ástandið er með þeim hætti. En því miður er staðreyndin sú að gjaleyrisforða er hægt að fá að láni en ekki kjark.