c

Pistlar:

19. október 2013 kl. 15:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

16,7 trilljónir

Þegar fólk heyrir fyrst töluna 16,7 trilljónir eiga flestir í erfiðleikum með að skilja hana. Skiptir engu þó hún vísi til skuldaþaks ríkissjóðs Bandaríkjanna þegar deilan stóð sem hæst í bandarískum stjórnmálum. Hvað er að skulda 16,7 trilljónir Bandaríkjadala? Jú, það væri vissulega mikið fyrir okkur Íslendinga en er það mikið fyrir Bandaríkjamenn sem geta bara prentað fleiri dali? Jú, talan er sannarlega há og hækkar á hverju ári. 

Við í öðrum löndum fylgjumst nánast árlega með þessum alvarlega samkvæmisleik sem birtist á bandaríska þinginu öðru hvoru og felst í að hækka skuldaþakið. Gott ef flestum finnst það ekki sjálfsagt þar sem það tryggir áfram rekstur bandaríska ríkisins með öllum sínum gæðum og kostum. Eða hvað? Flestir hrökkva væntanlega í kút þegar þeir átta sig á því að skuldin hækkar jafnt og stöðugt. 1993 var skuldaþakið í 4,9 trilljónum  dala og þótti mönnum nóg um. Þegar tímabilið frá 1953 til 2003 er skoðað sést að skuldir jukust um 3,1 trilljónir dala. Á síðustu tíu árum, eða frá 2003 til 2013 hafa skuldirnar  hins vegar aukist um 11,8 trilljónir. Með öðrum orðum, hraði skuldaaukningarinnar vex stöðugt.

En í síðustu viku önduðu allir léttar, deilan leystist og skuldaþakinu var lyft. Á svipstundu jukust skuldir bandaríska ríkisins um 328 milljarða dala eða nálægt 40 þúsund milljörðum króna. Gróft á litið er það tala sem samsvarar 20 sinnum landsframleiðslu Íslands. Skuldaþakið var komið upp í 17.070 trilljónir dala. Ekki nóg með það - því hafði aldrei verið lyft jafn hátt í einu, fyrra met átti einnig núverandi forseti Bandaríkjanna en þá var þakið hækkað á einu bretti um 238 milljarða dala. Það er því ekki nema von að bandarískir fjölmiðlar bjóði nú fólki að spá fyrir um það hvenær Barack Obama komi skuldunum upp í 20 trilljónir dala. Sjálfsagt er það ætlun Obama að sagan geymi fremur minningu um Obamacare en þá staðreynd að skuld bandaríska ríkisins ríflega tvöfaldaðist í forsetatíð hans. Það er líklega eins gott fyrir Bandaríkjamenn að forsetar framtíðarinnar láti sér nægja að fá bókasöfn til minningar um sig.

Insider

Risavaxnar og slæmar tölur

Og það erum við komin að manni sem heitir David M. Walker en hann gegndi stöðu  ríkisendurskoðanda Bandaríkjanna á árunum 1998 til 2008. Væntanlega alvarlegur og ferkantaður embættismaður eins og endurskoðendur eiga að vera. Walker setti sjálfan sig á eftirlaun fyrir nokkrum misserum til að ferðast um Bandaríkin og flytja fyrirlestra með válegum tíðindum. Þættir eins og 60 mínútur á CBS fjalla reglulega um baráttu hans og nýjasta bók hans, Comeback America, er metsölubók. Einnig er hann virkur bloggari á Huffington Post. Margir hafa því lagt við hlustir. En þó ekki nógu margir.   

Walker byrjar yfirleitt fyrirlestra sína á því að segja; ég ætla að sýna ykkur tölur sem eru risavaxnar og slæmar. Flestir í salnum hlægja til að byrja með en þegar líður á fyrirlesturinn er fólk hætt því. Hann segir hlutina umbúðarlaust: Við erum að eyða langt um efni fram, við tökum það út af krítarkortinu og ætlumst til þess að barnabörnin borgi þetta. Þetta er auðvitað hárrétt hjá Walker, um það snýst hallarekstur flestra ríkja, næstu kynslóðir borga. Því er það svo að þegar menn eru að berjast fyrir velferðarkerfum nútímans með tilstyrk hallareksturs á fjárlögum þá eru þeir að fórna velferðarkerfum næstu kynslóða. Sem vel að merkja, eiga að borga fyrir velferðarkerfi hallareksturskynslóðarinnar líka. Af þessu sést að það þurfa að vera sterkar réttlætingar fyrir því að stjórnmálamenn safni skuldum á skattgreiðendur framtíðarinnar. Hvað þá þegar það er gert ár eftir ár eins og hefur verið gert í Bandaríkjunum og reyndar einnig hér á Íslandi. Er nema von að ábyrgir aðilar vilji breyta því.

Og til að skilja hina illskiljanlegu tölu trilljón þá er hún heiti yfir stóra tölu (svo!) sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000, sem 10 í 18 veldi, eða sem þúsund milljarðar.