c

Pistlar:

3. nóvember 2013 kl. 18:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bláa lónið og Airwaves - tvö fyrirmyndardæmi

Rekstur Bláa lónsins og Airwaves hátíðarinnar eru tvö skýr dæmi um það sem best er gert í íslenskri ferðaþjónustu. Í báðum tilfellum er verið að selja upplifun sem aðeins er hægt að fá á Íslandi. Bláa lónið er undur þar sem gestir komast í kynni við heim sem er hvergi annars staðar að finna. Við Íslendingar vitum að þessi heimur er tilbúinn en það virðist ekkert spilla upplifun gestanna og er nú svo komið að Bláa lónið er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands, þó hann sé með öllu skapaður af mönnum. Í fyrstu virðist það í andstöðu við þá mynd sem almennt er seld af Íslandi sem einn fárra óspilltra staða í heiminum. Staðreyndin er sú að gestir tengja nú Bláa lónið með beinum hætti við náttúru landsins og þau náttúrugæði sem hér er að finna. Mikilvægi Bláa lónsins er gríðarlegt fyrir ferðamennsku landsins og þess ánægjulegra að rekstrarfélag þess er nú orðið sterkt og öflugt og getur staðið undir frekari fjárfestingum á svæðinu.

Airwaves hátíðin er dæmi um það hvernig menningaratburður getur þróast ef haldið er vel utan um hann. Á nýliðinni hátíð komu hátt í 5.000 erlendir gestir og það utan háannatíma ferðamennskunnar. Þeim hefur fjölgað um helming á síðustu þremur árum. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi hátíðarinnar fyrir þá sem reka veitingastaði og hótel hér i Reykjavík. Við Reykvíkingar vitum um leið að aðrar helgar eru betri til þess að fara út að borða í miðbænum. Hátíðin hófst sem framtak fárra manna fyrir ríflega áratug en er nú orðin að stórviðburði sem er velþekktur erlendis. Ljóst er að Airwaves hátíðin á eftir að verða enn mikilvægari í framtíðinni enda er nú haldið utan um framkvæmd hennar af fagmennsku.

Hafa verður í huga að bæði Bláa lónið og Airwaves hafa orðið til vegna frumkvæðis og framtaks einstaklinga og erfitt er að sjá að almannavaldið geti með nokkru móti þakkað sér árangur af því hvernig til hefur tekist. Nú þegar sumir tónlistarmenn virðast hafa mikinn áhuga á að hið opinbera styðji við tónlistarsköpun þeirra þá er vert að hafa þetta í huga. Skömmtunarvald opinberra úthlutunarsjóða er ekki alltaf það heppilegasta þegar kemur að frumkvæði og sköpun.

bláa

Að selja sig dýrt

Í viðtali við Morgunblaðið um helgina benti Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, á mikilvægi þess að verðleggja Ísland með réttum hætti. Gæta þurfi að því að þjónustan sé arðbær fyrir þá sem að henni standa og geti staðið undir vel launuðum störfum. Friðrik Pálsson, hótelstjóri á Rangá, hefur margoft bent á þetta sama og reyndar fleiri í greininni eins og hefur verið rakið áður hér. Þetta er mikilvæg brýning en því miður er það svo að fjöldatúrismi margra landa getur ekki staðið undir háum launum. Varla er það ætlun Íslendinga að keppa við slíkt? Nú þegar blasir við að ferðamönnum fjölgar stöðugt frá ári til árs og menn jafnvel farnir að tala um að þeir geti slagað upp í tvær milljónir talsins árið 2020 þá er mikilvægt að staldra við. Á það hefur verið bent ítrekað hér.

Við getum tekið farþegaskipin sem hingað sigla sem dæmi. Nú eru horfur á að um 100.000 gestir stígi fæti sínum á íslenska grundu, komandi með slíkum lúxusfleyjum. Samt er það svo að lítið situr eftir. Oftast er keyrt með þessa ferðamenn einn hring um landið þar sem greiðsla til rútufyrirtækisins er það eina sem eftir situr. Slit á vegum og örtröð á Gullna hringnum er það sem við Íslendingar fáum. Á tímabili var vinsælt að keyra með þessa farþega í Bláa lónið en þar höfðu menn aðstöðu til að innheimta gjald. Eftir að Bláa lónið hóf að innheimta 10 evrur af hverjum farþega, sem kom með þessum hætti, hefur slíkum ferðum snarlega fækkað. Það hefur hins vegar ekki haft nein áhrif á afkomu Bláa lónsins sem er augljóslega eitt arðsamasta ef ekki arðbærasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Menn ættu að leggja við hlustir þegar ábendingar koma frá stjórnendum slíks fyrirtækis.