c

Pistlar:

30. ágúst 2014 kl. 15:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fátækt verður félagsleg staðreynd á Íslandi

Sænski fræðimaðurinn Hans Rosling hefur bent á að engin fátækt sé raunverulegri en sú sem veldur ótta við hungur. Að beina hungurvofunni burt frá fátæku fólki er mikilvægast af öllu og það eigi að vera miðpunktur allrar aðstoðar við það. Óhætt er að segja að baráttan við hungur hafi gengið þokkalega en hér var í pistli fyrir ári síðan bent á að 38 lönd höfðu þá náð markmiðum um útrýmingu hungurs samkvæmt þeim viðmiðum sem sett voru þar um að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, þúsaldarmarkmiðunum svokölluðu, (Millennium Development Goals, MDGs). Ætlunin var að draga úr hungri um helming árið 2015. Þó það takist tæpast er hægt að segja að markverður árangur hafi náðst.

Rosling, sem mun halda fyrirlestur hér á landi nú í september, segir að efnahagsleg framþróun sé mikilvægasta vopnið til að sigrast á vandamálum eins og fátækt og hungri.  Einnig vinni hún á slöku heilsufari, menntunarleysi og öðrum afleiddum þáttum eins og vondu stjórnarfari. Af þessu leiðir að skynsamlegt er að einbeita sér að efnahagslegum framförum, það nýtist fátæku fólki best. Því miður er það svo að ýmsir horfa á efnahagslegar framfarir öðrum augum, meðal annars að þær leiði til misskiptingar auðs og ágengni gagnvart náttúrunni. Staðreyndin er sú að fátæk lönd, á mörkum hungurs, ganga nærri náttúrunni meir en aðrir. Á ákveðnu skeiði efnahagslegrar framþróunar skapast tækifæri til að huga að umhverfinu á annan hátt en hugraðar þjóðir sjá sér fært.

Hungurvofunni bægt frá á Íslandi

Við sjáum þessi tengsl efnahagslegra framfara og útrýmingar fátæktar glögglega hér á Íslandi. Óhætt er að segja að hér á landi hafi hungur verið raunverulegt vandamál fram yfir aldamótin 1900. Nýleg þáttaröð Ríkissjónvarpsins um fólksflutninga til vesturheims sýna glögglega hve ástandið var viðkvæmt. Á þeim tíma þurfti ekki nema eldgos, hafís eða önnur náttúruvá til að hungurvofan færi á stjá. Það var ekki fyrr en með þilskipavæðingunni og breyttum framleiðsluháttum til sjávar og sveita sem þetta breyttist.

En þó að hungurvofunni hafi verið bægt frá hér á landi  þá lýkur aldrei umræðunni um fátækt og sjálfsagt er skilgreining hennar og þá ekki síður úrræði við fátækt pólitísk hitamál. Ekki beinlínis flokkpólitísk en vissulega má finna þar hugmyndafræðilegan ágreining sem kristallast í umræðu um hlutverk einstaklingsframtaksins í þjóðfélaginu og stærð velferðarkerfisins. Á stundum getur þessi umræða orðið einkennileg. Það fellur auðvitað undir einhverskonar kaldhæðni en forvitnilegt var að lesa um það á síðasta ári að íslenskur doktorsnemi í siðfræði við Háskóla Íslands hefði ákveðið að fara í árs námsleyfi til Kaliforníu, sjötta ríkasta hagkerfis heims, til að ljúka doktorsverki sínu um fátækt. Þar hugðist hann meðal annars glíma við spurninguna um  „viðundandi velferð og áhrif fátæktar á fólk og ástæður fátækar og hvernig við getum útrýmt fátækt," eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins

Breyting á umræðu um fátækt

Augljóslega breyttist afstaða landsmanna til fátæktar eftir því sem leið á 20. öldina og efnahagsleg velsæld færði okkur lífsgæði sem forfeður okkar gátu ekki látið sig dreyma um. Hans Rosling rekur þessa umbreytingu á heimsvísu með ágætum og reyndar á einstaklega myndrænan hátt í fyrirlestrum sínum. Og verður þá tíðrætt um þróunina í Svíþjóð. Ísland kemur væntanlega í humátt á eftir, oftast nokkrum áratugum síðar erum við að taka upp breytingar sem fyrst birtast í sænsku velferðarkerfi. Smám saman kallar velferðarkerfið á nýjar skilgreiningar á fátækt. Því miður hefur undirritaður ekki fundið skýr merki um það hvenær við hættum að tala um fátækt og byrjum að tala um hlutfallslega fátækt sem segir auðvitað mikið um samfélagsumræðuna. Og ef við erum orðin sammála um að ræða um hlutfallslega fátækt er þá ekki vonlaust að ætla sér að útrýma henni nema við einfaldlega stefnum að því að allir séu fullkomlega jafnir í efnahagslegu tilliti? En þá erum við nokkurn veginn komin á þann stað sem klífur hin ólíku sjónarmið sem standa að baki hugsjónum einstaklingsframtaks og jafnaðarstefnu.

fatækt

Fátækt verður félagsleg staðreynd á Íslandi

Í framhaldi alls þessa má segja að það sé áhugavert að hugsa til þess að umræða um fátækt nær sér ekki almennilega á strik á síðari tímum fyrr en efnahagslegar framfarir hafa fært okkur það sem í daglegu tali hefur verið kallað ,,góðærið". Segja má að nýtt upphaf hafi orðið í umræðu um fátækt þegar Harpa Njáls félagsfræðingur gaf út bók sína Fá­tækt á Íslandi við upp­haf nýrr­ar ald­ar, árið 2003. ,,Meg­inniðurstaðan er sú að fá­tækt er staðreynd á Íslandi," sagði Harpa við þetta tilefni og fullyrti um leið að 7 til 10% landsmanna lifi og búi við fátækt. Niðurstöður hennar voru sláandi en um fjórðung­ur bók­ar­inn­ar var byggður á viðtölum við fólk sem bjó við fá­tækt­araðstæður samkvæmt skilgreiningum Hörpu. ,,Það er al­ger­lega nýtt inn í þessa umræðu að radd­ir þeirra fá að heyr­ast," sagðir Harpa í samtali við Morgunblaðið við þetta tækifæri. Hún sagði það ný­mæli að hún mæli fá­tækt út frá al­gild­um fá­tækt­ar­mörk­um. ,,Mæl­ing­in felst m.a. í því að rann­saka hvort lág­marks­tekj­ur, sem mótaðar eru af hinu op­in­bera með ákvörðunum um upp­hæðir líf­eyr­is­greiðslna al­manna­trygg­inga, fram­færslu­styrk­ur fé­lagsþjón­ustu sveit­ar­fé­laga og einnig tekj­ur ófag­lærðra á vinnu­markaði sem í mörg­um til­vik­um vinna hjá ríki og borg, dugi fyr­ir lág­marks­fram­færslu­kostnaði," eins og skýrt er í bók­inni. Segja má að bók Hörpu og sú umræða sem hún skapaði hafi rammað inn fátækt sem félagslega staðreynd hér á landi. Í því fólust talsverð tímamót þó ekki væri um það rætt með sínum tíma.

Í næsta pistli ætla ég að halda áfram að fjalla um fátækt og hvernig hún hefur verið skilgreind í opinberri umræðu.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.