c

Pistlar:

28. desember 2014 kl. 15:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Batnandi staða á vinnumarkaði

Sá hagvísir sem mest er horft til í Bandaríkjunum er sá er mælir ný störf. Bandaríkjamenn vita sem er að þangað verður framleiðniaukning og hagvöxtur sóttur, úr hendi hins vinnandi manns. Nýjustu tölur segja okkur að atvinnulífið í Bandaríkjunum skapaði 321 þúsund ný störf í nóvember síðastliðnum. Eða eitt starf á hvern Íslending. Eru það mun fleiri störf en sérfræðingar höfðu búist við, en þeir höfðu spáð um 225 þúsund nýjum störfum í mánuðinum. Þetta hefur í för með sér að meira en 200 þúsund störf hafa skapast í hverjum einasta mánuði í tíu mánuði í röð í Bandaríkjunum. Það er lengsta slíka tímabil frá árinu 1995. Að meðaltali hafa skapast 241 þúsund störf á mánuði það sem af er árinu og atvinnuleysi mælist nú vera 5,8%. Það er órafjarri þeim tölum sem við eigum að venjast í Evrópu. Bandaríska hagkerfið er sem fyrr að sanna yfirburði sína en nú mælist hagvöxtur þar vera 5%. Svo notuð sé gamalkunnug lýsing; bandaríska hagkerfið reikspólar nú yfir það evrópska!

Hagstæðar tölur

Hér á Íslandi hefur einnig orðið umtalsverð breyting á vinnumarkaði. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var atvinnuleysi á Íslandi 3,1 prósent í nóvember. Fara þarf sex ár aftur til að finna viðlíka tölu. Þegar haft er í huga að kaupmáttur hefur aukist verulega undanfarið samhliða lækkandi verðbólgu og sömuleiðis hefur sterkur vöxtur verið í einkaneyslu, ef undanskilin er þriðji ársfjórðungur í ár eins og vikið verður að síðar. Greiningaraðilar hafa því spáð því að í lok þessa árs muni 12 mánaða kaupmáttaraukning heimila nema 5,5% til 5,9%. Það er tala sem flestir hefðu talið illmögulega í upphafi ársins.

En víkjum aftur að vinnumarkaðinum. Niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun sem Hagstofa Íslands birti skömmu fyrir jól benda til þess að mun meiri gangur hafi verið á vinnumarkaði í nóvember síðastliðnum en verið hefur síðustu mánuði. Greiningardeild Íslandsbanka benti á að mælingar Hagstofunnar á þróun vinnustunda gefi ágæta vísbendingu um umsvif í hagkerfinu á hverjum tíma, enda endurspeglar fjöldi vinnustunda eftirspurn eftir vinnuafli, og þar með framboðshlið hagkerfisins. „Gefa þær vísbendingu um að vinnuaflseftirspurn sé að aukast hraðar nú en verið hefur undanfarið, þó rétt sé að hafa í huga að talsverðar sveiflur geta verið í mánaðartölunum," sagði í Morgunkorni Íslandsbanka á Þorláksmessu.

Mesta fjölgun í ár

Lítum aðeins á vinnumarkaðinn í heild sinni og styðjumst við greiningu þeirra Íslandsbankamanna: Alls voru tæplega 181.500 manns starfandi í nóvember síðastliðnum sem jafngildir 4,0% fjölgun frá sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 6.900 manns. Venjulegar vinnustundir í viku hverri voru 39,1 klukkustundir í mánuðinum, sem felur í sér fjölgun vinnustunda um 0,4 klukkustundir á viku frá því í nóvember í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði því um 5,0% á milli ára samkvæmt rannsókn Hagstofunnar, sem er mesta aukning vinnustunda á þennan mælikvarða í heilt ár. Eins og áður segir er talsverð fylgni milli þróunar vinnustunda og hagvaxtar, og gefur þróunin nú vísbendingu um að vöxturinn sé eitthvað að taka við sér nú á síðasta fjórðungi ársins, eftir lítilsháttar samdrátt á fyrri fjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hér benda Íslandsbankamenn á þá margumtöluðu og sérstæðu staðreynd að hagvöxtur mælist lítill um þessar mundir (á þriðja ársfjórðungi) samkvæmt Hagstofunni, nokkuð sem greiningaraðilar almennt telja að komi illa heim og saman við það sem er að gerast annars staðar í hagkerfinu. Er því ástæða til að vara menn við að oftúlka þá niðurstöðu þar til frekari upplýsingar birtast.

Atvinnuleysi ekki verið minna frá hruniatvinnuleysi

Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar voru 187.300 manns á íslenskum vinnumarkaði að jafnaði í nóvember síðastliðnum, sem jafngildir 2,7% fjölgun vinnuafls frá sama mánuði í fyrra. Af þessum fjölda voru 5.800 manns atvinnulausir í mánuðinum, eða sem nemur 3,1% af vinnuafli. Hefur atvinnuleysi ekki mælst minna í könnun Hagstofunnar frá því fyrir hrun, og á það einnig við árstíðarleiðréttar tölur. Í nóvember í fyrra var hlutfall atvinnulausra 4,2%, eða sem nemur um 7.700 manns. Greining Íslandsbanka bendir á að þessar að þessar tölur geta reynst talsvert sveiflukenndar. Hér fylgir með mynd sem fengin er að láni úr Morgunkorni Íslandsbanka en hún sýnir glögglega að atvinnuleysi hefur ekki verið minna frá bankahruninu.

Nokkur munur á tölum um atvinnuleysi

Af ofangreindum tölum Hagstofunnar er ljóst að atvinnuleysi er áfram að minnka jafnt og þétt, og ber þeim saman við tölur Vinnumálastofnunar (VMST) um skráð atvinnuleysi hvað þetta varðar. Sem kunnugt er þá er um tvær mismunandi aðferðir að ræða við að mæla atvinnuleysi, og munar því oft nokkru á milli talna Hagstofu og VMST. Þannig mælist batinn á vinnumarkaði talsvert öflugri og atvinnuleysi minna samkvæmt tölum VMST en tölur Hagstofunnar sýna. Vaninn er í íslenskri umræðu að miða frekar við tölur VMST, þó þær hafi ákveðna annmarka. Það verður reyndar einnig að hafa í huga að samanburður á atvinnuleysistölum milli landa er erfiður og vandmeðfarinn. Lengst af hafa Íslendingar getað glaðst yfir að langtímaatvinnuleysi er lítið og hafa vinnumarkaðsúrræði miðast við að tryggja að það festi sig ekki í sessi.


Sé tekið mið af fyrstu ellefu mánuðum ársins hefur skráð atvinnuleysi að jafnaði mælst 3,6% samanborið við 4,5% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur atvinnuleysi samkvæmt tölum Hagstofunnar minnkað um 0,5 prósentustig, eða úr 5,5% niður í 5,0%. Það sem m.a. er að skýra þennan mun, fyrir utan að önnur aðferðin er byggð á könnun en hin á skráningu, er að þeir sem hafa verið án atvinnu í meira en 3 ár koma fram í tölum Hagstofunnar en ekki í tölum VMST. Greiningardeild Íslandsbanka bendir á að þetta bil mun því eflaust verða enn meira á næsta ári þegar lagabreytingar taka gildi um atvinnuleysistryggingar, sem fela í sér styttingu á greiðslutímabili atvinnuleysistrygginga um 6 mánuði en það mun spara ríkissjóði um einn milljarð króna. Verður bótarétturinn þar með kominn niður í 2,5 ár í stað 3,0 ár. Verður fróðlegt að sjá hvernig vinnst úr því í ljósi þess að vinnuaflseftirspurn er að aukast hraðar nú en verið hefur.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.