c

Pistlar:

5. desember 2015 kl. 13:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vúdútölfræði um sjávarútveginn

Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin á Íslandi sem borgar sérstakan skatt fyrir aðgang að auðlindum landsins. Aðrar atvinnugreinar borga ekki slíkan skatt og hafa þó margir horft til þess að ferðaþjónustunni bæri að gera það með vísun til raka fyrir auðlindagjaldi sjávarútvegsins. Ekki er langt síðan hér var vitnað í greiningu efnahagssviðs SA þar sem kom fram fram að íslenskur sjávarútvegur greiddi um þriðjung af hagnaði sínum til ríkisins á árinu 2013 á meðan aðrar atvinnugreinar greiddu almennt um 20%. Ísland er eina landið innan OECD þar sem skattar á sjávarútveg eru meiri en ríkisstyrkir.

Hvað um það, umræða um auðlindagjald, eða veiðigjald, eins og það heitir í fjárlögum getur orðið villandi. Stundum er það af því að menn vilja hafa það svo. Tilraun til að afvegaleiða umræðuna mátti sjá í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni. Þar sagði fyrirspyrjandi, Björt Ólafsdóttir, að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2016 er veiðigjaldið samkvæmt áætlun hjá fjármálaráðuneytinu sett í 5 milljarða og 322 kr. (svo!) á þessu ári. Og í framhaldinu kom eftirfarandi spurning:

„Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að þetta gjald sé í sögulegu lágmarki samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins þegar, eins og hann veit mætavel, sjávarútvegurinn er í blússandi uppsiglingu. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 43 milljarðar í fyrra. Fyrirtækin greiddu sjálfum sér 13,5 milljarða kr. í arð í fyrra. Er þá eðlilegt að arðurinn til þjóðarinnar sé í raun 0 krónur? Eins og við vitum þá fer heilmikið frá ríkinu í sjávarútveginn sjálfan. Við rekum hér sem betur fer góðar og styrkar stoðir utan um sjávarútveginn sem kosta auðvitað sitt. Það eru stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun sem stuðlar að sjálfbærum veiðum, það er að einhverju leyti Landhelgisgæslan sem sér um björgun og leit á hafi úti, það er Fiskistofa, það er Samgöngustofa að einhverju leyti og auðvitað sjávarútvegsráðuneytið að einhverju leyti. Er eðlilegt að gjöldin þegar svona vel gengur fari bara í sjávarútveginn sjálfan og þjóðin fái 0 krónur í sinn vasa?“

Frá almanaksárinu yfir í fiskveiðiárið

Hér er nauðsynlegt að hafa í huga að lagabreytingar á vorþingi höfðu neikvæð áhrif á tekjuáætlun ársins 2015, en þar var einkum um að ræða breytingar á veiðigjöldum. Lækkun veiðigjalda miðað við fjárlagaáætlun ársins 2015 verður þannig einkum rakin til breyttra lagaákvæða sem jafna álagningu þeirra betur yfir fiskveiðiárið og hliðra henni þar með meira yfir á síðara almanaksárið, eins og nánar verður vikið að síðar. (Fjárlagafrumvarpið bls. 189) Með öðrum orðum, veiðigjöld miðast við fiskveiðiárið en ekki almanaksárið. Þetta var afgreitt út úr atvinnuveganefnd þar sem fyrirspyrjandi sat og ætti því að vita allt um málið. Á þetta var bent sama dag og fyrirspurnin átti sér stað, hér er um að ræða kerfisbreytingu. Það breytir því ekki að umsjónarmaður Vikuloka, Helgi Seljan, kýs að notast áfram við töluna 5,3 milljarða kr. í umræðu um þetta mál í þættinum í dag.

Skoðum aðeins betur breytinguna. Samkvæmt nýju lögunum eru veiðigjöld álögð mánaðarlega þannig að það sem veiðist í september til nóvember 2015 er álagt í október til desember 2015. Miðað við þá mánaðardreifingu sem fæst frá atvinnuvegaráðuneytinu, sem sýnir hvernig fiskveiðitegundirnar hafa verið að veiðast á milli mánaða (langtímameðaltal), reiknast atvinnuvegaráðuneytinu til að um 23% verði álagt á þessu ári og afgangurinn á árinu 2016 (veiðin í des. til ágúst). Þetta leiðir til þess að það verður tilfærsla á tekjunum á milli ára og meirihlutinn af rekstrargrunni er álagt á seinna almanaksárinu. Þetta byggir að sjálfsögðu á ákvörðun Alþingis þar sem fyrirspyrjandi situr eins og áður hefur verið rakið.

Til að benda á hve fráleitt er að ræða um málin með þessum hætti má benda á að ef miðað er við óbreyttar tekjutölur fiskveiðiársins en við höldum okkur eigi að síður við gömlu dreifinguna (úthlutunin fór fram 1. september og kom því öll álagningin fram á fyrra almanaksárinu í fiskveiðiárinu) þá yrðu tekjurnar 2015 á rekstrargrunni 11,8 ma.kr. (Útskýring úr fjárlagafrumvarpinu, bls. 192.)

Eins og kom fram í fjárlagafrumvarpinu að þá eru veiðigjöldin nú lögð á sem næst rauntíma í stað þess að gjöldin séu að stærstu leyti lögð á handhafa aflaheimilda við úthlutun við upphaf fiskveiðiárs og síðan innheimt með fjórum jöfnum gjalddögum, eins og fyrirkomulagið var m.a. á fiskveiðiárinu 2014/2015. Þetta leiðir til þess að álagning veiðigjalda verður lægri á almanaksárinu 2015 þar sem hærri fjárhæð fiskveiðiársins 2015/2016 lendir á árinu 2016 en ella hefði orðið eins og áður hefur verið rakið.

Áætlaðar tekjur af veiðigjaldi nema tæplega 7,9 milljörðum kr. á næsta ári sem er um 2,5 milljarða kr. hækkun frá árinu 2015. Nú verður einungis lagt á eitt veiðigjald í stað almenns og sérstaks veiðigjalds og mun veiðigjaldanefnd reikna framlegð og afkomuígildi fyrir hvern nytjastofn. Álagning og innheimta mun fara fram mánaðarlega og enn fremur var gerð breyting á reiknigrunni veiðigjaldsins. Þá mun hver gjaldskyldur aðili eiga rétt á 20% afslætti af fyrstu 4,5 m.kr. álagðs veiðigjalds og 15% afslætti af næstu 4,5 m.kr. álagningarinnar. Umskiptin yfir í mánaðarlega álagningu hafa það í för með sér að frá haustinu 2015 verður álagningin jafnari innan ársins, en samhliða verða tekjur af veiðigjaldi á árinu 2015 óvenjulitlar. Þessi breytta innheimta skýrir að mestu hækkun gjaldsins á milli áranna 2015 og 2016. (Fjárlagafrumvarpið bls. 201)

Til að skilja enn betur hve villandi upplegg var í fyrirspurninni þá má benda á að í fjárlagafrumvarp ársins 2016 stendur á síðu 15: „Veiðigjald fyrir veiðiheimildir, greiðslugrunnur: 9.430 millj. kr.“ Á tekjugrunni er þessi upphæð 7.830 milljónir kr. eins og áður sagði. Hafa verður í huga að hvorki Ríkisendurskoðun né Fjársýsla ríkisins gera upp á rekstrargrunni innan ársins enda sýnir uppgjör á greiðslugrunni tekjur þegar þær innheimtast og gjöld þegar þau eru innt af hendi. Þetta eru þær greiðslu sem sjávarútvegurinn greiðir fyrir aðgang að auðlindinni en svo koma að sjálfsögðu til sömu skattgreiðslur og önnur fyrirtæki greiða. sjavargraf

Heildargreiðslur útvegsfyrirtækja til hins opinbera námu á milli 25 og 30 milljörðum króna í fyrra. Til samanburðar má nefna að heildargreiðslurnar voru 12 milljarðar árið 2010. Samtals hefur útvegurinn greitt um 100 milljarða kr. í tekjuskatt, veiðigjöld, tryggingagjald, afla og eftirlitsgjöld á síðustu fimm árum.

Af þessu má sjá hve fráleitt er að ræða um veiðigjöld út frá tölunni 5,3 milljarðar króna og gefa í skyn að gjöldin séu að lækka. Í stærra samhengi blasir við að fiskveiðiárið 2014-2015 voru veiðigjöld 7,7 milljarðar króna. Áætlað veiðigjalda 2015-2016, verður í kringum 9,4 milljarða á greiðslugrunni. Það er því erfitt að sjá hvað átt er við þegar fullyrt er að ríkiskassinn komi nokkurn veginn út á sléttu" eins og fyrirspyrjandi kaus að segja í umræðu á Alþingi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.