c

Pistlar:

19. desember 2015 kl. 18:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Það er léttara yfir öllum í Reykjanesbæ

Það er léttara yfir öllum í Reykjanesbæ eftir að atvinnuástandið í bænum batnaði. Þetta sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í fréttum Ríkissjónvarpsins í vikunni. Nú er svo komið að víða vantar fólk til starfa í bænum og húsnæði er af skornum skammti. Þetta er mikil breyting árinu 2010 var atvinnuleysi á Suðurnesjunum komið upp í ríflega 13%. Meðaltal það sem af er þessu ári er hins vegar aðeins 4,1%. „Við komumst lægst núna í september í 2,9% og við munum nú kannski ekki fara mikið neðar en það. Á landsvísu er þetta 2,4 - 2,5% og það er það sem er kannski talið vera náttúrulegt atvinnuleysi,“ segir Íris Guðmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar Suðurnesja, í viðtali við Sjónvarpið. Ótrúlegar tölur ef hugað er að ástandinu fyrir nokkrum árum síðan en þeir finnast sem segja að Ísland geti ekki verið sjálfbært með atvinnuleysi yfir 10%.

Nú er svo komið að allir sem vettlingi geta valdið eru kallaðir til vinnu á Suðurnesjum. Orð bæjarstjórans lýsa vel þeirri miklu breytingu sem orðið hefur. En það er ekki víst að allir átti sig á því hvaða merkingu það hefur þegar næg er atvinna. Ekkert bótakerfi getur bætt upp þá eyðileggjandi tilfinningu sem fylgir því að vera atvinnulaus. Enda er það svo, að með minnkandi atvinnuleysi dregur hratt úr margvíslegum félagslegum og heilsufarslegum vandamálum. Það eru Suðurnesjamenn að upplifa núna.

En nú bregður svo við að þessi frétt rennur framhjá flestum fjölmiðlum sem stytta sér stundir yfir merkingalausu argaþrasi á Alþingi sem telur tíma sínum best varið í að ræða breytingu á vinnufyrirkomulagi þeirra sem vinna við þróunarmál. Aðgerð sem hvorki mun hafa áhrif á þau störf sem eru unnin né þau verkefni sem verða framkvæmd. Reykjanesbær

Allir vinna!

En víkjum aftur að atvinnuástandinu á Suðurnesjum. Á aðeins einu ári hefur fækkað um rúmlega 250 manns á atvinnuleysisskrá í bænum. Og þess má sjá merki víða, til dæmis í slippnum. Þar voru tíu fastir starfsmenn fyrir einu og hálfu ári - nú eru þeir þrjátíu.

„Undanfarið eitt og hálft ár hefur eiginlega orðið sprenging hjá okkur. Bæði í verkefnastöðu og eins hefur bæst við umtalsvert af mannskap. Þótt við getum reyndar notað fleiri,“ segir Logi Halldórsson, verkstjóri hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur í samtali við Sjónvarpið. Hver er breytingin þarna? Jú, sjávarútvegurinn hefur fengið fast land undir rekstur sinn og fjárfestir nú á ný í endurbótum og viðhaldi.

Og nú er svo komið að það er erfitt að fá fólk í vinnu sem búsett er á Suðurnesjum. Atvinnurekendur þar hafa verið að sækja út fyrir svæðið. Þannig vinna menn frá Þorlákshöfn í skipasmíðastöðinni, sem keyra á hverjum degi og líka menn rá Reykjavík og Hafnarfirði. Og það er leitað að fleiri mönnum. Þá hafa þeir ráðið starfsfólk frá Portúgal, Póllandi og Færeyjum.

„Við fáum ekki menn af svæðinu eins og við myndum vilja. Og það er orðið erfitt með húsnæði. Okkar starfsmenn sem búa annars staðar og vilja koma á svæðið eiga erfitt um vik að fá húsnæði,“ segir Logi í viðtalinu.

Mikill viðsnúningur

Áhrif efnahagshrunsins 2008 voru þau að ríflega 20 þúsund störf glötuðust. Ári síðar var fjöldi þeirra sem voru með bótarétt, þ.e. skráð atvinnuleysi, ríflega 13 þúsund manns en þar til viðbótar voru brottfluttir landsmenn á vinnufærum aldri umfram aðflutta um 2.400 manns. Við þetta má bæta að ríflega 5600 manns höfðu hreinlega hætt að leita sér að vinnu eða farið í nám því atvinnuþátttakan á landinu lækkaði um 3% milli 2007 og 2009. Því má segja að raunatvinnuleysi á Íslandi hafi árið 2009 verið um 21 þúsund manns miðað við sömu atvinnuþátttöku og fyrir hrun. Af þessum fjölda áttu 63% rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt samantekt ASÍ.

En það er ekki nóg með að aukin atvinna bæti stöðu fólks. Meiri atvinna skilar auknum útsvarstekjum til bæjarins, og lægri kostnaði við atvinnulausa. Bæjarstjórinn fagnar þessu og sagði: „Þetta er frábært og við finnum að það er léttara yfir öllum. Það eru færri íbúar sem þurfa á fjárhagsstuðningi sveitarfélagsins að halda og það eru færri á atvinnuleysisskrá. Og maður finnur að það er bjart yfir fyrirtækjunum og ef eitthvað er hafa þau áhyggjur af næsta sumri. Hér eru mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu, í kringum flugið og svona. Og þeir hafa áhyggjur af því að fá ekki nægan mannskap. Og það er mikill viðsnúningur frá því sem var fyrir ári, tveimur síðan,“ segir Kjartan.

Margt veldur þessum viðsnúningi á Suðurnesjum. Fyrst er að nefna ferðaþjónustuna og þau fyrirtæki sem henni tengjast. Þar ber flugvöllurinn auðvitað hæst enda sækja nú flestir vinnu þangað. Ferðaþjónustunni fylgja svo ýmiss konar störf á svæðinu, til dæmis á hótelum og bílaleigum. Um leið er talsverð uppbygging að hefjast í tengslum við stóriðju, svo sem í Helguvík þar sem uppbygging hjá Thorsil ehf. sem hyggur á rekstur kísilmálmverksmiðju. Sömuleiðis er United Silicon að vinna að undirbúningi starfsemi. Bjartsýni og framfarahugur hefur tekið yfir á Suðurnesjum. Vandamálin eru ekki horfin en þau eru nú viðráðanlegri. Allir eru að vinna!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.