c

Pistlar:

3. janúar 2016 kl. 17:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í upphafi árs

Þráinn Eggertsson hagfræðingur minnti eitt sinn á að hagkerfi séu í eðli sínu háskaleg. Ekki sé hægt að ganga að neinu vísu og því sé erfitt að spá fyrir um hvað er framundan. Það eru orð að sönnu. Margt bendir þó til þess að Íslendingar geti verið bjartsýnir í upphafi árs 2016 en vissulega eru margvíslegar hættur framundan. Að þessu sinni eru þær góðæristengdar. Á slíkum stundum getur hagstjórn orðið erfið hér á landi.

Þar skiptir mestu hvort Íslendingum tekst að hemja verðlagsbreytingar og koma í veg fyrir víxlverkun kaupgjalds og verðlags og að þensla og verðbólga haldi þannig innreið sína með gamalkunnugum afleiðingum. Kaupmáttaraukning síðasta árs virðist ekki hafa fært öllum vissu um að við værum á réttri braut. Enn á ný er er verið að hlaða í kröfubyssurnar þó allir megi vita að það er erlend verðhjöðnun sem heldur aftur af verðbólgu þessi misserin. Við getum ekki búist við því að svo verði áfram. Ef verðbólgan fer af stað er kaupmátturinn fljótur að hverfa.

Greiningardeild Arion banka afgreiddi árið með þessum hætti: Árið 2015 var hörku gott í efnahagslegu tilliti á Íslandi. Sjálfsagt gæti kaflinn um það heitið: “Ríkisfjármál á betra róli"," Launahækkanir í lítilli verðbólgu" eða" Höftin kvödd". Eitthvað í þessa veruna!

Vissulega er þetta rétt en hvernig er staðan núna þegar við lítum yfir árið 2015. Hagvöxtur hefur verið góður (4,5 til 5%), verðbólga lág (undir verðbólguviðmiðum SÍ) og kaupmáttur launa hefur aukist (6-7%). Atvinnuþátttaka fer vaxandi, atvinnuleysi er lítið (2-3%) og víða vantar starfsmenn. Gjaldþrotum hefur snarlega fækkað og nýjum fyrirtækjum fjölgar. Aukin bjartsýni ríkir meðal stjórnenda í atvinnulífinu og neytendur eru að taka við sér. Gríðarlegur vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í nóvember sl., og hefur aukningin á milli ára ekki verið meiri síðan í ágúst á hinu mikla einkaneysluári 2007. Verslunin hafði miklar væntingar til jólaverslunarinnar og líklega hefur það gengið eftir.

Uppgjörinu við hrunið að ljúka

Nýsamþykkt lög um opinber fjármál gefa vonir um að stöðuleiki í ríkisfjármálum verði festur í sessi. Nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna marka tímamót, færa ríkissjóði gríðarlegar tekjur og eru forsenda þess að hægt verði að afnema fjármagnshöft án þess að allt fari úr böndunum. Um leið hefur kyrrstaða verið rofin í ýmsum velferðarmálum. Flest bendir því til að árið 2016 verði okkur Íslendingum hagfellt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði eitt sinn að íslenska hagkerfið væri eitt það sveigjanlegasta í heimi. Nú reynir á þanna sveigjanleika.

Á þeim tímamótum sem við lifum núna er mikilvægt að átta sig á því að nú erum við að verða búin að vinna okkur út úr eftirköstum bankahrunsins 2008. Skuldir heimila hafa færst í eðlilegt horf með skuldaleiðréttingunni og horfur eru á að skuldir ríkissjóðs lækki hratt í kjölfar þeirra aðgerða sem kynntar voru á síðasta ári um afnám hafta og uppgjör slitabúa bankanna. Bjartsýnir menn gæla við að ríkissjóður geti hækkar hratt lánshæfi sitt og fyrstu viðbrögð lánshæfismatsfyrirtækjanna benda til þess. Nýjar áskoranir bíða.hagkerfi

Svigrúmið sem ríkissjóður hefur næstu misseri byggist á lækkun skulda og lægri vaxtagreiðslum. Til að skilja mikilvægi þess getum við tekið sem dæmi mann sem rekur sig á 20% yfirdrætti. Það þýðir að hann tapar öllum tekjum sínum fimmta hvert ár. Miðað við skuldastöðu ríkissjóðs hefur ríkið verið að tapa áttunda hverju ári. Það segir sig sjálft hversu gríðarleg tækifæri felast í því að breyta þessu. Þeir fjármunir sem sparast nýtast til velferðarmála og uppbyggingar í samfélaginu. Það ætti öllum að vera ljóst mikilvægi þess að ná hratt fram þessum sparnaði. Á meðan verða landsmenn að slá af sínum ýtrustu kröfum til velferðarríkisins.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í haust var gert ráð fyrir að 72 milljarðar færu í vexti. Það er um 10% lækkun milli ára en hafa verður í huga að áhrif uppgjörs slitabúanna komu ekki fram fyrr en við þriðju umræðu fjárlaga. Það er mikið hægt að gera fyrir 72 milljarða ef við náum því markmiði að þurrka út vaxtakostnað ríkissjóðs. Miklar áskoranir bíða. Því hefur verið haldið fram að ráðast verði í innviðafjárfestingu fyrir 500 milljarða króna. Á milli 600 og 700 milljarða vantar til að fjármagna lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna. Heilbrigðiskerfið mun einnig taka til sín aukið fjármagn á næstu árum. Allt þetta sýnir hve mikilvægt er að ná tökum á fjármálum hins opinbera sem fyrst.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.