c

Pistlar:

31. maí 2016 kl. 20:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kjarkur seðlabankastjóra

Síðasta haust kom út ævisaga Ben S. Bernanke fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Bernanke kýs að láta bókina heita Kjarkur til athafna (The Courage to Act: A Memoir of a Crisis and Its Aftermath.) Eins og undirtitillinn gefur til kynna snýst bókin að verulegu leyti um fjármálakreppuna 2008, bæði aðdraganda hennar en ekki síður úrvinnslu og eftirmála. Frásögnin er forvitnilegt vegna þess að segja má að Bernanke hafi helgað líf sitt fjármálakreppum, bæði sem fræðimaður en þó ekki síður sem embættismaður. Að því leyti var einstakt að hann skildi sitja í stól seðlabankastjóra Bandaríkjanna þegar erfiðasta fjármálakreppa frá Hruninu mikla reið yfir.Bernanke-Fed

Bernanke er af gyðingum kominn í báðar ættir, fæddur árið 1953 í Georgíu-ríki. Hann lauk BA-gráðu í hagfræði frá Harvard-háskólanum árið 1975 og doktorsgráðu frá MIT í Boston fjórum árum síðar. Að námi loknu sneri hann sér að kennslu, meðal annars við Princeton-háskólann eða allt þar til hann settist í stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna árið 2002 (Board of Governors of the Federal Reserve System). Þar sat hann allt þar til hann tók við af Alan Greenspan sem seðlabankastjóri í byrjun árs 2006, skipaður af George W. Bush. Bernanke þótti hafa stuðlað að bættri samvinnu bankans og annarra fjármálafyrirtækja og gerði sitt til að auka gagnsæi og lyfti af þeirri leynd sem áður þótti hvíla yfir ákvörðunum bankans, sérstaklega vaxtaákvörðunum en Greenspan var af gamla skólanum í þeim efnum. En verkefnin í seðlabankanum reyndust meiri og erfiðari en séð var fyrir og Bernanke var legið á hálsi fyrir að hafa ekki brugðist við áður en kreppan skall á (nokkuð sem seðlabankastjórar fá gjarnan að heyra). Hvað um það, Bernanke þótti stranda sig vel í sjálfri krísunni og Barack Obama skipaði hann áfram sem bankastjóra árið 2009. Bernanke hætti síðan að loknu seinna tímabilinu sem bankastjóri og Janet Yellen tók við af honum í upphafi árs 2014.

Einn af valdamestu mönnum heims

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna er án efa einn af valdamestu mönnum heims. Það er því forvitnilegt að sjá nálgun hans á fjármálahrunið. Í inngangskafla bókar hans dregur Bernanke upp áhugaverða mynd. Þar lýsir hann því hvernig hann og Hank Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, tóku ákvarðanir sem líklega skiptu sköpum fyrir framvindu lausafjárkreppunnar sem reið yfir haustið 2008. Þriðjudaginn 16. september sátu þeir Bernanke og Paulson örlagaríkan fund með Bush Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu. Að sögn Bernanke var forsetinn vanur að slá á létta strengi í upphafi funda en að þessu sinni sagði hann einfaldlega: Hvernig gat þetta gerst? Þegar þarna var komið sögu höfðu bandarísk yfirvöld barist við fjármálalegan óstöðugleika eða jafnvel krísu í meira en ár. Í marsmánuði hafði Seðlabankinn lánað fjárfestingabankanum JP Morgan 30 milljarða Bandaríkjadala til að bjarga öðrum fjárfestingabanka, Bern Stearns, frá falli.

Til að koma í veg fyrir að lægðin á fasteignamarkaðnum dýpkaði enn kom Seðlabanki Bandaríkjanna fasteignalánafyrirtækjunum Fannie Mae og Freddie Mac til hjálpar um miðjan júlí, með því m.a. að veita þeim aðgang að lágvaxtalánum á svipuðum kjörum og viðskiptabankar fengu og með því að afnema bann ríkissjóðs á því að kaupa hlutabréf í ríkisstuddum fyrirtækjum. Aðgerðin bar þó ekki tilætlaðan árangur. Í byrjun september neyddust yfirvöld til þess að taka yfir Fannie Mae og Freddie Mac til að bjarga þeim en félögin báru saman ábyrgð á um það bil helmingi allra veðlána í Bandaríkjunum.

Áfallið sem allir óttuðust dunið yfir 15. september. Lehman Brothers, fjórði stærsti fjárfestingabanki landsins, óskaði þá eftir gjaldþrotaskiptum. Sú niðurstaða ollir gríðarlegri taugaveiklun á fjármálamörkuðum um allan heim enda vissu allir af örvæntingafullum tilraunum yfirvalda til að fá einhvern til að taka yfir bankann. Ljóst var að gjaldþrot Lehman Brothers myndi hafa veruleg áhrif á stöðu Merrill Lynch. Því varð úr að Bank of America yfirtók Merrill Lynch og forðaði honum þar með frá þroti. Í kjölfarið sóttu einu eftirlifandi fjárfestingarbankarnir á Wall Street, Goldman Sachs og Morgan Stanley, um leyfi til að breyta sér í viðskiptabanka, sem Seðlabanki Bandaríkjanna samþykkti. Með samþykktinni öðluðust bankarnir leyfi til að taka við almennum innlánum auk þess sem þeir heyra nú undir eftirlit bandaríska seðlabankans á sama hátt og aðrir bankar. Þetta voru kaflaskil í 75 ára sögu fjárfestingabanka á Wall Street en mörgum til armæðu náðu þeir aftur vopnum sínum og eftirlifandi fjárfestingarbankar eru enn við sömu iðju.

Björgun AIG

Þegar þarna var komið sögu blasti við að næsta áfall á eftir gjaldþroti Lehman Brothers gæti riðið bandarísku fjármálakerfi að fullu og jafnvel valdið heimskreppu. Bernanke og Paulson voru einbeittir í því að koma í veg fyrir að ný kreppa riði yfir. Þeir höfðu búið til risavaxinn björgunarpakka fyrir fallandi risa en tryggingafélagið American International Group (AIG), stærsta tryggingafélag Bandaríkjanna, var á heljarþröm og eina ráðið að mati Bernanke og Paulson var að dæla fé inn í fyrirtækið. AIG hafði hagað sér mjög kæruleysislega, tekið þátt í flóknum og ógagnsæjum fjármálagerningum svo sem undirmálslánum (e. subprime mortgages) og þannig stefnt eigin fé sínu í hættu. Fyrirtækið er umfangsmikill útgefandi skuldatrygginga og þrot þess hefði neytt fjölda fjármálastofnana til að leggja fram mikið fjármagn sem hefði reynst erfitt í því árferði sem ríkti þá.   

Bernanke tekur fram að þeir hafi ekki haft neinn áhuga á að bjarga hluthöfum, stjórnendum né starfsmönnum AIG. Það hefði hins vegar þurft að þurft að bregðast við þar sem menn óttuðust afleiðingar gjaldþrotsins. Því settu þeir seðlaprentunarvélarnar á fullt og dældu 85 milljörðum Bandaríkjadala inn í AIG og tóku yfir 80% hlutafjár í félaginu.

Forvitnilegt er að lesa um samskipti þeirra Bernanke og Paulson annars vegar og Bush hins vegar. Forsetinn sagðist einfaldlega treysta dómgreind þeirra, hann myndi reyna að sjá til þess að ákvarðanir þeirra fengju nægan pólitískan stuðning. Ef marka má frásögn Bernanke reyndi forsetinn aldrei að hafa áhrif á ákvarðanir þeirra heldur sýndi þessum fremstu sérfræðingum bandarísks stjórnkerfis fullkomið traust. Þegar þeir skýrðu ákvörðun sýna fyrir þinginu voru þeir ekki stöðvaðir en minntir á að ákvörðunin og ábyrgðin væri þeirra. Hugsanlega skýrir þetta hve vel tókst til en engar rannsóknir eða ákærur hafa lent á þeir sem véluðu þarna um.      

Þess má geta að í bókinni er aldrei minnst á Ísland og er þá vert að hafa í huga að bókin er meira og minna uppgjör seðlabankastjóra Bandaríkjanna við fjármálakreppuna 2008 og hrun fjármálafyrirtækja. Af þessu má ráða að hann telur Ísland ekki hafa gengt miklu hlutverki í þessari atburðarás allri. Það gæti verið hollt fyrir þá er taka þátt í þjóðfélagsumræðunni hér heima að hafa það í huga.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.