c

Pistlar:

5. júní 2016 kl. 22:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

26 milljarða tékki

Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra í dag, 5. júní, numið tæpum 208 milljörðum króna eða um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016. Sú fjárhæð hefði fallið á ríkissjóð og hefði verið til greiðslu í jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum á næstu átta árum, eða um 26 milljarðar á ári ásamt vöxtum. Samningarnir kváðu ekki á um greiðslur umfram heimtur úr búi Landsbankans fyrr en eftir 5. júní 2016. Þetta kom fram í svari dr. Hersirs Sigurgeirssonar á Vísindavef Háskóla Íslands 9. febrúar síðastliðin og verður að miða gengi við þá dagsetningu en greiðslur átti að inna af hendi í pundum og evrum. ávísun

Umræddir samningar voru undirritaðir hinn 5. júní 2009. Svavar Gestsson var formaður samninganefndar íslenska ríkisins við gerð samninganna og eru þeir því oftast kenndir við hann. Alþingi samþykkti hinn 28. ágúst 2009 lög nr. 96/2009 sem heimiluðu fjármálaráðherra að staðfesta samningana fyrir hönd ríkissjóðs og tóku þau gildi 2. september eftir staðfestingu forseta. Bretar og Hollendingar höfnuðu hins vegar samningunum vegna fyrirvara sem Alþingi setti í lögin svo þeir tóku aldrei gildi. Nú er ljóst að fyrirvararnir hefðu engin áhrif haft á greiðslur ríkissjóðs vegna samninganna.

Sjö ára skjólinu lokið

Þegar samningurinn var kynntur á sínum tíma lagði Svavar og talsmenn ríkisstjórnarinnar mikla áherslu á að sjö ára skjól fengist með samningnum. Svavar sjálfur orðaði þetta svona í frægu viðtali við Morgunblaðið 8. júní 2009: „Við kom­um hag­kerf­inu í skjól í sjö ár í miðri krepp­unni. Skjól sem er von­andi hægt að nota til að gera eitt­hvað af viti. Í öðru lagi er mik­il­vægt að hafa í huga að þessi ákvörðun opn­ar fjár­mála­heim­inn aft­ur fyr­ir Íslandi.”

Um þetta sama skrifaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra á heimasíðu sína 29. júní 2009:

„Með samkomulaginu er háum þröskuldi rutt úr vegi endurreisnaráætlunar Íslands og með því opnast á ný, þær efnahagslegu og politísku dyr til alþjóðasamfélagsins sem framtíð Íslands byggir ekki hvað síst á.

Að mínum dómi hefur það markmið Alþingis náðst með Icesave samningunum að tekið yrði tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í“. Það er gert með því að ríkið þarf ekki að inna neinar greiðslur af hendi næstu sjö ár meðan Íslendingar eru að vinna sig út úr efnahagsvandanum. Höfuðstólinn greiðist þennan tíma niður eins og tök eru á með tekjum af eignum Landsbankans.“

Ljóst er að ef samningurinn hefði verið samþykktur hefði ríkissjóður Íslands orðið að standa skil á greiðslu upp á 26 milljarða króna á ári, nú næstu átta árin. Það hefði líklega öllum þótt blóðugt. Og hvað áttum við að fá í staðinn? Jú, væntingarnar voru að samningurinn auðveldaði endurreisn íslensks efnahagslífs. Að auka skuldir þjóðarbúsins væri betra en að hafa óvissu yfir sér. Mér vitanlega hafa ekki farið fram neinar hagfræðilegar rannsóknir á því hvaða árangur hefði náðst ef hagkerfið hefði komist í sjö ára „skjól”. Í það minnsta er ljóst að greiðslan væri hafin og þætti sjálfsagt flestum blóðugt að standa skil á þessum fjármunum, jafnvel þó að nú ári vel í íslenskum þjóðarbúskapi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.