c

Pistlar:

15. október 2016 kl. 15:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stöðugleikinn langþráði

Í vikunni kom út ritið Fjármálastöðugleiki, 2. hefti 2016, gefið út af Seðlabanka Íslands. Ritið er birt tvisvar á ári og veitir yfirlit yfir stöðu fjármálakerfisins, þ.e. um styrk þess og hugsanlega veikleika og áhættu sem því kann að vera búin bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga. Í ritinu greinir Seðlabankinn frá því hvernig hann vinnur að verkefnum sem varða virkt og öruggt fjármálakerfi.

Staðan á Íslandi er þannig núna að líklega hafa landsmenn fundið langþráðan stöðugleika. Það kristallast ágætlega í formálsorðum Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra í stöðugleikaskýrslu Seðlabankans. Gefum honum orðið:

„Undanfarin misseri hefur fjármálakerfið búið við afar hagstæð ytri skilyrði. Hagvöxtur hefur verið þróttmikill, dregið hefur úr atvinnuleysi, ráðstöfunartekjur heimila hafa aukist hröðum skrefum og hagnaður fyrirtækja verið almennt nokkuð góður að því er best verður séð.

Heimili og fyrirtæki hafa nýtt hinar hagstæðu aðstæður til þess að draga úr skuldsetningu og bæta eiginfjárstöðu. Þrátt fyrir að vöxtur ráðstöfunartekna hafi verið óvenjuhraður, eignaverð hækkað umtalsvert og aðgangur innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum verið greiðari en um langt skeið hefur útlánavöxtur verið hóflegur og verðbólga lítil, enda hafa batnandi viðskiptakjör og uppgangur í ferðaþjónustu ýtt undir viðskiptaafgang og gengishækkun krónunnar. Viðskiptaafgangurinn hefur einnig verið nýttur til þess að efla gjaldeyrisforðann í aðdraganda losunar fjármagnshafta. Ytri staða þjóðarbúsins hefur batnað mikið á skömmum tíma sem eykur viðnámsþrótt gagnvart þjóðhagslegum áföllum sem gætu reynt á stöðugleika fjármálakerfisins.”

Er stöðugleiki sjálfgefinn?

En þrátt fyrir þessi augljósu sannindi þá virðist umræða um áframhaldandi stöðugleika ekki vera fyrirferðamikil í samfélaginu þessa daganna. Þvert á móti virðist umræðan snúast um flest annað en þá varfærnislegu hugsun sem leiðir af sér stöðugleika og þó sértaklega þegar þarf að varðveita hann. Því til áréttingar læt ég fylgja hér með mynd úr stöðugleikaskýrslunni sem sýnir skuldir ríkissjóðs. Að halda áfram að lækka þær og lækka þannig vaxtagreiðslur ríkissjóðs ætti að vera eitt mikilvægasta verkefni dagsins, ekki síst fyrir komandi kynslóðir.skuldirrikis

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, bendir á mikilvægi stöðugleikans fyrir atvinnulífið í nýlegum pistli.

„Rekstur fyrirtækja og heimila þrífst best við stöðugleika í verðlagi og gengi. Ástæðan er einföld. Allar ákvarðanir um fjárfestingar, skuldsetningu, neyslu og ráðningar verða miklu betri í fyrirsjáanlegu umhverfi án mikilla verðlags- og gengistruflana. En íslenskt efnahagslíf hefur hins vegar löngum verið þjakað af verðbólgu og gengissveiflum sem verulega getur dregið úr samkeppnishæfni landsins. Þessi hagþróun með víxlhækkun launa og verðlags má ekki endurtaka sig.

Sem betur fer hafa síðustu misseri einkennst af efnahagslegum stöðugleika en í skjóli fjármagnshafta. Lág verðbólga hefur verið ein mikilvægasta uppspretta kaupmáttaraukningar síðustu ára samhliða kröftugum hagvexti og hækkun launa. Þennan stöðugleika er mikilvægt að verja sérstaklega þegar hillir undir afnám fjármagnshafta og gengi krónunnar mun í vaxandi mæli ráðast af þeim kröftum sem móta efnahagsþróun á hverjum tíma. Vegna þessa þarf hagstjórnin að vera öguð og einkennast af ráðdeild.”

Bjarni bendir á að það er hagur okkar allra að efnahagslegur stöðugleiki fái veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar því í þannig umhverfi tekst okkur að skapa sem mest verðmæti og tryggja samkeppnishæfni Íslands.

En staðreyndin er sú að stöðugleikinn eða varðveisla hans er ekki fyrirferðamikill í umræðu dagsins í dag. Þegar við eyjum hann loksins þá tökum við honum kannski sem sjálfgefnum. En auðvitað er ekki svo, handan við hornið eru nýir háskar í hagkerfinu. Háskar sem geta reynst okkur erfiðir ef við búum ekki í haginn og undirbúum okkur.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.