c

Pistlar:

8. febrúar 2024 kl. 10:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skattlagt strax vegna Grindavikur en opinn tékki hælisleitenda


Það er ómögulegt að fá áreiðanlegar upplýsingar frá ráðamönnum um hver raunverulegur kostnaður skattgreiðenda er vegna hælisleitenda og flóttamanna. Á næstu 24 mánuðum gerir ríkissjóður ráð fyrir að kostnaður við hælisleitendakerfið muni verða 32 milljarðar króna. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í viðtali í Spursmálum síðastliðin föstudag.

Nú fimm dögum síðar eru þessar tölur félags- og vinnumarkaðsráðherra úreltar. „Það er ekki hægt að segja að það séu hömlur á þessu þegar þetta eykst svona stjarnfræðilega á tiltölulega stuttum tíma. Þetta er komið í svo gígantískar tölur að við erum bara ekki samfélag sem getur staðið undir þessu,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær, spurð um mikla útgjaldaaukningu í útlendingamálum. Fréttamenn Ríkisútvarpsins hafa farið af stað þegar þeim finnst að ráðherrar séu tvísaga í yfirlýsingum um þennan málaflokk og jafnvel sagt þá fara með ósannindi eins og nýleg dæmi sanna. Ólíklegt er þó að félags- og vinnumarkaðsráðherra verði spurður um þetta ósamræmi í fréttum Ríkisútvarpsins.Skjámynd 2023-10-23 132536

Sérstakur skattur vegna Grindvíkinga

Á sama tíma og það er lagður sérstakur skattur á landsmenn vegna aðstoðar við Grindvíkinga, sem réttlættur er með því að annars aukist halli ríkissjóðs, er ríkissjóður skilinn eftir galopinn fyrir málaflokk hælisleitenda og flóttamanna. Nú segja sumir að ekki eigi að bera þessa málaflokka saman og alls ekki etja skjólstæðingum hins opinbera gegn hvor öðrum. En allir sjá að peningar eru takmörkuð auðlind og innan velferðakerfisins á hverjum tíma fara fram hörð átök um fjármuni. Það vita þeir sem þurfa að treysta á stuðning þessa kerfis.

Nú er í raun komin upp sú staða að Íslendingar þurfa að velja hvort þeir ætli að hafa hér öflugt velferðarkerfi eða opin landamæri. Báðir kostir eru ekki í boði nema til mjög skamms tíma.

Kostnaður vegna flóttamanna og hælisleitenda hækkar svo hratt að erfitt er að henda reiður á honum eins og sést af þessari umfjöllun hér í pistli fyrir tveimur árum. Þá voru aðrar og lægri upphæðir til umræðu. Hvernig á að reikna þennan kostnað? Í tölum félagsmálayfirvalda er einungis að finna beinan kostnað til málaflokksins. En hvað með aukakostnaðinn sem leggst á sveitarfélögin eða kostnaðinn sem fellur á ríkið vegna heilbrigðisþjónustu? Vegna þessa málaflokks er nú til dæmis kominn margra mánaða biðlisti eftir að komast til heimilislæknis. Þegar framlíða stundir kann þetta jafnvel að ógna samfélagssáttmálanum, en hér á landi hefur verið þokkaleg sátt um að greiða háa skatta en fá um leið öfluga ókeypis heilbrigðisþjónustu. Þá er ótalinn sá kostnaður sem fólk á leigumarkaði verður fyrir. Ríkið hefur leigt fjöldann allan af íbúðum fyrir skjólstæðinga sína og um leið þrýst leiguverði í landinu upp. Oft er rætt um að Airbnb sé að teppa húsnæðismarkaðinn hér, en staðreyndin er nú samt sú fleiri íbúðir eru í notkun fyrir flóttafólk og hælisleitendur en eru í boði á Airbnb. Þegar liðsmanni Ríkis íslams (ISIS) var vísað úr landi í janúar síðastliðnum kom í ljós að hann hafði búið í húsnæði sem Vinnumálastofnun hafði látið honum og stórri fjölskyldu hans í té í september síðastliðnum.vene1

Margir þessara hælisleitenda og flóttamanna þurfa á verulegri aðstoð að halda, bæði vegna líkamlegra sjúkdóma en ekki síður andlegra. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði hefur ítrekað bent á að stöðugt aðflæði nýs fólks setur gríðarlegt álag á innviði og starfsfólk. Þannig getur vafist fyrir sveitarfélagi eins og Hafnarfirði að fá til sín stöðugan straum barna í hverri viku sem eigi rétt á skólavist. Kemur það til meðal annars af því að Vinnumálastofnun hefur leigt hótel og húsnæði í bænum og án nokkurs samráðs sendir hælisleitendur beint inn til sveitarfélagsins, þar sem mikill fjöldi er þú þegar í þjónustu bæjarins.

Athygli mína vakti þegar Rósa benti á það að mörg þessara barna þurfi mikla aðstoð, jafnvel mann með sér. Þá þurfi sum þessara barna jafnvel tvo aðstoðarmenn og dæmi er um barn sem þarf þrjá aðstoðarmenn. Það gefur að skilja að erfitt er fyrir sveitarfélagið að ráða til sín faglegt starfsfólk í þessi störf. Sagði hún jafnframt að margir kennarar í skólum sveitarfélagsins væru að bugast vegna álags.

Hver er kostnaðurinn?

„Ég man ekki hvort það var núverandi dómsmálaráðherra eða sá næsti sem sagði að það stefndi í að tölurnar enduðu í 15 þúsund milljónum þetta árið, bara bein útgjöld ríkissjóðs. Þá er afleiddi kostnaðurinn eftir þannig að raunkostnaður er kannski 30 til 45 milljarðar. Það er svona flæði sem verður að spyrna fótum við,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, á síðasta ári.

Þessar upphæðir sem fara til hælisleitenda eru himinháar fyrir ríkissjóð. Ef það lá svona á að setja á skatt til að verja Grindavík, af hverju hefur aldrei verið rætt um að setja sérstakan skatt á vegna flóttamanna og hælisleitenda? Ekki það að hér sé verið að hvetja til aukinnar skattheimtu, en það liggur fyrir að enginn kjósandi var spurður hvort að hann vildi að 120 milljörðum (varlega áætlað) yrði varið til þessa málaflokks á kjörtímabilinu. Þessi upphæð myndi duga til að hjálpa öllum Grindvíkingum og meira en það. Ef það er svona sjálfsagt að „allir chippi inn“ eins og fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagði nýverið vegna gerðar fyrirhugaðra varnargarða við Grindavík, af hverju er þá ekki hreinskiptin umræða um hinn gríðarmikla kostnað sem ríkissjóður ber af þessum málaflokki. Sér í lagi þar sem ríkissjóður er rekinn með halla.raunútgjöld

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins í gær er var 20 milljarða króna múrinn í beinum kostnaði í málaflokknum rofinn, en það gerðist á síðasta ári. Athyglisvert er að sjá hve sumir hafa lagt sig fram um að gera sem minnst úr þessum kostnaði og jafnvel dreift röngum tölum. Í vikunni var umræða á Samstöðinni þar sem Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sagði þessa tölu vera 15 milljarða. Hann taldi hægðarleik að lækka hana með því að einfalda regluverkið í kringum hælisleitendur, ummæli sem koma á óvart. Margrét Tryggvadóttir rithöfundur sagði við sama tækifæri að Útlendingastofnun væri fasísk. Á sama tíma segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingimaður Sjálfstæðisflokksins, að brýnt sé að auka landamæraeftirlitið vegna ógna af skipulagðri brotastarfsemi. Það er ekki nema von að almenningur sé ráðvilltur. Tilvikið með liðsmann ISIS gæti sýnt að það skiptir máli að hafa virkt landamæraeftirlit. 

Dómsmálaráðherra kveðst óttast að kostnaður þessa málaflokks muni hækka á þessu ári og nefnir að það veki ugg hjá sér að áætlað sé að sami fjöldi hælisleitenda sæki hér um alþjóðlega vernd á þessu ári og því síðasta. Hælisleitendur sem sóttu um vernd hér á landi á síðasta ári voru 4.157 talsins. Raunaukning málaflokksins er ótrúleg eins og meðfylgjandi skýringarmynd úr Morgunblaðinu í gær sýnir.