c

Pistlar:

9. febrúar 2024 kl. 18:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Líbía er helvíti flóttamanna

„Líbía er helvíti,“ sögðu flóttamenn sem bjargað var á Miðjarðarhafinu fyrir tveimur vikum. Þá var bátur í neyð stöðvaður af björgunarskipi og 126 manns bjargað um borð, þar af 30 undir lögaldri og einu ungbarni. Allir um borð þjáðust af ofkælingu, ofþornun og þreytu eftir að hafa dvalið í bátnum tímunum saman þegar hann átti í erfiðleikum með að haldast á floti í baráttu við allt að tveggja metra háar öldur. Örvæntingahróp á arabísku bergmáluðu yfir öldurnar nokkrum klukkustundum fyrir sólarupprás. Að sögn eftirlifenda höfðu þeir lagt af stað frá strönd Líbíu tveimur dögum áður en lent í miklum hrakningum vegna erfiðra veðurskilyrða og mikillar öldu, allt þar til þeir voru stöðvaðir af björgunarskipinu þar sem bátinn rak á maltnesku hafsvæði.bátur

Þeir sem lifðu af ræddu við Al Jazeera fréttastofuna um þær skelfilegu raunir sem þeir höfðu orðið fyrir í tilraun sinni til að komast yfir Miðjarðarhafið, sérstaklega mannréttindabrotin Líbíumegin. Ungur sýrlenskur flóttamaður þjáðist af alvarlegri ofkælingu en hann sagði við fréttamann Al Jazeera að þrisvar hafi hann reynt að komast yfir, frá Trípólí til suðurhluta Ítalíu og að í hvert sinn hafi strandgæslan í Líbíu stöðvaði hann. „Þetta hefur verið helvíti. Líbía er helvíti. Ég reyndi að í átta mánuði fara án árangurs, aftur og aftur, við vorum alltaf neydd til baka,“ sagði hann.

Annar um borð bar vitni um ómannúðlegar aðstæður í líbýskum fangelsum undanfarið ár, eftir að hann hafði verið neyddur til baka í misheppnaðri tilraun til að yfirgefa strönd Norður-Afríku snemma árs 2023. „Þú skilur það ekki, það var ekki einu sinni komið fram við okkur eins og menn,“ sagði hann.

Hver ber ábyrgð á stöðunni í Líbíu?

Líbía er sannarlega helvíti fyrir marga en er eigi að síður helsti áfangastaður flóttamanna yfir Miðjarðarhafið. En af hverju er ástandið svona í Líbíu og hverjum er það að kenna? Áður hefur verið fjallað um Líbíu hér í pistli en sumir segja að Vesturlöndin beri ábyrgð með því að hafa áhrif á þá atburðarás sem varð til þess að Muammar Gaddafi hrökklaðist frá sem einræðisherra árið 2011. Gaddafi var enginn engill en einhverskonar stöðugleiki fylgdi honum. Aðrir segja að ástandið í Líbíu núna sé ógæfa þjóðar sem situr uppi með vígamenn í forystustöðum. Auk þess sé landið leiksoppur í baráttu forystumanna hins múslímska heims um að völd og áhrif.gadda

Allt þetta birtist með skýrum hætti þegar miklar hamfarir urðu í hafnarborginni Derna í september á síðasta ári þegar tvær stíflur í fjalllendi ofan borgarinnar brustu þegar stormurinn Daníel skall á og beljandi stórfljót flæddi yfir stóran hluta borgarinnar. Þar bjuggu um hundrað þúsund manns og fjórðungur borgarinnar skolaðist á haf út. Við blasti að viðhaldsleysi mannvirkja hafði öðru fremur valdið þessu þó sumum hafi þótt tilvalið að tengja flóðin við hlýnun jarðar. Líbanski Rauði hálfmáninn sagði að 11.300 hefðu farist en flestum skolaði á haf út án þess að finnast aftur. Tölur WHO voru jafnvel enn hærri.

Stjórnlaust land

Í allri óreiðunni sem ríkir í Líbíu má segja að það séu tvær stjórnir í landinu en einfaldara er að segja að landið sé meira og minna stjórnlaust. Hvorug stjórnin hefur vilja né getu til að halda innviðum svo sem heilsugæslu og skólum gangandi. Spítalar eru yfirfullir og alþjóðlegt hjálparstarf á erfitt með að nýtast þegnunum sem þó þurfa sárlega á aðstoð að halda. Austan megin, þar sem stíflur Derna brustu, ríkir Khalifa Haftar sem kominn er á nýræðisaldur og hugsar um það eitt að færa völd sín yfir til sona sinna. Hann var handgeng Gaddafi á sínum tíma en tók svo þátt í samsæri gegn honum og varð að flýja land og fékk hæli í Bandaríkjunum. Áður hafði hann stýrt herdeildum Líbíu sem tóku þátt í Yom Kippur stríðinu gegn Ísrael árið 1973.libía

Gyðingar báru ábyrgð á storminum!

Khalifa Haftar lét loka svæðinu þegar mótmæli íbúa voru farin að ógna veldi hans. Feðgarnir stýra austurhlutanum eins og um herforingjastjórn sé að ræða. Þeir berjast gegn hverskins breytingum til framfara og hafa hvað eftir annað hafnað tillögum um kosningar. En þeir Haftar-feðgar eru ekki einu mennirnir til þess að kenna öðrum um ófarir landsins. Kais Saied, einvaldur forseti í nágranaríkinu Túnis var með það á hreinu hverjir bæru ábyrgð á flóðunum, það voru jú gyðingarnir! Á ríkisstjórnarfundi í Túnis 18. september, rétt eftir flóðið, sagði hann það enga tilviljun að stormurinn bæri nafn eins af spámönnum gyðinga. Þvert á móti væri það til marks um hve rækilega síonistar hefðu smogið inn í hug og hugsanir fólks. Tímaritið Economist sagði í umfjöllun sinni í haust að almenningur í Líbíu þyrfti á forystu að halda og ekki síður aðstoð frá nágranalöndum sínum. Þess í stað fái þeir kúgun, afturhald og tilfallandi gyðingahatur.

En ef við víkjum aftur að þeim sem leggja á hafið frá ströndum Líbíu þá er talið að minnsta kosti 2.498 flóttamenn, farandfólk og hælisleitendur hafi drukknað árið 2023 þegar þeir fóru yfir Miðjarðarhafið. Það er samkvæmt tölum Alþjóðasamtaka um fólksflutninga, sem gerir það að verkum að árið 2017 er það mannskæðasta. En raunveruleg tala er talin vera mun hærri. Miðjarðarhafið er mannskæðasta fólksflutningaleiðin sem vitað er um í heiminum, með meira en 17.000 dauðsföll og mannshvörf skráð af Missing Migrants Project síðan 2014.