c

Pistlar:

27. febrúar 2024 kl. 20:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hættulegur drengur

Undarlega lítil umræða hefur verið í samfélaginu um ýmislegt sem kemur fram í dönsku heimildaþáttunum Hættulegur drengur (A Dangerous Boy) sem Stöð 2 sýndi fyrir stuttu. Að þáttunum standa norrænu sjónvarpsstöðvarnar DR, NRK, SVT, VPro, auk Stöðvar 2. Þótt margir staldri eðlilega við persónu Sigurðar Þórðarsonar, sem oft er nefndur Siggi hakkari, þá er einnig þarna margt annað forvitnilegt. Á hluta þess hefur verið bent hér í tveimur pistlum fyrir ekki svo löngu.

Þættirnir vekja upp spurningar um vinnubrögð íslenskra fjölmiðla. Hvort það geti gerst í einhverjum tilvikum að ritstjórnarvaldi sé útvistað og annar en skráður höfundur greinar hafi í raun skrifað hana. Nokkurskonar skuggapenni. Það birtist sérstaklega í lýsingum á áhrifum Kristins Hrafnssonar, talsmanns Wikileaks, á fréttaskrif blaðamannanna Kristjóns Kormáks Guðjónssonar og Bjartmars Odds Þeys Alexanderssonar. Kristinn Hrafnsson lýsti yfir andstyggð á framtaki dönsku heimildaþáttagerðarmannanna strax á vinnslustigi þáttanna. Síðan hafnaði hann allri samvinnu við þá. Ef marka má þættina hefur hann komið í veg fyrir að fleiri vildu aðstoða dönsku þáttagerðarmennina. Svo virðist sem hann hafi beit því sem blaðamenn kalla gjarnan „kælingu“ á verkefnið.korm1

Ritstýrði Wikileaks grein í Stundinni?

Þar sem Siggi hakkari varð að lykilvitni FBI í upphafsrannsókninni á hendur Julian Assange beindust sjónir manna að trúverðugleika hans. Vitaskuld er trúverðugleiki Sigga ekki mikill, innan veggja Wikileaks, þar sem hann vann eða utan. En Bjartmar Þeyr skrifar grein um Sigga hakkara þar sem þetta lykilvitni FBI var efnislega sagt afleitt. Þessi grein hans fór víða. Þá var Bjartmar Þeyr blaðamaður á Stundinni. Síðar komu fram fullyrðingar um að greinin hefði verið skrifuð að fumkvæði og ritstýrt af Wikileaks í þeim tilgangi að styrkja vörn Julian Assange. Greininni hafi þannig verið plantað en ekki lotið sjálfstæðri ritstjórn.birgitta

Í heimildaþáttunum undrast Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður og samstarfsmaður Julan Assange, að Bjartmar Þeyr skuli ekki hafa leitað til hennar við vinnslu fréttarinnar. Þá gagnrýnir hún hann og Wikileaks fyrir að hafa hætt heiðri sínum sem rannsóknarblaðamenn með vinnubrögðum sínum sínum.

„Að finna skít á Sigga“

Í heimildaþáttunum er rætt við Kristjón Kormák Guðjónsson, blaðamann. Þar segir hann Kristinn Hrafnsson hafa ráðið sig í tveggja mánaða verkefni hjá Wikileaks við það að „finna skít á Sigga“. Úr því verkefni hafi grein orðið til sem Bjartmar Þeyr var skrifaður fyrir. Lýsingar Kristjóns Kormáks eru sláandi. Hann segir að Bjartmar Þeyr hafi verið skipaður aðstoðarmaður hans við skrifin. Af samhenginu er ekki hægt að skilja það öðru vísi en það hafi verið Kristinn Hrafnsson sem stillti þessu öllu upp. Þá hafi bæði Kristjón Kormákur og Bjartmar Þeyr verið starfsmenn Wikileaks, þegar þeir skrifuðu greinina sem augljóslega átti að birtast annars staðar en hjá Wikileaks. Ekki er alltaf auðvelt að greina þarna á milli en Kristjón Kormákur segir að hann hafi ekki getað verið skrifaður fyrir greininni þar sem hann var starfsmaður Wikileaks.bjartm

Þess má geta í framhjáhlaupi að í nýafstöðunum réttarhöldum í Bretlandi vegna framsalskröfu á hendur Julian Assange var staða hans sem blaðamanns rædd sérstaklega. Samkvæmt frásögnum breskra blaða sagði lögmaður bandarískra stjórnvalda í réttarhöldunum yfir Assange í London hann hvorki vera blaðamann né útgefanda. Samkvæmt frásögn breska blaðsins Telegraph sagði lögmaðurinn Assange ekki skrifa fréttir og heldur ekki bíða eftir að einhver sendi honum leyniskjöl til birtingar á Wikileaks. Assange hafi hvatt til lögbrota, að trúnaður yrði brotinn og Wikileaks afhent skjöl með viðkvæmum upplýsingum. Assange hafi jafnvel gengið lengra og boðið aðstoð við að „hakka“ tölvukerfi. Slíkt framferði sé innbrot og þar af leiðandi glæpur og hann hafi lagt fjölda fólks í hættu með framferði sínu. Athygli vekur hve litla athygli hérlendir fjölmiðlar sýna málflutningnum sjálfum í Bretlandi. Sér í lagi í ljósi þess hve forsaga málsins er mikið tengd Íslandi. Aðeins Páll Vilhjálmsson bloggari hefur lagt sig eftir að fylgjast með þessu.

Aftur að persónum og leikendum hér heima. Kristjón Kormákur var lykilpersóna í hinu furðulega innbroti á skrifstofur Mannlífs sem afhjúpuðu að auðmennirnir Róbert Wessman og Björgólfur Thor Björgólfsson, keyptu þá umfjöllun sem þeir töldu sig þurfa. Þeir fengu þá blaðamenn til að skrifa óhróður um hvorn annan. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fjallaði um málið og mat það mjög alvarlegt. Samt fór Siðanefndin undarlega grunnt í málið miðað við hve alvarlegar ásakanirnar voru. Læddust að sumum grunnsemdir um að nefndin vildi helst ekki fá mikla umfjöllun um málið en það er önnur saga.siggi5 

Pulitzer-verðlaunin en annar skrifaði greinina!

Kristjón Kormákur lýsir því í þáttunum að starfslýsing hans hafi verið einföld. Hann átti að finna „skít“ á Sigga hakkara og gera hann þar með að ótrúverðugu vitni. Bjartmar Þeyr hafi átt að aðstoða hann við verkið. Kristjón Kormákur segir Bjartmar Þey hafa verið duglegan að hringja í fólk en slakan penna. Þess vegna hafi það lent á honum að skrifa frásögnina og fréttina um Sigga hakkara. Frétt sem sagt var að Bjartmar Þeyr ætti að fá Pulitzer-verðlaunin fyrir! Í samtali við Bjartmar á Siggi hakkari að hafa viðurkennt að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni þannig að hér er augljóslega um stóra frétt að ræða.korm4

Í þessu ljósi er fróðlegt að lesa frétt DV frá 8. nóvember 2021. Þar segir að George Galloway, fyrrverandi þingmaður í Bretlandi, hafi greint frá því að hann voni að íslenski blaðamaðurinn, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, hljóti Pulitzer-verðlaunin fyrir umfjöllun sína um Sigurð Þórðarson. Bjartmar var gestur George í spjallþætti hans,The Mother of all Talkshows, þá helgi og ræddi um hlut Sigga hakkara í máli Bandaríkjanna gegn Julian Assange. Þar furðaði George sig á því að Bjartmar, þrátt fyrir að hafa bara um þriggja ára reynslu að baki í blaðamennsku, hafi tekist að kippa stoðunum undan máli Bandaríkjanna gegn Assange. „Þetta gæti verið byrjendaheppni eða þetta gæti verið blaðamennska sem vinnur til Pulitzer-verðlaunanna. Mig grunar að það sé það seinna,“ sagði George og fékk að launum bros frá Bjartmari Þey.korm6

„Mér varð hreinlega óglatt"

Einhverra hluta vegna vildi Bjartmar Þeyr ekkert tala við dönsku þáttagerðarmennina. Hann átt þó í engum erfiðleikum með að segja frá aðkomu sinni í viðtali á Samstöðinni skömmu áður en þættirnir voru sýndir. Í frétt á Vísi þegar þættirnir fóru í loftið, á systurstöðinni Stöð 2, var eftirfarandi fyrirsögn höfð eftir Bjartmari Þey: „Mér varð hreinlega óglatt". Í samtali á Samstöðinni sagði hann að hann hefði verið lengi að jafna sig eftir viðtalið við Sigga. Það hafi þurft að fara yfir hvert orð sem Siggi sagði, engu var treystandi.korm5

Það má vera en það skýrir ekki hlutverk Bjartmars Þeys sem virðist hafa lotið ritstjórn Kristins Hrafnssonar hjá Wikileaks. Bjartmar hafi svo birtist á fundum og uppákomum lekaveitunnar þar sem hann túlkar málstað þeirra og Assange af mikilli einurð. Það er erfitt að álykta annað en að hann hafi verið launaður starfsmaður Wikileaks, við að „grafa upp skít um Sigga“ og koma því á framfæri við aðra fjölmiðla. Hugsanlega hafa þeir hjá Wikileaks talið að Siggi hakkari væri þeirrar gerðar að beita mætti öllum meðulum gegn honum. Skipti þá engu að hann hafi verið samstarfsmaður þeirra frá barnæsku.

A Dangerous Boy
Danskir heimildaþættir
Framleiðsluár: 2023
Leikstjóri: Ole Bentzen
Framleiðandi: Søren Steen Jespersen fyrir Pipeline
Meðframleiðendur:  TV Channel, DR, NRK, SVT, VPro og Stöð 2