c

Pistlar:

7. mars 2024 kl. 19:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stokkið til Fuerteventura

Ferðalög eru stór hluti þeirra lífsgæða sem nútímamaðurinn veitir sér og þarf ekki mikið til að menn stökkvi landa á milli nánast fyrirvaralaust. Hér á Íslandi dugar það eitt að veðurlúnir landar vilja komast burtu úr febrúarstorminum og ylja á sér tærnar í stundarkorn. Bæði íslensku flugfélögin bjóða upp á tíðar ferðir milli Íslands og Kanaríeyjanna og þar dveljast hverju sinni nokkur þúsund Íslendingar eins og þeir sem nota samfélagsmiðla verða rækilega varir við. Um 12,3 milljónir ferðamanna komu til Kanaríeyja árið 2022 en þá var ferðaþjónustan að taka við sér eftir fall vegna kóvíd-faraldursins. Árið 2017 höfðu tæplega 14,5 milljón ferðamanna komið til eyjanna. Árið 2022 komu um tvær milljónir ferðamanna til Fuerteventura. Þjóðverjar eru þar langfjölmennastir eða ríflega fjórðungur.fuerte

Fyrir ekki löngu síðan fór flugfélagið Play að bjóða upp á ferðir til Fuerteventura sem er næst stærst Kanaríeyjanna. Yfir veturinn bjóðast þar tilboð á gistingu sem ýta án efa á eftir ferðamönnum að stökkva til. Fuerteventura liggur næst Afríku í eyjaklasanum, mitt á milli Gran Canaria og Lanzarote. Um 90 kílómetra breitt sund skilur eyjuna frá ströndum Marokkó og Saharaeyðimörkinn en þaðan kemur sandurinn sem býr til hvítar strendur Fuerteventura. Haft er á orði að hver Kanaríeyjanna hafi sín sérkenni og á Fuerteventura eru það strendurnar með fínum hvítum sandi og kristaltærum sjó.

Eyja vatnasportsins

Nokkuð vindasamt er við Fuerteventura og hafstraumar varasamari en annars staðar á Kanaríeyjum. Brettasiglarar hafa fyrir vikið fundið þarna sína paradís en sumum kann að finnast full vindasamt, sérstaklega þegar lofthitinn er 15 til 18 gráður. Ferðir Íslendinga þangað eru ekki nýmæli en fyrir 15 til 20 árum buðu Heimsferðir upp á ferðir þangað. Íbúar Fuerteventura hafa undanfarna áratugi byggt upp mikla innviði fyrir ferðamennsku og meðal annars lagt talsverða áherslu á að þjónusta golfáhugamenn en allt vatn á eyjunni kemur frá hreinsunarstöðvum sem knúnar eru rafmagni frá vindorkuverum, sem virðist rökrétt þegar horft er til þess að nokkuð vindasamt er á eyjunni þó meira á suðurhlutanum að því er heimamenn segja. Þetta er eyja vatnasportsins og þar eru haldnar alþjóðlegar keppnir í brimbrettabruni, djúpsjávarveiði, kajaksiglingum og sundi milli eyja, svo eitthvað sé nefnt.fuerte3

Oftast reiknast mönnum til að Kanaríeyjarnar séu sjö talsins en auk þessara sjö stærstu eyja eru margar smáeyjar. Mörgum finnst heillandi við Kanaríeyjarnar hve ólíkar þær eru hvor annarri, hvort heldur sem er menning, landslag eða jafnvel veðurfar. Allar eiga það þó sameiginlegt að það er hægt að ganga að sól og hita umfram aðra staði Evrópu yfir vetrartímann og fyrir vikið eru þær vinsæll áfangastaður Íslendinga. Það er þó ekkert öruggt þegar kemur að veðurfari.

Íslenskt landslag  

Eyjarnar urðu allar til eftir eldgos í sjó og á einhverjum þeirra má því sjá landslag sem er mjög áþekkt því sem við Íslendingar sjáum hér heima. Það er sérstakt að aka um Fuerteventura, á köflum lítur eyjan út eins og eyðimörk, oft má sjá landslag sem minnir mjög á Ísland en á Fuerteventura má greinlega sjá hraun, ekki nýrunnið en talið er að þar hafi síðast kosið fyrir um 4 til 5000 árum. Hraunið er þó áberandi á hluta eyjarinnar og merkilegt að sjá svo gamalt hraun sem ekki hefur gróið upp enda á mosagróður ekki upp á pallborðið þarna.fuerte2

Á Fuerteventura má finna margar og ólíkar strendur og eyjan er þekkt fyrir að vera með stærstu strendurnar af öllum Kanaríeyjunum, alls um 150 kílómetra. Strendurnar á Fuerteventura eru náttúrulegar, hreinar og margar hverjar einstaklega fallegar. Þar sem pistlaskrifari gisti á suðurhluta eyjunnar, í um klukkutímaakstri frá flugvellinum voru fallegar strendur og nýttu margir þær til útivistar. Reyndar er svo mikið af ströndum á eyjunni að heimamenn tala um að ef þú kemur að strönd og einhver er þar fyrir, þá sýnirðu honum þá virðingu að fara á næstu strönd! Það er sem sagt nóg af ströndum fyrir alla.

Höfuðborgin hét til skamms tíma Puerto Cabras eða Geitahöfn, en í dag heitir borgin því glæsilega nafni Puerto Rosario en þar búa um 45 þúsund af 130 þúsund eyjaskeggjum. Þar er að finna höfn og fjölda kaffi- og veitingahúsa. Þrátt fyrir nafnið eru rósirnar ekki margar þar en í eina tíð var þar talsverður fjöldi hermanna úr útlendinga- og Saharahersveit Spánar. Þegar Spánverjar gáfu frá sér Spænsku Sahara árið 1975 voru hersveitirnar sem þar voru staðsettar, fluttar yfir á Fuerteventura ásamt öllu sínu hafurtaski. Haft var þá að orðið að hermennirnir og hið afríska yfirbragð gæfi eyjunni nýjan blæ skáldsagna sem væri bæði heillandi og fráhrindandi. Friðsamara er þar nú um að litast enda snýst allt líf á eyjunni um að þjónusta ferðamenn.