c

Pistlar:

11. mars 2024 kl. 10:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

25 milljónir við hungurmörk í Súdan

Talið er að um 25 milljónir manna, sem hafa orðið fyrir barðinu á stríðinu í Súdan, viti ekki hvaðan næsta máltíð þeirra kemur, samkvæmt upplýsingum frá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem hafa krafist vopnahlés nú í föstumánuðinum, Ramadan. Allar fréttastofur eru á einu máli um að stríðið í Súdan sé nú „kveikja að stærstu hungurkreppu heimsins,“ þar sem meira en 25 milljónir manna eru „fastar í spíral“ mataróöryggis, hefur stofnun Sameinuðu þjóðanna varað við segir í nýlegri frétt CNN. Þetta ástand hefur fengið litla athygli hér á Íslandi fyrir utan skrif Morgunblaðsins.sudan3

Níu af hverjum 10 íbúum víðsvegar um Súdan standa frammi fyrir „neyðarstigi hungurs“ og eru fastir á svæðum sem eru að mestu óaðgengileg vegna „vægislauss ofbeldis og afskipta stríðsaðila,“ sagði í tilkynningu matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) síðastliðinn miðvikudag. Stríðið hefur einnig hrint af stað stærstu flóttamannakreppu heimsins, samkvæmt SÞ, og hefur nú þegar sett 18 milljónir manna í alvarlega stöðu þegar kemur að mataröryggi í Súdan og það nær til milljón til viðbótar í nágrannaríkjunum Suður-Súdan og Tsjad. Flestir átta sig á því að Suður-Súdan er ekki aflögufært og það að leita jafnvel skjóls í Darfur-héraðinu alræmda, þar sem íbúarnir hafa mátt þola fæðuskort og ofbeldi um árabil, sýnir alvarleika ástandsins.

„Fyrir tuttugu árum var Darfur stærsta hungurkreppa heims og heimurinn fylkti liði til að bregðast við. En í dag er fólkið í Súdan gleymt. Milljónir mannslífa og friður og stöðugleiki heils svæðis eru í húfi,“ sagði Cindy McCain, framkvæmdastjóri WFP.

Átta milljónir á vergangi

Tug þúsundir manna hafa þegar fallið og talið er að um átta milljónir séu á vergangi í kjölfar þess að bardagar brutust út í apríl fyrir ári á milli hersveita sem eru hliðhollar tveimur hershöfðingjum, hershöfðingjanum Abdel Fattah al-Burhan, sem fer fyrir hersveitum Súdans (SAF), og hins vegar yfirmanns hraðsveita herliðsins, (RSF) Mohamed Hamdan Dagalo hershöfðingja.

Íslamistinn Al-Burhan var einn af þeim sem stóðu að þjóðarmorðinu í Darfur á sínum tíma. Hann ferðaðist síðar til Egyptalands og síðan til Jórdaníu til að fá þjálfun á hersviði sínu þar til árið 2018 var hann skipaður yfirmaður landhers súdanska hersins. Ári seinna stóð hann fyrir fjöldamorðum í Khartoum.

Andstæðingur Al-Burhan er ekki síður með blóðugan feril. Mikið af áhrifum RSF sveitanna má rekja til leiðtoga þeirra, Mohamed Hamdan Dagalo hershöfðingja, þekktur sem „Hemedti“ eða „Litli Mohamed“. Hann varð áberandi sem varaleiðtogi bráðabirgðaráðs sem sett var á laggirnar eftir að fyrrverandi valdhafa Omar al-Bashir var steypt af stóli árið 2019. Mohamed Hamdan Dagalo starfaði lengst af sem sölumaður kameldýra en er nú ein verst þokkaði stríðsherra þessa svæðis. Eins og margir aðrir leiðtogar í þessum heimshluta er hann ógn við stöðugleika og líf og limi fólks.sudan1

Sameinuðu þjóðirnar hafa áður sagt að aukning í kynbundnu ofbeldi síðan átök brutust út jafngildi glæpum gegn mannkyni. Í júlí sögðu SÞ að allt að 4,2 milljónir kvenna og stúlkna væru í aukinni hættu á kynferðisofbeldi, en rannsókn CNN hefur ítarlega greint útbreidd tilvik um kynferðisbrot sem súdanskir aðgerðarsinnar hafa bent á, einkum í Darfur svæðinu, þar sem heil samfélög hafa að sögn verið eyðilögð með kerfisbundnum morðum á grundvelli þjóðernis.

Þekkt hungursvæði

Mikið þarf til að matvælaskortur sé formlega flokkaður sem hungursneyð og á síðustu árum hefur slíkt ástand aðeins talist hafa komið upp í Sómalíu árið 2011 og í Suður-Súdan árið 2017. Nú er talin hætta á að stærsta hungursneyð sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir, í seinni tíð að minnsta kosti, sé yfirvofandi í Súdan. Heimurinn hefur verið mjög upptekinn af átökum annars staðar en ekki má gleyma þeim hörmungum sem almenningur í Súdan hefur mátt þola allt of lengi.sudan2

Ástæðan er stríð sem staðið hefur í tæpt ár og kostað mikið mannfall og eyðileggingu, á milli þeirra sem telja má stjórnvöld í landinu og fyrrverandi bandamanna þeirra. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins benti á það um helgina að stríðið fléttast að nokkru inn í átök í Mið-Austurlöndum og er einnig hluti af átökum sem geisað hafa um árabil víða á svæðinu sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku og hefur verið fjallað um hér í pistli. Þessi átök hafa orðið til þess að fjöldi manna hefur flosnað upp frá heimilum sínum og heimkynnum og leitað til nálægra landa, sem eru mjög vanbúin að taka við slíkum flóttamönnum, eða jafnvel til Evrópu, sem hefur einnig fundið mjög fyrir þessum flóttamannastraumi.

Utanríkisráðherra Íslands gerði ástandið í Súdan að umtalsefni á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn. Það má taka undir með Morgunblaðinu að þjóðir heims verða að gera sitt til að reyna að stilla til friðar í landinu og leitast við að koma í veg fyrir stórfellt mannfall af völdum hungursneyðar. Ísland getur lagt sitt af mörkum í þessum efnum. Langsamlega skilvirkasta leiðin í þeim efnum er að hjálpa fólkinu á heimaslóðum eða sem næst þeim, ekki að freista þess að flytja það hingað með litlum árangri en miklum og margvíslegum kostnaði.