c

Pistlar:

14. mars 2024 kl. 17:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Maginot-lína Íslendinga

Sagt var eftir hrakfarir með Maginot-línuna í seinni heimstyrjöldinni að Frakkar berðust alltaf í liðnum styrjöldum. Fyrir þá sem ekki muna þá var André Maginot einn frægasti hershöfðingi Frakka í fyrri heimstyrjöldinni. Þá var varnarlínan byggð á hertækni skotgrafanna. Uppruna hennar má rekja til hugmynda franska hersins um stríðsrekstur. Herinn gerði ráð fyrir að öll stríðsátök yrðu eins og í fyrri heimsstyrjöldinni. Í ljósi þeirrar reynslu töldu frönsku hershöfðingjarnir hyggilegast að byggja virki á landamærunum, verjast þar árásum andstæðingsins og snúa svo vörn í sókn þegar hann tæki að þreytast. Þannig hefðu þeir átt að undirbúa sig fyrir síðustu styrjöld og það myndu þeir gera núna. Því má segja að Frakkar hafi ekki komist upp úr skotgröfum fyrri styrjaldar og sjálfur Charles de Gaulle skrifaði bók um hernaðartækni sem einungis Þjóðverjar lásu og fóru svo bara framhjá Magniot-línunni þegar þeir hertóku Frakkland.eftirlitfme

Íslendingar eru nú að endurtaka mistök Frakka. Við erum enn að takast á við síðustu mistök og tökum því ekki eftir því sem nú er að gerast í samfélaginu. Brynjólfur Bjarnason, fráfarandi stjórnarformaður Arion banka, tók starfsemi Fjármálaeftirlitsins (FME) sem dæmi um aukin umsvif eftirlitsiðnaðarins á aðalfundi bankans fyrir skömmu. Brynjólfur benti á að árið 2005 hafi verið um 4.500 manns starfandi í fjármálageiranum og starfsfólk FME taldi þá 35 einstaklinga. Það samsvari um 1 starfsmann á hverja 128 í greininni. Hann áætlar að á síðastliðnu ári hafi starfað að jafnaði um 3.000 manns í fjármálakerfinu. Starfsmönnum þess hafi því fækkað um 1.500 frá árinu 2005 en á sama tíma hafi starfsfólki FME fjölgað í 120. Það gerir því 1 eftirlitsstarfsmann á hverja 25 starfsmenn á fjármálamarkaði. Brynjólfur áætlar að kostnaður Fjármálaeftirlitsins hafi aukist frá árinu 2005 úr tæpum 10 milljónum króna á hvern starfsmann eftirlitsins í rúmar 20 milljónir króna nú (á föstu verðlagi). Þá er ótalin kostnaður bankakerfisins sjálfs og endurskoðenda við að sinna kröfum eftirlitsins. Endalaus smásmygli og skýrslugerð (sem sjaldan eru lesnar) einkenna þessa tíma. 

Mannsal og tilfallandi smugur

Það er erfitt að sjá fyrir sér að áföll geti orðið í bankakerfinu í ljósi traustrar stöðu þess. Við sjáum þó að eftirlit hefur skort víða annars staðar. Furðuleg framkvæmd við próf og úthlutun leigubílaskírteina á vegum Samgöngustofu er eitt þessara dæma, þar sem eftirlitið brást. Þar er allt í tómu rugli og ökupróf framkvæmd þvert á lög og reglugerðir.

Við sjáum þetta víða í kringum hælisleitendur og stundum innflytjendur. Skýrasta dæmið nú er Wok On mannsalsmálið svokallaða. Þar sem víetnamskir innflytjendur byggja upp rekstur í tveimur löndum og nýta sér allar smugur sem finnast. Nú rífast starfsmenn eftirlitsstofnana um hver hefði átt að fylgjast með starfseminni. Augljóslega er engin með neina heildarsýn. Fáir eru á móti eftirliti með matvælaframleiðslu og veitingastarfsemi. Mestu skiptir auðvitað að það sé skilvirkt. Við blasir þó að augljóslega hafa þeir veitingastaðir og matvælainnflutningur sem þeim tilheyrði verið lítt heilsusamlegir. Mansalið kemur síðan til viðbótar en umfang þess og hve lengi það stóð yfir vekur furðu enda augljóslega spilað á vinnulöggjöf landsins. eftir-land

Skipuleg glæpastarfsemi

Skipuleg glæpastarfsemi er mesta meinsemd sem getur grafið um sig í samfélögum. Við ættum að hafa allar forsendur til að verjast slíku, búandi á eyju umlukta sjó á alla vegu. En landið er augljóslega galopið. Nánast daglega erum við minnt á furðulega framkvæmd við landamæraeftirlit eða brottvísun fólks sem augljóslega á ekkert erindi hingað eða er búið að fyrirgera sér gestrisni Íslendinga. 

Við undrumst skýr dæmi mansals þar sem verðmiði er settur á landvist hér upp á tugi milljóna króna. Verðum við alltaf jafn undrandi þegar sú skipulega glæpastarfsemi birtist okkur sem sífellt fleiri tala um? Lögreglan hefur í skýrslum sínum vakið athygli á þessu en talað fyrir daufum eyrum. Auðvitað verður að efla löggæslu og landamæraeftirlit svo að unnt sé að taka á þessum málum. Nú er lögreglan oftar en ekki upptekin við að rannsaka heldur fáfengileg mál sem tilheyra samskiptum fullorðins fólks. Sem jú vissulega geta verið stormasöm en tæpast tilefni eftirlits.