c

Pistlar:

26. mars 2024 kl. 17:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Frakkar yfirgefa Afríku

Eftir margra alda viðveru í Afríku eru Frakkar að yfirgefa álfuna og þar með má hugsanlega setja punktinn aftan við nýlendustefnu þeirra í álfunni. Sú saga er ekki alltaf falleg en brottförin núna er að sumu leyti við válegar aðstæður þar sem ófriðlegt er nú í mörgum þeim löndum sem Frakkar tengjast. Hér hefur áður verið fjallað um ástandið á Sahel-svæðinu, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku, en þar er helsta átakasvæði heims í dag. Í september síðastliðnum tilkynnti Macron Frakklandsforseti að hann hygðist kalla heim sendiherra Frakka í Níger og um leið franska hermenn sem þar voru staðsettir við friðargæslu. Með brottför Frakka er ástæða til að óttast að óstöðugleiki aukist enn frekar en það má að mestu rekja til uppgangs íslamskra vígaherra.frakkar1

Í júlí síðastliðnum var forseti Níger handtekin og hnepptur í varðhald af lífvörðum hans með tilstyrk hersveita landsins. Frakkar voru með um 1500 hermenn í landinu og tilkynntu að þeir myndu ekki taka við neinum skipunum frá byltingarmönnum. Macron sagði að Mohamed Bazomu hefði verið kosinn með lýðræðislegum hætti og því myndu Frakkar aðeins viðurkenna stjórn hans. Ákvörðun um algert brotthvarf frá landinu var studd þeim rökum að byltingastjórnin hefði engan áhuga á að berjast gegn hryðjuverkasveitum á svæðinu.

Átakasvæði íslamista

Þessi þurra landræma, þekkt sem Sahel, býr nú við átök tengd jihadistum í löndum eins og Búrkína Fasó, Malí og Níger. Það er til viðbótar við hömlulaus upplausnarástand í norðurhluta Nígeríu þar sem stjórnvöld eru í að því er virðist vonlausri baráttu gegn hryðjuverkamönnum Boko Haram og afleggjum þeirra. Þessi átök ná meðal annars til fjögurra landa umhverfis Tsjadvatn. Í Súdan er borgarastríð, rjúkandi þjóðernisátök í norðurhluta Eþíópíu og í suðri eru hryðjuverkamenn al-Shabab alls ráðandi í Sómalíu. Af þessu sést að fjöldi landa hefur dregist inn í þessi átök sem hafa hugmyndafræðilegan bakgrunn en enga þekkta forystu og mjög óljósa framtíðarsýn. Bæði Boko Haram og al-Shabad teljast til súnníta sem og flestar íslamskar vígasveitir á þessu svæði.

Samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna stendur Sahel-svæðið frammi fyrir djúpstæðum mannúðaráskorunum með 37,8 milljónir manna í brýnni þörf fyrir lífsbjörgunaraðstoð og vernd, það er 3 milljónum manna fleiri en í fyrra.frakk2

Frökkum skipt út fyrir rússneska málaliða

Frá 2013 til 2022 reyndu Frakkar að styðja við baráttu gegn jihadistum í Búrkína Fasó, Malí, Tsjad (Chad), Máritaníu og Níger, oftast að beiðni viðkomandi stjórnvalda. Þegar mest var voru um 5000 franskir hermenn í Afríku. Frakkar höfðu hrakist út úr Malí eftir að stjórnvöld skiptu þeim út fyrir rússneska hermenn úr Wagner-málaliðahernum. Þá færðu Frakkar sig inn til Níger.

Viðvera Frakka var síðasta tilraun nýlenduveldisins til að hafa áhrif á atburðarásina en fátt í stjórnmálaþróun þessa svæðis gefur tilefni til bjartsýni. Það má hafa skilning á að Frakkar hafi búið við tortryggni vegna sögu sinnar en ofbeldið eykst nú þegar þeir eru farnir. Tímaritið Economist vitnar í rannsóknarhópinn ACLED sem segir að ofbeldi hafi aukist um 42% á fyrstu mánuðum byltingarmanna í Níger. Mánuðina á undan hafði heldur dregið úr ofbeldi.

Rússar grófu undan Frökkum

Economist segir að þó ákvörðun Macron nú mótist af ákveðinni hentistefnu sé ekki hægt að horfa framhjá því að hún staðfestir einnig að Afríka er að hverfa undan áhrifum Frakka. Margt stuðli að því en áróðursherferðir Rússa og falsfréttir þeirra hafi haft verulega áhrif við að grafa undan Frökkum. Nú telji margir ungir Afríkumenn að Frakkar séu vandinn en ekki lausnin. Það sem einu sinni var kallað „francaafrique“ með vísun í að franska er ráðandi tungumál í mörgum löndum er að hverfa. Macron reyndi að milda afstöðu Afríkumanna og afhenti meðal annars ýmsar menningaminjar sem voru á frönskum söfnum en allt kom fyrir ekki. Nú verða Frakkar að endurmeta aðkomu sína að Afríku og byggja upp áhrif sín með nýjum hætti. Franskir herinn er ekki lengur áhrifavaldur þar.macronspark

Þó að Frakkar hafi reynt og náð nokkrum árangri við að róa átök á Sahel-svæðinu þá einkennist svæðið öðru fremur af óburðugum ríkjum undir stjórn herforingja eða hreinum lögleysusvæðum undir stjórn stríðsherra eða ættbálkahöfðingja. Skilin þar á milli eru ekki alltaf glögg og segja má að fullkomið stjórnleysi og óöld ríki víða á svæðinu, jafnvel svo að ómögulegt er að halda úti alþjóðlegu hjálparstarfi eða friðargæslu. Því miður er fátt sem bendir til þess að ástandið breytist sem er mjög skaðlegt fyrir öryggi og stöðugleika í þessum heimshluta. Eftir því sem ástandið varir lengur því meiri áhrif hefur það á aðliggjandi svæði.