Klassabíll á kostaverði

VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann …
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann góðan í snjónum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Einu sinni var bíll sem hét VW Passat CC og höfðaði til frekar fámenns kaupendahóps, þeirra sem vilja sportbílaeiginleika í fernra dyra bíl en samt sérstök þægindi og mýkt.

Nú er kominn á markað VW CC sem er nokkurs konar uppfærsla á Passat CC sem kom fyrst fram á sjónarsviðið 2009. Sú breyting sem skiptir mestu máli fyrir kaupendur hérlendis og gerir hann sölulegri er sú staðreynd að kominn er bekkur í stað tveggja sæta í aftari sætaröð. Áður var þessi búnaður bara fáanlegur sem sérpöntun en er nú staðalbúnaður.

Lág seta en gott rými

Útlitsbreytingarnar frá Passat CC í CC eru ekkert voðalega miklar. Framendinn fær mestu breytingarnar, bæði á stuðara og vélarhlíf, en samskonar breytingar eru gerðar á afturenda hans. Eins eru bitar undir hurðum hans meira formaðir en áður og komin eru díóðuljós allan hringinn, auk Xenon-aðalljósa sem beygja með bílnum. Að innan er CC hinn smekklegasti og efnisval eins og það gerist best hjá VW. Maður sest niður í bílinn og situr mjög lágt í honum. Fyrir vikið er höfuðrými og pláss í framsætum bara þokkalegt og það þrátt fyrir opnanlega glerþakið. Sætin eru sportleg með góðum stuðningi og er rafstilling á sætisbaki en færslan á setu er handvirk. Það skýtur hins vegar skökku við að hafa ekki sætishitara sem ætti einfaldlega að vera staðalbúnaður í öllum bílum sem eru seldir á Íslandi, sérstaklega ef þeir eru komnir yfir fimm milljónir í verði. Frágangur á mælaborði er til fyrirmyndar og það er kostur að hafa einföldu gerðina af miðstöðvarstillingum, ekki þarf að ýta í margar sekúndur á snertitakka heldur bara snúa rofanum til að setja miðstöðina í botn. Takkar fyrir opnun á bensínloki og skotti mættu reyndar vera betur staðsettir því það þarf töluvert að teygja sig í þá. Bíllinn er með stórum stjórnskjá með snertiviðmóti þar sem hægt er að stjórna hljómtækjum, aksturstölvu, leiðsögutæki og símabúnaði á þægilegan og einfaldan máta. Það hefði reyndar mátt nýta þennan hlut betur því prófunarbíllinn var ekki með símabúnað né leiðsögukerfi tengt.

Lítið pláss fyrir þrjá aftur í

Þegar sest er aftur í bílinn kemur strax í ljós einn augljós ókostur við hann en það er hversu langar hurðirnar eru. Það má ekki vera bíll mjög nálægt til að örðugt verði að koma sér inn í bílinn og þá sérstaklega aftursætin. Auðvelt hefði verið að sníða 10-15 sentimetra af endanum á afturhurðinni en líklega hafa fegurðarsjónarmið verið hér að verki. Þegar búið er að koma sér fyrir í aftursætunum er auðvelt að sjá að ekki er mikið pláss fyrir þrjá fullorðna þar því höfuð- og axlarými er af skornum skammti. Fyrir meðalmann eins og undirritaðan sleikir höfuðið afturhallandi þakið. Fótapláss er þó með ágætum og ef farþeginn er ekki af stærri gerðinni fer ágætlega um tvo fullorðna aftur í. Farangursrýmið nær mjög langt inn, enda bíllinn langur, og undir því er varadekk í fullri stærð. Fyrir vikið er farangursrýmið ekki mjög djúpt niður en þannig í laginu að það rúmar vel tvær stórar ferðatöskur sem dæmi. Ef koma þarf fyrir lengri hlutum er hægt að fella niður bak aftursæta með einu handtaki úr farangursrýminu og þá má koma fyrir mjög löngum hlutum, eins og til dæmis skíðabúnaði. Eins eru krókar við handföngin sem hengja má poka í svo þeir séu ekki á fullri ferð um langt farangursrýmið.

Mismunadrifslæsing virkar vel

Það þarf ekki annað en að horfa á VW CC til að sjá að útsýni aftur með honum getur varla verið gott og það var reyndin. Er þá blinda hornið rétt fyrir aftan bílinn sérlega slæmt vegna stórra C-pósta, mikið hallandi afturrúðu og lítilla og mjókkandi hliðarspegla. Bíllinn er með fjarlægðarskynjurum enda veitir varla af en blindhornsskynjari væri góð viðbót við hann. Annar hlutur er álíka augljós utan frá en það er hversu lágur hann er. Aðeins eru 124 millimetrar undir bílinn, sem er mjög lágt, en þar sem hjól eru utarlega er skögun hans ekki mikil. Til dæmis voru hraðahindranir ekkert að flækjast fyrir honum þrátt fyrir það. Eflaust yrði hann fljótur að festa sig í miklum snjó en hann réð þó vel við snjóinn sem var á höfuðborgarsvæðinu um helgina og má það þakka rafstýrðri mismunadrifslæsingu sem í honum er. Samspil hennar og spólvarnar er mjög gott og upptakið alltaf með besta móti þrátt fyrir snjó og hálku. Gott upptak dísilvélarinnar og vinnsla sex þrepa DSG-sjálfskiptingarinnar sem er alltaf tilbúin með næsta gír setur svo punktinn yfir i-ið. Föstudagurinn gaf smátækifæri á að reyna hann á auðu malbiki og það er óhætt að segja að bíllinn liggur vel á fjölliða fjöðrunarkerfinu og er hinn skemmtilegasti akstursbíll. Ekki skemmir heldur fyrir hversu hljóðlátur hann er.

Hver er keppinauturinn?

Það eru ekki margir keppinautar við VW CC en þessi byggingarstíll nýtur þó aðeins meiri vinsælda en áður og nokkra bíla sem eru framleiddir í Þýskalandi og nágrannalöndum má líta á sem beina keppinauta. Má í því dæmi nefna Audi A5 Sportback, BMW 6-línu Gran Coupé, Mercedes-Benz CLA þótt hann sé aðeins minni og svo hinn franska Peugeot 508. Verð þessara bíla er á nokkuð breiðu bili og því ekki alveg marktækt í samanburðinum. Sjálfskiptur Peugeot 508 með tveggja lítra dísilvél er næstur honum í verði en þar er grunnverðið 5.950.000 kr. sem gerir hann að aðalkeppinautnum. Keppinautar hans frá Þýskalandi eru einum flokki ofar í klassa en rétt að skoða þá í þessum samanburði. Verð BMW 6-línu Gran Coupé er ekki að finna á heimasíðu BL en gera má ráð fyrir að grunnverð hans sé talsvert hærra. Audi A5 er ekki fáanlegur með dísilvél en sá ódýrasti með sjálfskiptingu er 1,8 TFSI sem kostar 7.890.000 kr. Mercedes-Benz CLA er aðeins fáanlegur með 2,2 lítra dísilvél en sjálfskiptur kostar hann þannig 6.980.000 kr., sem er athyglisvert fyrir bíl sem er í rauninni stærðarflokki fyrir neðan þessa bíla sem hér um ræðir. Í rauninni eru tæpar sex milljónir ekki svo slæmt fyrir vel búinn og skemmtilegan bíl eins og VW CC. Til dæmis er samskonar bíll á 5,1 milljón í Bretlandi, sem er ekki mikill verðmunur.

njall@mbl.is

Efnisval í mælaborði er gott og allt þægilegt í notkun, …
Efnisval í mælaborði er gott og allt þægilegt í notkun, en það vantar tilfinnanlega sætishitara í kuldanum.
Afturljósin mynda stafina CC með díóðulínum og setja þau óneitanlega …
Afturljósin mynda stafina CC með díóðulínum og setja þau óneitanlega mikinn svip á bílinn.
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann …
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann góðan í snjónum.
Höfuð- og axlarými mætti vera betra í aftursætum sem rúma …
Höfuð- og axlarými mætti vera betra í aftursætum sem rúma ágætlega tvo meðalmenn, en nær ekki að rúma þrjá.
Tveggja lítra dísilvélin skilar 177 hestöflum og rífandi góðu upptaki …
Tveggja lítra dísilvélin skilar 177 hestöflum og rífandi góðu upptaki en er um leið sérlega hljóðlát, sem er til fyrirmyndar.
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann …
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann góðan í snjónum.
Handhæg handföng til að fella niður bak aftursæta eru í …
Handhæg handföng til að fella niður bak aftursæta eru í farangursrýminu og þar eru líka krókar fyrir innkaupapoka.
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann …
VW CC er skemmtilegur akstursbíll og rafeindastýrð mismunadrifslæsing gerir hann góðan í snjónum.
VW CC.
VW CC.
VW CC.
VW CC.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina