Ljóti andarunginn orðinn stór

Útlit BMW X6 þótti róttækt og jafnvel ljótt til að …
Útlit BMW X6 þótti róttækt og jafnvel ljótt til að byrja með en eins og andarunginn í ævintýrinu er hann farinn að fríkka með árunum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Fyrir aldamót voru jeppar og aðrir fjórhjóladrifsbílar frekar einhæf fyrirbæri og ekki mikið pláss fyrir nýjungar. Þetta hefur breyst mikið á undanförnum árum, meðal annars með tilkomu kúpujeppa eins og BMW X6 sem kom fyrst fram á sjónarsviðið 2008.

Reyndar var hann forljótur til að byrja með og úthrópaður fyrir marga hluti. Það sama er ekki hægt að segja um nýjustu útgáfu hans sem er örugglega sú fallegasta hingað til í þessum flokki fjórhjóladrifsbíla. Auðvitað er hann ekki fullkominn eins og lesa má hér fyrir neðan en BMW X6 er kominn til að vera, það sýna sölutölur en 260.000 slíkir hafa selst síðan 2008.

Góður fyrir framan farangursrými

Kannski er mesta breytingin innandyra í X6 en í stað fjögurra sæta eru komin fimm sæti eins og í flestum öðrum bílum. Bíllinn er betur búinn en áður og hefur ekki þyngst þrátt fyrir það og nú er hægt að fá hann með enn fullkomnari búnaði eins og næturmyndavél og búnaði sem keyrir bílinn sjálfvirkt í umferðaröngþveiti. Innréttingin er sérlega falleg og stílhrein með innfelldum díóðuljósum og stafrænu mælaborði sem breytist og skiptir litum þegar skipt er um akstursham. Framsæti eru sérlega þægileg og hægt að stilla á alla kanta, einnig undir lærleggjum sem er kostur. Þegar komið er í aftursæti kemur fótarými nokkuð á óvart sem og stærð og þægindi sæta, en þau eru þó aðeins fyrir meðalstóra farþega þar sem hætt er við að þeir sem hærri eru fái ekki nóg höfuðpláss. Tekið skal þó fram að prófunarbíllinn var útbúinn sóllúgu en slíkur búnaður hefur alltaf áhrif á höfuðrými, einnig í aftursætum. Þegar komið er að farangursrými er það þokkalegt á alla kanta, nema niður. Nokkuð hátt er upp í gólf þess og varadekkið tekur fáránlega mikið pláss þótt það sé svokallaður aumingi. Farangursrýmið er gefið upp 580 lítrar og 1.525 með aftursætin niðri sem er 75 lítrum betur en fyrri kynslóð. Það sem slær ökumanninn þó mest út af laginu er hversu útsýni aftur er lélegt og hefur undirritaður aldrei séð það jafnslæmt og í þessum bíl, ekki einu sinni í Koenigsegg CCX. Afturrúðan hallar langt aftur og virkar meira á ökumann eins og framhald af topplúgunni frekar en afturrúða. Bíllinn er hár og þar af leiðandi hverfa jafnvel sumir bílar undir afturrúðunni þegar þeir stoppa fyrir aftan X6 á ljósum.

Sannkallaður sportjeppi

En það er hætt við að álit manna á bílnum breytist aðeins þegar farið er að keyra gripinn. Margir skemmtilegir sportjeppar hafa komið fram á sjónarsviðið að undanförnu, bílar eins og Porsche Macan og Audi SQ5 en BMW X6 stenst þeim fyllilega snúning í akstri og vel það. Reyndar gæti þér farið að líða eins og manninum sem er að réttlæta fyrir sjálfum sér að kaupa sportbíl. Jú, það er ekki gott farangursrými en þetta er nú einu sinni sportbíll. Þegar skipt er yfir í sportham og slökkt á spólvörninni finnst vel hversu megnugur þessi bíll er í akstri. Krafturinn og þá sérstaklega togið er nægilegt til að yfirstýra bílnum í beygjum sem er ekkert áhlaupaverk fyrir bíl sem er meira en tvö tonn. Fjöðrunin er stíf eins og von er og vísa í BMW en samt ekki þannig að hún kasti honum til út í hornin eins og títt hefur verið um BMW-jepplinga hingað til. Bíllinn sem var prófaður var með M-sportpakka ásamt stillanlegri fjöðrun og massívum 20 tommu dekkjum með 315 mm breiðum bana svo að óhætt var að segja að veggripið var eins og best verður á kosið. Vélin er kapítuli fyrir sig og þótt prófuð hafi verið minnsta vélin ætti hún að duga flestum. Þegar togið grípur svona snemma inn í þrýstist maður niður í sætið og hljómurinn er heldur ekki af verri endanum. Samt malar hún hljóðlaust í hægagangi eins og köttur í fangi eiganda síns, sem bíður eftir að komast út að leika. Vélin er eyðslugrönn þegar aflið er haft í huga, aðeins sex lítrar í blönduðum akstri þykir ekki mikið. Eyðslutölvan sagði 8,7 lítrar þegar bílnum var skilað eftir reynsluaksturinn en eins og sjá má af myndunum var sparakstur ekki alltaf orð dagsins. Þótt losun koltvíoxíðs sé uppgefin 157 grömm á kílómetra þykir það heldur ekki hátt í hlutfalli við afl og þyngd bílsins.

Verðið í meðallagi

Grunnverð BMW X6 er 12.990.000 kr. sem er aðeins hærra en grunnverð Porsche Macan sem byrjar í 11.790.000 kr. Annar svipaður keppinautur er Audi SQ5 sem kostar í grunninn 11.590.000 kr. svo að Bimminn er talsvert dýrari en þeir. Lexus RX350 er einnig hugsanlegur keppinautur en sá kostar 13.560.000 kr. í grunnútfærslu svo að X6 er ekki sá dýrasti í hópnum. Svo má deila um hvort bera eigi X6 saman við stóru bræður Porsche Macan og Audi SQ5 eða jafnvel Range Rover Sport en þeir eru auðvitað dýrari en BMW X6. Hafa ber í huga að hinn eini sanni keppinautur við X6 verður Mercedes-Benz GLE Coupe sem væntanlegur er á markað seinna á árinu og ekkert ljóst um verð á honum ennþá.

njall@mbl.is

Kostir: Aksturseiginleikar, kraftur, innrétting

Gallar: Farangursrými, útsýni aftur

Vélin er í senn öflug og togmikil, hljóðlát og þýð …
Vélin er í senn öflug og togmikil, hljóðlát og þýð og dugar þessum bíl alveg fullkomlega þótt um minnstu vélina sé að ræða. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Í sportham með slökkt á spólvörninni er auðvelt að leika …
Í sportham með slökkt á spólvörninni er auðvelt að leika sér á BMW X6. Þá sést hvers hann er megnugur. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Í sportham verður stafrænt mælaborðið viðeigandi eldrautt í stíl.
Í sportham verður stafrænt mælaborðið viðeigandi eldrautt í stíl. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Farangursrýmið er djúpt og þokkalega rúmgott með 580 lítra plássi …
Farangursrýmið er djúpt og þokkalega rúmgott með 580 lítra plássi en gólfið er hátt og langt inni í bílnum því varadekkið tekur mikið pláss. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Bíllinn kemur á 315x35 20 dekkjum í M-útfærslu sem veita …
Bíllinn kemur á 315x35 20 dekkjum í M-útfærslu sem veita heilmikið grip ásamt fullkomnu fjöðrunarkerfi bílsins. BMW X6 steinliggur á veginum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Eins og sjá má er höfuðrýmið þannig að meðalmaður sleikir …
Eins og sjá má er höfuðrýmið þannig að meðalmaður sleikir þak innréttingar með skallanum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina